Nýr og spennandi penni á HÉR ER

Arkitektinn Stefanía Albertsdóttir, fyrrverandi blaðamaður á Húsum og híbýlum er nýr penni á HÉR ER. Hún ætlar að fjalla um allt sem viðkemur heimilum og hönnun.

Nýr og spennandi penni á HÉR ER

Arkitektinn Stefanía Albertsdóttir, fyrrverandi blaðamaður á Húsum og híbýlum er nýr penni á HÉR ER. Hún ætlar að fjalla um allt sem viðkemur heimilum og hönnun.

Við tókum hönnunargúrúinn tali og fengum að forvitnast um það hvað er í hávegum haft hjá henni og hvað er framundan í hönnunarheiminum.

Það má með sanni segja að Stefanía sé reynslubolti því samhliða námi og eftir útskrift úr arkiktektanámi starfaði hún á Húsum og híbýlum. Þá hefur hún einnig unnið sjálfstætt sem útlitshönnuður og við gerð markaðsefnis fyrir hin ýmsu fyrirtæki. Stefanía lifir og hrærist í hönnunarheiminum enda hennar stærsta áhugamál.

En hverjir skyldu vera hennar uppáhaldshönnuðir?

Ég lít mikið upp til hins japanska arkitekts og frumkvöðuls Kengo Kuma en hann sækir í aldagamlar hefðir í efnisfræði sem hann nær á einhvern ótrúlegan hátt að tvinna saman við rýmishönnun sem skilar sér svo í framúrskarandi upplifun.

Stofan hans, Kengo Kuma and Associates, og hann sjálfur sem hönnuður hefur undanfarið fengið fleiri verkefni í Evrópu og er hann því orðinn mörgum hér kunnugur.

Einnig hefur hann verið í samstarfi við skandinavíska hönnuði og framleiðendur og má þar til dæmis nefna Iittala en fyrirtækið hélt upp á 140 ára afmælið sitt á dögunum með opnun nýrrar verslunar í Tokyo sem Kengo Kuma hannaði frá a-ö. Japanir og Finnar eiga margt sameiginlegt þegar kemur að handverkshefðum og er þeim gert hátt undir höfði í þessari nýju verslun sem einnig er kaffihús og upplifunarrými.

Í hópi íslenskra arkitekta og hönnuða er Manfreð Vilhjálmsson arkitekt í miklu uppáhaldi hjá mér. Hann er mikill frumkvöðull og hefur í gegnum tíðina verið óhræddur við að prófa sig áfram og læra en það er mjög góður eiginleiki fyrir arkitekta og hönnuði að búa yfir.

En hvað ætli sé fallegasta hús á Íslandi að mati Stefaníu?

Norræna húsið eftir Alvar Aalto hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Það er einstaklega vel heppnað bæði hvað varðar rýmishönnun og hversu fallega það kallast á við umhverfi sitt.

Það sama má svo segja um Kjarvalsstaði eftir Hannes Kr. Davíðsson sem einnig er bygging í miklu uppáhaldi. Endurgerð Marshall-hússins finnst mér líka vert að nefna en hún er virkilega vel heppnuð að öllu leyti. Kurt og Pí leiddu verkið og gerðu það einstaklega vel. Ef ég ætti svo að velja eitt íbúðarhús sem mér finnst framúrskarandi þá er það Smiðshús á Álftanesi, hús Manfreðs Vilhjálmssonar, sem þótti mjög framúrstefnulegt á sínum tíma.

Hvaða fimm hönnunarvörur myndirðu velja í húsið þitt ef peningar væru engin fyrirstaða?

Á „topp fimm’’ listanum er Colonial Chair eftir Ole Wanscher í eik og koníaksbrúnu leðri, Vitra Akari 10A gólflampi eftir Isamu Noguchi og Suita sófi frá Vitra eftir Antonio Citterio. Spanish Chair eftir Børge Mogensen í eik og koníaksbrúnu leðri kæmi einnig til greina og í fjarlægri framtíð væri ég til í að eignast Artichoke-ljósið í kopar.

Artichoke-ljósið í kopar

Þegar ég vel mér húsgögn og hluti fyrir heimilið þá geri ég miklar kröfur um gæði og góða endingu.

Af uppáhaldshönnunarvörum Stefaníu að dæma er tímabilið svokallaða Mid Century Modern í miklu uppáhaldi. Það er þó mikið deilt um það hvenær nákvæmlega tímabilið hófst og hvenær því formlega lauk en gróflega má segja að fimmti og sjötti áratugurinn sé hápunktur þess. Það sem einkennir hönnun frá þeim tíma er sú staðreynd að bæði arkitektar og hönnuðir þurftu að leita meira í nærumhverfi sitt en áður eftir efni. Bæði fyrra og seinna stríð höfðu þau áhrif að efni eins og málmar voru af skornum skammti þar sem vopnaframleiðsla tók yfir. Á þessum tíma litu dagsins ljós ein þekktustu viðarhúsgögn samtímans sem hafa staðist tímans tönn og flokkast sem algjör klassík í dag.

Hvaða trend sérðu helst í innanhússhönnun þessa dagana?

Aukin umhverfisvitund hefur verið áberandi síðustu ár og aukin áhersla á sjálfbærni í framleiðslu og það heldur áfram. Hinn almenni neytandi er orðinn meðvitaðari um þetta og gerir auknar kröfur sem er frábært og velur frekar færri en vandaða hluti. Náttúruleg efni í innréttingum, húsgögnum og textíl eru áberandi og helst það í hendur við auknar kröfur um endingu. Lífræn form halda einnig áfram að vera vinsæl.

Mér finnst fólk almennt hafa meiri áhuga  á að fegra heimilin sín en oft áður og held ég að færri utanlandsferðir og meiri vera inni á heimilunum hafi þar mikið vægi.

Handgert keramik er einnig vinsælt og eigum við Íslendingar marga flotta keramikhönnuði sem vert er að skoða. Ungir listamenn eru einnig að sækja í sig veðrið og hafa samfélagsmiðlar hjálpað mikið til. Það er orðið algengara að fólk líti til þeirra ungu í vali á verkum inn á heimilið þó gömlu meistararnir haldi alltaf velli innan ákveðins hóps. Mér finnst yngra fólk vera meðvitaðara um að velja sér verk sem höfða til þeirra í stað þess að líta á þau sem stöðutákn.

Með hverju mælirðu til þess að fríska upp á heimilið fyrir vorið?

Afskorin blóm og greinar og frískandi ilmur er líklegast besta og auðveldasta leiðin. Fyrir þá sem vilja fara skrefinu lengra er svo hægt að velja sér textíl eins og púða og teppi í bjartari litum sem minna á vorið og sumarið.

Afskorin og þurrkuð blóm fást hjá Bjarkarblómum í Smáralind og þurrkuð blóm fást einnig í Søstrene Grene.

Hvaða litir eru allsráðandi núna?

Náttúrulegir, hlýir og dempaðir litatónar eru vinsælir núna sem og beige-tónar. Með þessum litum er svo tilvalið að velja sér bjartari liti í smáhlutum og textíl til þess að setja punktinn yfir i-ið en ég er þeirrar skoðunar að lífið sé betra í lit.

Við getum ekki beðið eftir að lesa greinar eftir Stefaníu en fylgist með hér á HÉRER.IS.

Mynd af Stefaníu: Aldís Pálsdóttir

Aðrar myndir: Shutterstock og frá framleiðendum.

Meira spennandi

Vertu
með
puttann
á púlsinum

Skráðu þig á póstlista HÉR ER. Við drögum út heppinn vin af póstlistanum í hverjum mánuði sem fær 15.000 kr. gjafakort Smáralindar.