Fara í efni

„Stórkostlegt átak sem þjóðin hefur tekið algerlega upp á sína arma“

Lífsstíll - 27. september 2024

Það verður bleik stemning í Smáralind þann 2. október næstkomandi þar sem meðal annars verður hægt að taka þátt í risa happdrætti og versla í Bleiku búðinni til styrktar Krabbameinsfélagsins. Við tókum Höllu Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra Krabbameinsfélagsins, tali sem segir okkur meðal annars frá því hvers vegna það er svona mikilvægt að taka höndum saman og styrkja málefnið.

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Því lífið liggur við

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins segir starf sitt mjög fjölbreytt en í stórum dráttum snúist það um að færri fái krabbamein, fleiri læknist og eigi með aðstandendum sínum bæði gott og langt líf, með og eftir krabbamein.

„Starfið er mjög fjölbreytt enda þurfa allir á litlum vinnustað að geta gengið í flest störf. Dagurinn hjá mér getur því falið í sér allt frá uppvaski yfir í fundi með ráðherrum. Í stórum dráttum snýst starfið hins vegar um að leiða starf félagsins í átt að metnaðarfullri framtíðarsýn félagsins um að færri fái krabbamein, fleiri læknist og eigi með aðstandendum sínum bæði gott og langt líf, með og eftir krabbamein. Hjá Krabbameinsfélaginu vinnur frábært, metnaðarfullt starfsfólk sem eru forréttindi að fá að vinna með að þessum markmiðum og oftar en ekki geri ég nú hreinlega best í að þvælast ekki fyrir því í þeirra góðu störfum," segir Halla og brosir.

Hvað hafið þið verið að gera að undanförnu, hvað stendur uppúr? „Það er erfitt að velja, það er svo margt gott og áhugavert í gangi. Nýverið var stefna félagsins endurskoðuð undir slagorðinu „því lífið liggur við“ sem skerpir áherslur í öllu starfinu og segir allt sem segja þarf.

Krabbameinstilvikum mun fjölga mjög mikið á næstu árum nema verulega verði bætt í forvarnir. Lifendum, þ.e. fólki sem hefur fengið krabbamein fjölgar líka gríðarlega, og hvort tveggja kallar á að bretta þarf upp ermar á öllum vígstöðvum og vinna skipulega, til að árangur hér á landi verði eins og best verður á kosið. Krabbameinsfélagið hefur mjög stóru hlutverki að gegna í þessu öllu. Ég get nefnt nokkur stór áherslumál; aukinn jöfnuður, því staða fólks er ekki jöfn þegar kemur að krabbameinum. Við höfum verið að setja málefni lifenda sem kljást við síðbúnar og langvinnar aukaverkanir á dagskrá en í kjölfar krabbameinsmeðferðar glíma margir mjög lengi við fylgikvilla sem ýmist eiga rót sína að rekja til meðferðarinnar eða krabbameinsins sjálfs. Með stöðugt stærri hópi lifenda er hægt að fá upplýsingar beint frá þeim sem hafa reynsluna og nú erum við að undirbúa mjög stóra rannsókn á líðan og lífsgæðum fólks. Við ætlum að stíga fastar niður í forvörnum því við eigum að geta komið í veg fyrir 4 af hverjum 10 krabbameinum og reynum að ná til sem flestra m.a. með því að bjóða ókeypis ráðgjöf okkar og stuðning á íslensku, ensku og pólsku.“

Mundu eftir að bóka tíma í krabbameinsskoðun!

Bleika slaufan

Bleika slaufan sem landsmenn þekkja orðið vel á sviðið allan október en Smáralind tileinkar 2. október málefninu þar sem margt verður um að vera til að styðja við bakið á Krabbameinsfélaginu.

Í október beinir Krabbameinsfélagið sjónum sínum að öllu því sem tengist krabbameini hjá konum. „Það er stórkostlegt átak sem þjóðin hefur tekið algerlega upp á sína arma. Í ár viljum við vekja sérstaka athygli á málefnum aðstandenda, bæði því mikilvæga hlutverki sem þeir gegna en líka þeim áhrifum sem alvarleg veikindi hafa óhjákvæmilega á þeirra líf. Við munum reyna að gefa þeim góð ráð en líka hvetja aðra, til dæmis vinnustaði, til að styðja við aðstandendur. Við munum hins vegar líka fjalla um forvarnir, skimanir, fræða um einkenni, framfarir, mikilvægi vísindarannsókna og fleira og fleira. Svo má ekki gleyma því að við viljum sjá alla þjóðina bera hina bráðfallegu Bleiku slaufu en við heyrum svo oft hversu mikla þýðingu það hefur fyrir þær konur sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra.. Með kaupum á slaufunni leggur fólk sitt af mörkum í glímunni við krabbamein og er þannig þátttakandi í góðu starfi Krabbameinsfélagsins. Starf Krabbameinsfélagsins er 95% fjármagnað með fjáröflunum. Margir halda að félagið sé rekið fyrir fé frá hinu opinbera en svo er alls ekki.“ Því er ljóst að starfið er gríðarlega mikilvægt því lífið liggur við, hvernig sem á það er litið.

Ég held að óhætt sé að segja að þá verður ALLT um að vera í Smáralind þann 2 október. Ég hvet alla til að kíkja við og upplifa bleikan ljóma, samstöðu og kærleik sem verður alltumlykjandi en líka stuð og gleði.
Slaufan í ár er fagurbleikur og skínandi blómakrans fléttaður úr þremur nýútsprungnum blómum en hönnuður hennar er Sigríður Soffía Níelsdóttir. Sparislaufan í ár er gullhúðað, rósagyllt koparhálsmen í samlitri keðju. Hálsmenið er einstaklega glæsilegur gripur, stílhreinn en um leið djarfur. Hálsmenið kemur í afar fallegum gjafaumbúðum og er framleitt í takmörkuðu magni. Salufan er til sölu frá 1. október.

Tilgangurinn er að vinna glímuna við krabbamein

„Við viljum fækka krabbameinstilvikum með forvörnum og það er hægt, það sýna rannsóknir okkur. Við þurfum líka að tryggja að öll aðstaða, meðferð og umönnun fólk sé þannig að lifun hér á landi sé eins og best gerist. En það er ekki nóg að lifa af, lífsgæði fólks verða líka að vera góð og þar skiptir meðal annars máli að allir hafi aðgengi að ráðgjöf, fjölbreyttum úrræðum og endurhæfingu við hæfi. Og við megum ekki gleyma aðstandendunum!“

En hvernig getur fólk stutt félagið? Fólk getur stutt við félagið á mjög margan hátt. Keypt Bleiku slaufuna og gengið með hana, gerst mánaðarlegir styrktaraðilar eða keypt vörur sem samstarfsaðilar selja til styrktar átakinu. En svo skiptir líka almennur hlýhugur líka máli. Að hlusta eftir málflutningi félagsins, staldra við og hugsa hlýtt til fólks með krabbamein og aðstandenda þeirra og taka til sín forvarnarráð félagsins sem eru okkur öllum til góðs. Leiðirnar eru svo ótalmargar og allt telur. 

Vinnustaðir landsins hafa verið duglegir við að taka þátt í Bleikum október og sýna stuðning eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Sjáumst í Smáralind 2. október í bleikri stemningu!

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Stílistinn okkar skoðar tilboðin á Kauphlaupi

Lífsstíll

Topp 5 bækur til að lesa í haust

Lífsstíll

Fáðu frítt æfinga­prógramm frá Söru Davíðs

Lífsstíll

Hér er óskalisti brúðhjónanna

Lífsstíll

Heillandi tilboð á Miðnæturopnun í Smáralind

Lífsstíll

Óskalisti stílista á afslætti á Dekurkvöldi

Lífsstíll

Valentínusar­dagurinn nálgast

Lífsstíll

Ættum við að bæta kollageni inn í rútínuna okkar?