Lituð dagkrem
Complexion Rescue frá bareMinerals er gelkennt litað dagkrem sem gefur létta þekju og fallegan ljóma á húðina. Ginzing frá Origins aðlagast húðlitnum og gefur frísklegan lit og léttan gljáa. Bæði innihalda sólarvörn og eru nærandi fyrir húðina.
Léttur farði
Touche Éclat All-in-One Glow frá YSL er gullfallegur, mjög fljótandi léttur farði sem borinn er á eins og dagkrem. Best er að nudda honum inn í húðina með fingrunum og þá blandast hann vel inn í húðina og gefur létta þekju sem auðvelt er að byggja upp. Gefur æðislegan ljóma en nær að vera nánast ósýnilegur á húðinni. Complexion Rescue-stiftfarðinn frá bareMinerals er kremaður farði sem veitir húðinni kælandi tilfinningu. Gefur létta þekju sem hægt er að byggja upp. Eins er hann sérlega náttúrulegur á húðinni og góður í töskuna yfir daginn, til að fríska sig við.

Milliþekjandi farði
Forever Skin Glow frá Dior er nýi uppáhaldsfarðinn okkar þegar við viljum milliþekju og fallegan ljóma. Eins er hægt að fá hann í mattri útgáfu, fyrir þær sem það hentar betur.
Fullþekjandi farði

Studio Skin frá Smashbox er besti fullþekjandi farði sem við höfum prófað. Hylur bókstaflega ALLT en áferðin er aldrei kökukennd. Helst líka einstaklega vel á húðinni. Pharmaceris-farðinn er einnig í miklu uppáhaldi en hann er kremaðri og með örlítið minni þekju, fæst á dúndurdíl (um 3000 kall!) útí apóteki og er hreint út sagt dásamlegur. Góður fyrir viðkvæma húð enda þróaður af húðlæknum. Ókostur að hann fæst aðeins í örfáum litum.
Púðurfarði
Japanirnir kunna þetta enda er falleg húð þeim einstaklega mikilvæg. Púðurfarðinn frá Shiseido úr Self Refreshing-línu þeirra er einstaklega mjúkt og gefur fallega áferð. Hentug lausn fyrir þær sem eru með olíukennda húð. Total Finish-púðurfarðinn frá Sensai eða fótósjopp í dós eins og það er einnig kallað er einstakt í farðaflórunni. Hylur mjög vel, minnkar ásýnd húðholanna og virðist fylla upp í fínar línur. Skyldueign í snyrtibudduna!

Púðurfarði er góð lausn fyrir þær sem eru með olíukennda húð eða nútímakonuna sem er alltaf á hraðferð!
Þroskuð húð
Eins illa og okkur er við orðatiltækið Anti Aging þá hentar Cellular Performance-farðinn þroskaðri húð einstaklega vel. Hann nærir húðina og veitir mikinn raka um leið og áferðin verður ljómandi falleg. Kremaður, miðlungsþekjandi farði fyrir 35+.


Þroskuð húð þarfnast sérstaklega raka sem gefur henni þennan ómótstæðilega ljóma sem við sækjumst allar eftir.
Eitthvað extra
Ef þú fílar ljómandi húð en þín er olíukennd er sniðugt að nota Oil & Shine Control-primerinn frá Smashbox og highlighter efst á kinnbeinin. Einnig er hægt að leika sér með áferð húðarinnar með því að nota mattan og endingagóðan farða og highlighter eingöngu þar sem þú vilt hafa ljóma. Við getum ekki mælt nægilega mikið með Shimmering Skin Perfector frá Becca. Ef þú ert með þurra húð er gott að nota nærandi andlitskrem undir farðann eða ljómandi farðagrunn sem inniheldur mikinn raka eins og La Base Pro Hydra Glow frá Lancôme.