Fara í efni

Skotheld tískuráð frá þjóðþekktum stílstjörnum

Tíska - 2. júní 2023

Það skiptir máli að vanda valið, bera sig ekki saman við aðra og vera óhrædd við að fara eigin leiðir í fatavali, segja sérfræðingar. HÉR ER ræðir við Íslendinga, sem eru þekktir fyrir glæsilegan klæðaburð og fær að vita hvernig þeir fara eiginlega að því að vera svona smart!

„Ef þig langar að klæðast einhverju, gerðu það!“

Saga Sig ljósmyndari.

Ef þú ættir að lýsa eigin fatastíl í nokkrum orðum?

„Ég myndi segja að fatastíllinn minn væri eiginlega tvískiptur. Suma daga er ég mjög skrautleg og litrík og aðra daga mjög mínimalísk og svartklædd. Ég er búin að sættast við þessar tvær týpur og stundum blandast þær saman. Ég pæli mikið í „silhouettum“ og áferð og er orðin meðvitaðari núna um að kaupa flíkur úr vandaðara efni en ég gerði þegar ég var yngri.“

Áttu þér „tísku-mottó“?

„Ekki beint mottó, en ég reyni að klæða mig upp á föstudögum.

Síðan fer ég eftir heilræði ömmu minnar, sem gengur út á það að prófa að fara í falleg föt og dressa sig upp ef maður á ekki góðan dag. Það virkar fyrir mig. Ég kemst yfirleitt í betra skap.“

Til hvaða tískufyrirmynda horfðirðu?

„Ég gæti nú rætt það heillengi, það er svo mikið af flottum konum og körlum í kringum mig, bæði vinkonur og fólk í fjölskyldunni. Á Instagram eru það svo til dæmis Emili Sindlev og Blanca Miro. Mér finnst þær mjög flottar. Aðrar fyrirmyndir eru til dæmis Lou Doillon, Patti Smith, Harry Styles og Keith Richards.“

„Forðist fjöldaframleidd föt sem eru svo uppfull af eiturefnum að þau geta verið skaðleg heilsu fólks.“
Fólk segir mér stundum að það myndi aldrei þora að vera í einhverju sem ég er í. Mér finnst það svo sorglegt! Lífið er nefnilega svo stutt og ef þig langar að klæðast einhverju, gerðu það!

Hvernig hefur fatastíllinn þinn þróast? Hefurðu alltaf verið með svona góðan smekk?

„Ég held nú að það sé ekkert til sem heitir „góður smekkur“ eða að hægt sé að hafa betri smekk en einhver annar. En ég reyni að vera einlæg í öllu því sem ég geri og þar á meðal hvernig ég klæði mig. Ég er ekki að reyna vera einhver önnur en ég er og þá verður stíllinn „orginal“ og fólk tekur eftir því.

Annars hefur fatastíllinn breyst mikið og ég hef verið mjög dugleg að gera tilraunir, sérstaklega á námsárunum í London og þegar ég vann í Spúútnik og í Rokk og Rósum í kringum tvítugt. En ég hef farið í gegnum allskonar tímabil. Í grunnskóla var ég til dæmis alltaf með Manchester United húfuna mína, keypti mér bláan leðurtopp í Kiss í tíunda bekk og í Versló var ég smá skinka.

Ég byrjaði að finna mig þegar ég byrjaði að vinna í vintage búðum og lærði að meta vönduð efni og góða hönnun. Hvert tímabil hefur sinn sjarma og núna er ég til dæmis í barneignarfríi þar sem ég klæði mig öðruvísi þar sem ég er með barn á brjósti.

Helsti lærdómurinn er sá að vandaðar flíkur úr góðum efnum geta enst í áratugi. Ég er enn til dæmis að nota dragt sem ég keypti þegar ég var 20 ára frá Issey Miyake. Það sér varla á henni.“

„Mættum alveg vera aðeins fjölbreyttari og frjálslegri í fatavali“

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Mottó?

„Amma mín sagði alltaf „ekkert er ódýrt sem óþarft er“. Það er ágætis mottó að lifa eftir. Það er nefnilega dýrt að eyða peningum í óþarfa. Ég reyni stundum að hafa þetta hugfast í búðarferðum, þó það takist ekki alltaf og hef oft reynt að líta á fatakaup sem fjárfestingu og spyrja mig: Er þetta óþarfi? Mun flíkin endast? Er hún klassísk? Gæti ég selt hana aftur fyrir drjúgan hluta af kaupverðinu? Annars er brosið alltaf besta tískuráðið, það klæðir alla vel og fer aldrei úr tísku.“

Ef þú ættir að lýsa eigin fatastíl í nokkrum orðum?

„Mér finnst svolítið erfitt að lýsa mínum eigin stíl, ég upplifi hann sjálf frekar fjölbreyttan, allt eftir dagsforminu hverju sinni. Ég hef hins vegar í mörg ár reynt að vanda vel fatainnkaupin, kaupa færri flíkur en vandaðri og endingarbetri. Það hefur reynst ansi skynsamleg stefna, en áður en maður veit af er maður kominn með góðan fataskáp af klassískum flíkum úr vönduðum efnum.

Síðustu ár hef ég svo laðast mikið að litríkum fötum, þá ekki síst kjólum í fallegum litum og mynstrum. Fyrir fáeinum árum var ég búin að koma upp svolítið drjúgu kjólasafni, sem fyrir mistök endaði allt í Rauða kross gámi við flutninga hjá fjölskyldunni. Það var vægast sagt svekkjandi - en vonandi komu kjólarnir að góðum notum annars staðar.“

„Ég held fólk ætti að forðast að líta of mikið til annarra við fataval. Við Íslendingar mættum alveg vera aðeins fjölbreyttari og frjálslegri í fatavali. Klæðast fötum sem okkur líkar vel og endurspegla okkar persónu, algjörlega óháð mati annarra.“

Til hvaða tískufyrirmynda horfirðu?

„Ég get ekki nefnt neina sérstaka fyrirmynd en flottast þykir mér fólk sem klæðir sig algerlega eftir eigin höfði og persónuleika. Ég myndi vilja sjá meiri fjölbreytni í fatavali hjá fólki í áhrifastöðum og leiðast fyrirframákveðnar hugmyndir um viðeigandi klæðnað fyrir tilteknar starfsstéttir.

Sjálf fékk ég til að mynda athugasemd nýverið frá eldri herra sem þótti ósæmilegt að stjórnmálakona klæddi sig í bleika dragt með bleikum fjöðrum. Ég tók því nú bara sem hrósi, hef lítinn áhuga á að falla í fjöldann að þessu leyti.“

Hefurðu alltaf verið svona smekkleg?

„Þegar litið er í baksýnisspegilinn hefur maður nú upplifað ýmis tískuslys í gegnum árin, ég viðurkenni það. En svo fer tískan alltaf í hringi og allt kemur þetta aftur. Fyrir nokkrum árum þóttu mér útvíðu buxurnar frá unglingsárunum og lágu pinnahælarnir til dæmis algjör hryllingur, en nú þykir mér hvoru tveggja ansi smart. Kannski á maður aldrei að segja aldrei þegar kemur að tísku. Nema þegar kemur að Crocs sandölum. Ég mun aldrei fara í Crocs.“

„Það þarf ekki að vera dýrt að kaupa vönduð föt. Mikilvægast finnst mér að huga að efnisvali; ull og vönduð bómull eru í uppáhaldi hjá mér og til eru margar verslanir sem selja flíkur úr góðum efnum á hagstæðu verði.“

En hefur smekkurinn breyst mikið í gegnum árin?

„Á unglingsárum fór ég oft til Kaupmannahafnar á haustin og varði drjúgum hluta af sumarkaupinu í fatakaup fyrir veturinn. Þar reyndi maður alltaf að fá sem flestar flíkur fyrir peninginn, en niðurstaðan var þó yfirleitt sú að fötin höfðu stuttan endingartíma. Ég var frekar ung þegar ég breytti um stefnu í þessum efnum – valdi að huga að gæðum umfram magni. Í verslunarferðum erlendis keypti ég bara örfáa hluti, hugaði að því hvort þeir væru klassískir, úr vönduðum efnum og jafnvel hvort þeir hefðu endursöluvirði. Mesta áherslu lagði ég á vandaðar yfirhafnir, skó og töskur, en leyfði mér kannski meiri slaka með ýmislegt annað. Flestar af þessum flíkum hef ég notað til fjölda ára og sé fyrir mér að þær hafi notagildi um langa framtíð.

Það er hægt að gera frábær kaup á notuðum og vönduðum fatnaði frá virtum framleiðendum. Ég byrjaði til að mynda að versla notaða skó af Ebay fyrir rúmlega 15 árum og hef gert margvísleg frábær kaup á þeim vettvangi.

Þetta hefur kannski helst kennt manni að ef maður einblínir á færri, vandaðri og endingarbetri flíkur þá nær maður að byggja frekar upp drjúgan og vandaðan fataskáp. Það tekur auðvitað einhvern tíma, en leiðir hins vegar til þess að maður sér sjaldnar ástæðu til að hreinsa úr skápnum. Áður en maður veit af er komið ágætis safn sem hefur áfram notagildi, hvort heldur sem er fyrir mann sjálfan, eða einhvern annan.“

„Vertu þú - það er enginn eins og þú“

Logi Geirsson handboltasérfræðingur.

Lýstu eigin stíl í fáeinum orðum?

„Fágaður, djarfur, öðruvísi.“

Áttu þér fyrirmyndir í tísku?

„Ég reyni alls ekki að fylgja straumnum, þvert á móti reyni ég frekar að synda gegn honum.

Nú þykirðu iðulega flottur í tauinu, hefur alltaf verið svona töff til fara?

„Takk fyrir það, alltaf gaman að fá hrós. Ég hugsa að ég hafi nú klætt mig aðeins öðruvísi áður fyrr. Segja má að síðustu ár hafi ég til dæmis verið að þróa meira sparihliðina, ef svo má að orði komast. Læt stundum sérsauma á mig föt og á orðið færri og vandaðri flíkur. Það gerir líka mikið fyrir mig að eiga góðan trefil eða að vera í flottum spariskóm og sparisokkum. Svo pælir maður meira í ýmsum smáatriðum, eins og ermahnöppum og litnum á skósólum og tengir gjarnan saman gullklút við gullitaða sokka eða jafnvel gullúr. Maður er alltaf eitthvað að þróast sem persóna, en ég ætla samt aldrei að detta á þann vagn að fara að klæða mig eftir aldri, eins og margir gera.“

Logi ásamt börnunum.

Hver eru helstu ráð sem þú getur gefið fólki í þessum efnum?

„Talaðu fallega til þín fyrir framan spegilinn: „Þetta er flott. Mér líður vel.“ Settu góða orku í þetta, þá eykst sjálfsöryggi þitt og gleðin. Það skynja nefnilega allir ef þú ert óöruggur með þig eða ef þér líður ekki vel í fötunum. Klæddu þig eins og þér líður vel með og í samræmi við orkuna þína. Það er fátt skemmtilegra en að líða vel í fötunum sem maður klæðist hverju sinni. Ekki spyrja endalaust aðra hvort þeim þyki eitthvað flott sem þú klæðist. Ég klæði mig bara í samræmi við það hvernig mér líður.“

Áttu gott tískuráð?

„Eitt sinn las ég að maður ætti alltaf að klæða sig upp, hvort heldur sem það er gert af einhverju sérstöku tilefni eða jafnvel þótt maður sér bara heima við. Ég hef unnið með það og finnst það snilld. Og ekki spara hrósið þegar finnst eitthvað flott hjá öðrum. Það gleður viðkomandi og sýnir þinn styrk.“

„Mundu að bera þig ekki saman við aðra. Vertu þú. Það er enginn eins og þú.“

Meira úr tísku

Tíska

Kíkt í pokann hjá einni hæfileikaríkustu leikkonu landsins

Tíska

Silfur er að trenda

Tíska

Topp 30 yfirhafnir fyrir karlana í haust

Tíska

Topp trend á tískuviku í París

Tíska

Beyoncé í sjóðheitu sambandi með Levi´s

Tíska

Dúndurdílar á Miðnætur­opnun! (Það sem er á radarnum hjá stílistanum okkar!)

Tíska

Taktu þátt í bleika mánuðinum

Tíska

Óskalisti stílista úr ZARA