„Myndi sennilega ekki fá mér þetta lúkk aftur!“
Greta Salóme tónlistarkona fermdist í Lágafellskirkju í Mosfellsbæ 30. apríl árið 2000. Hún segir margt minnisstætt við fermingardaginn en kannski helst hvað foreldrar hennar lögðu mikið á sig til að gera hann ógleymanlegan. „Það var hugsað út í hvert einasta smáatriði og pabbi var meira að segja búinn að líma semalíusteina á kertin sem voru á borðunum. Þetta var bara alveg dásamlegur dagur!“
Fermingarlúkkið segir Greta Salóme hafa verið með frekar hefðbundnu sniði; lítil kóróna með semalíusteinum í hárinu og hvítur síðkjóll úr Cosmo. „Mér fannst þetta eitthvað algjört möst þarna og var voðalega ánægð en myndi sennilega ekki fá mér þetta lúkk aftur,“ viðurkennir hún og hlær við tilhugsunina.
Það var hugsað út í hvert einasta smáatriði og pabbi var meira að segja búinn að líma semalíusteina á kertin sem voru á borðunum. Þetta var bara alveg dásamlegur dagur!
„Var að sjálfsögðu stórglæsilegur“
Atli Fannar Bjarkason, samfélagsmiðlastjóri RÚV, fermdist í Selfosskirkju vorið 1998. Hann segist hafa verið mjög lítill þegar hann fermdist og hann viti hreinlega ekki hvort það hafi verið einhvers konar sjúkur brandari hjá prestinum en hann hafi stillt honum upp fremstum fyrir miðju í kirkjunni.
„Ég leiddi sem sagt hópinn inn í kirkjuna, agnar smár fyrir framan tvær stelpur sem höfðu náð fullri stærð,“ rifjar hann upp. „Í minningunni voru þær risavaxnar og gnæfðu yfir mig, á meðan ég hugsaði prestinum þegjandi þörfina!“
„Minnistæðast? Að raða seðlunum sem ég fékk í fermingargjöf á rúmið mitt í lok dags. Þetta voru heilar 96 þúsund krónur.“
Hvað var annars minnistæðast við daginn?
„Minnistæðast? Að raða seðlunum sem ég fékk í fermingargjöf á rúmið mitt í lok dags. Þetta voru heilar 96 þúsund krónur, sem væru í dag um 330 þúsund krónur, samkvæmt verðlagsreiknivél Hagstofunnar,“ segir hann sposkur.
Spurður út í fermingarfötin segist Atli Fannar hafa klæðst íslenska þjóðbúningnum. „Og var að sjálfsögðu stórglæsilegur!“
Útpælt og „agalega kerlingarlegt“
Esther Talía Casey leikkona fermdist í Hallgrímskirkju í byrjun apríl árið 1991. „Það er mér mjög minnisstætt að strákurinn sem ég var skotin í (Ólafur Egilsson núverandi eiginmaður Estherar) var nýstiginn upp úr hlaupabólu og mamma hans ákvað að sminka hann fyrir ferminguna svo bólurnar sæust minna á andlitinu. Ég vorkenndi honum alveg hræðilega. Hann var alveg eins og kleina greyið, en ég var harðákveðin í að ná kossi á kinn sem mér tókst svo fyrir utan kirkjuna eftir athöfnina!“
Aðspurð út í fermingarlúkkið segir Esther að það hafi verið alveg útpælt. „Og auðvitað agalega kerlingalegt eins og vera ber,“ segir hún skellihlæjandi. „En ég man að ég var mjög ánægð með skyrtuna og harðákveðin í að para skartið vel við hana!“
Ég man að ég var mjög ánægð með skyrtuna og harðákveðin í að para skartið vel við hana!
Eins og lítill mafíósi til fara
Guðmundur Birkir Pálmason, betur þekktur sem Gummi kíró, fermdist á Hornafirði árið 1994. Hann segir fermingarveisluna, sem var haldin í foreldrahúsum, eftirminnilega fyrir ýmsar sakir, ekki síst það að veisluborðin svignuðu undan kræsingum. „Amma kom til dæmis með fjórar risavaxnar rjómatertur á kökustandi, svo glæsilega skreyttar að í dag hefðu þær eflaust gert heimsins bestu bakara græna af öfund!“
Og fermingarfötin líða Gumma seint úr minni. „Ég var klæddur tvíhnepptum sérsaumuðum jakkafötum frà Taílandi sem afi græjaði fyrir mig. Eftir á að hyggja var þetta eins og mafíósadress frá Sikiley!“
Amma kom með fjórar risavaxnar rjómatertur á kökustandi, svo glæsilega skreyttar að í dag hefðu þær eflaust gert heimsins bestu bakara græna af öfund!
„Fannst ég rosalega fín og finnst það enn“
Arnþrúður Dögg Sigurðardóttir framleiðandi, eða Addú eins og hún er gjarnan kölluð, fermdist í Árbæjarkirkju 16. apríl árið 1992 . Hún segist seint gleyma því hvað mikill undirbúningur hafi farið í stóra daginn. Veislan hafi verið haldin heima og herbergið hennar fengið algjört „make-over“. „Herbergið mitt var málað í ferskjulit og svo fékk ég gardínur og rúmteppi í stíl - sem mér fannst algjörlega tryllt!“
Addú segir að heimilinu hafi verið gjörsamlega umturnað svo hægt væri að taka á móti öllum gestunum og heilmikil vinna lögð í fermingarlúkkið. „Ég fékk að fara í hárgreiðslu hjá Brósa sem var alveg geggjað,“ segir hún, „og fór meira að segja í prufugreiðslu einhverjum dögum fyrir ferminguna!“
„Ég var frekar hávaxin miðað við jafnaldra mína en lét það ekki aftra mér og fermdist í mjög háum skóm, sem varð til þess að ég flaug svo næstum á hausinn í altarisgöngunni. Auðvitað ferlega vandræðalegt en sem betur fer fór þetta allt saman vel.“
Upphaflega hafi staðið til að fermast í öllu gulllituðu en það hafi reynst aðeins snúnara en hún reiknaði með. „Ég ætlaði til dæmis að spreyja svarta leðurskó gulllitaða,“ rifjar hún upp og hlær. Því hafi móðir hennar farið með hana á stúfana og þær endað í Sautján. „Þar keyptum við æðislegt fermingardress; létta blússu, blúndu stuttbuxur, blúndu vesti og svarta háa hælaskó, og jözzuðum það svo upp með perlum og stóru belti með stórri GULLsylgju, þannig að orrustan tapaðist nú ekki alveg!“
Aðspurð segist Addú enn vera ánægð með útkomuna. „Já veistu mér hlýnar enn um hjartarætur við að skoða fermingarmyndirnar mínar. Fannst ég bara rosalega fín á þeim og finnst það enn,“ segir hún og brosir.