Fara í efni

„Breytinga­skeiðið gerir okkur hvorki úreltar né ónýtar"

Lífsstíll - 7. mars 2022

Upp á síðkastið hefur umræðan um breytingaskeiðið orðið sífellt háværari eftir að hafa verið lokuð niðri í sagganum svo áratugum skipti. En um hvað snýst þetta allt saman og er þetta eitthvað sem kemur okkur öllum við?

Þrátt fyrir að um helmingur mannkyns fari gengum breytingaskeiðið hefur það fram til þessa hlotið sáralitla umræðu og sú sem þó hefur verið, lituð fáfræði og fordómum. Halldóra Skúladóttir hefur undanfarin 25 ár unnið með og hjálpað fjölmörgum konum við að ná betri tökum á lífsstíl sínum og hugarfari. Fyrir þremur árum vaknaði áhugi hennar á  breytingaskeiðinu og hefur hún stutt hundruði kvenna gegnum þann ólgusjó. Halldóra heldur úti heimasíðunni kvennarad.is og Instagramreikningnum @kvennarad.is.

Hingað til hefur breytingaskeiðið verið litið hornauga, því hefur fylgt tabú og jafnvel skömm. Grín hefur verið gert að konum sem glíma við erfið einkenni, þær hafa jafnvel verið stimplaðar þreyttar, pirraðar og jafnvel úreltar kerlingar.

Konur hafa því eðlilega lítið viljað tala um þetta skeið, heldur frekar reynt að láta bara eins og það sé ekki til. Mestu fordómana hefur þó mögulega verið að finna hjá okkur sjálfum, ég grínaðist sjálf með það að ég væri komin á „kellingapillur“ þegar ég fór af stað í mína vegferð. Umræðan um það hversu erfitt þetta getur reynst hefur bara verið allt of lítil, en áhrif breytingaskeiðsins geta í sumum tilfellum varað til frambúðar. Þá hafa greiningar og meðferðir staðnað og í stað þess að konur hafi fengið stuðning og skilning hafa þær þurft að þjást í hljóði,“ segir Halldóra, sem viðað hefur að sér fjölbreyttri þekkingu, en hún er markþjálfi, auk þess að hafa lært NLP (Neuro linguistic programming), lausnamiðaða dáleiðslu og sálmeðferð.

Breytingaskeiðið skiptist í þrjú stig

En, hvað er breytingaskeiðið? Hvenær hefst það og um hvað snýst það svona á mannamáli?

„Breytingaskeiðið er mjög einstaklingsbundið og erfitt að segja til um hvenær kona byrjar og hvenær hún klárar, en það getur læðst upp að manni og einnig valdið vandræðum löngu eftir að hin eiginlegu tíðahvörf verða,“ segir Halldóra, en breytingarskeiðinu er skipt upp í þrjú stig.

Fyrsta stig: Perimenopause

Aðdragandi breytingarskeiðsins kallast „Perimenopause“ og er það tímabilið þar sem hormónin estrógen og prógesterón fara að flökta og minnka. Þarna upplifa konur oftast mestu einkennin og það sem flækir þetta stig enn frekar er að þær gera sér sjaldnast grein fyrir því að hormónin séu að valda allskonar vanlíðan og vandræðum. Þessi hluti getur hafist fyrir fertugt en þó algengara að hann hefjist snemma á fimmtugsaldrinum. Það getur staðið mjög lengi, allt upp í tíu ár frá því að einkenni fara að gera vart við sig þar til hin eiginlegu tíðarhvörf (menopause) verða.

Annað stig: Tíðahvörf/Menopause

Segja má að hin eiginlegu tíðahvörf séu aðeins augnablikið sem markast af því þegar tólf mánuðir eru liðnir frá síðustu blæðingum.

Þriðja stig: Post-menopause

Post-menopause vísar til áranna sem koma í kjölfar tíðahvarfa.

Snemmbær tíðahvörf

Tíðahvörf geta þó hafist mun fyrr hjá konum og kallast þá snemmbær tíðahvörf en þá hætta eggjastokkarnir af einhverjum ástæðum að framleiða hormónin og konan fer í tíðahvörf langt fyrir aldur fram. Þá getur sú staða komið upp að fjarlægja þurfi eggjastokka vegna veikinda og við það geta konur farið á tíðahvörf á einni nóttu.

Ég fór að finna fyrir mikilli andlegri vanlíðan, kvíða, depurð og segja má að ég hafi einhvern vegin týnt sjálfri mér, sem ég skildi ekki því ég sá enga ástæðu. Þetta er þó það sem ég sé sammerkt með flestum mínum konum, en meirihluti kvenna virðist upplifa miklar tilfinningasveiflur, depurð og kvíða á breytingaskeiðinu.

Einkenni breytingaskeiðsins eru yfir 30 talsins

Það fyrsta sem líklega kemur upp í huga flestra þegar breytingaskeiðið berst í tal eru hitakóf, nætursviti og skapsveiflur. Einkennin eru þó miklu fleiri og mörg hver geta komið verulega aftan að konum.

„Einkennin getar verið ótrúlega lúmsk, læðast uppað manni og mörg þeirra eitthvað sem ekki hefur verið tengt við breytingaskeiðið og er þar af leiðandi erum við hálf skilningsvana hvers vegna líðanin er eins og hún er og því hætta á að við leitum ekki aðstoðar á réttum stað,“ segir Halldóra, en almennt er talað um að einkennin séu yfir 30 talsins, bæði andleg og líkamleg. „Við erum með estrógen-viðtaka á nánast öllum frumum líkamans og þess vegna geta áhrif þess þegar það minnkar verið ansi víðtæk og haft áhrif á öll kerfi líkamans,“ segir Halldóra.

„Á fyrsta stiginu (Perimenopause) er algengt að finna fyrir lítilsháttar breytingum á blæðingum, sem geta þó verið ansi lúmskar, svo sem styttri/lengri tíðahringur, minnkaðar blæðingar eða þá miklar, svokallaðar fossblæðingar. Þessu getur fylgt truflun á svefni, næstursviti og tíðari höfuðverkir kringum blæðingar, en þetta gerist þegar prógesterónið fellur. Síðan byrjar estrógenið að flökta og þá getum við farið að finna fyrir fleiri einkennum eins og hita- og svitakófum, en þó eru alls ekki allar konur sem það upplifa og telja sig því ekki komnar á breytingaskeiðið, þar sem það eru þau einkenni sem mest hefur verið haldið á lofti,“ segir Halldóra, sem sjálf vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar einkenni sem hún hafði aldrei tengt við breytingaskeiðið tóku að herja á hana. „Ég fór að finna fyrir mikilli andlegri vanlíðan, kvíða, depurð og segja má að ég hafi einhvern vegin týnt sjálfri mér, sem ég skildi ekki því ég sá enga ástæðu. Þetta er þó það sem ég sé sammerkt með flestum mínum konum, en meirihluti kvenna virðist upplifa miklar tilfinningasveiflur, depurð og kvíða á breytingaskeiðinu. Því er afar mikilvægt að við séum meðvitaðar og upplýstar um öll þau einkenni sem þessu skeiði geta fylgt, til þess að hægt sé að grípa inní, en algjör óþarfi er að við séum burðast með þetta einar og líða illa í mörg ár,“ segir Halldóra, sem hefur þýtt einkennalista sem aðgengilegur er á vefsíðu hennar kvennarad.is. „Ég mæli með að konur skoði listann reglulega, þó svo að mörg einkennanna geti að sjálfsögðu átt við ýmislegt annað. Þá er algengt er að konur séu ranggreindar eða jafnvel vangreindar þegar þær eru á þessu perimenopause tímabili.“

Það er afar mikilvægt að við séum meðvitaðar og upplýstar um öll þau einkenni sem þessu skeiði geta fylgt, til þess að hægt sé að grípa inní, en algjör óþarfi er að við séum burðast með þetta einar og líða illa í mörg ár.

Mikilvægt að huga vel að heilsunni

Halldóra segir konur geti ýmislegt gert sjálfar til þess að líða betur á breytingaskeiðinu og lykilatriðið sé að hugsa  vel um heilsuna í aðdraganda þess.

„Í kringum fertugt byrjar líkaminn að undirbúa sig fyrir breytingaskeiðið og fer í gegnum nokkurskonar endurforritun. Þessi ár, milli 40-55 ára, eru afar mikilvæg uppá framtíðarheilsu, þarna höfum við tækifæri til að leggja grunninn að góðum árum í ellinni. Í kjölfar tíðahvarfa erum við útsettari fyrir alvarlegum heilsukvillum svo sem hjartasjúkdómum, sem er ein algengasta dánarorsök kvenna eftir breytingaskeið, meðan þeir þekkjast varla meðal kvenna fyrir það. Alzheimers getur byrjað að myndast á breytingaskeiði, ef kona er útsett fyrir þeim sjúkdómi, beinþynning er gríðarlega algeng og alvarlegt vandamál meðal kvenna á efri árum sem byrjar að gerjast á breytingaskeiðinu. Það er því mikilvægara sem aldrei fyrr að hlúa að sér og huga vel að andlegri og líkamlegri heilsu á þessu tímabili,“ segir Halldóra og bætir við nokkrum meginþáttum í átt að betri heilsu.

  • Streitustjórnun skiptir gríðarlegu máli. Streita getur komið bæði utanfrá og innanfrá og þar af leiðandi er gott að skoða hugarfarið og taka stjórn á sjálftalinu, sem oft vill verða bæði hávarara og neikvæðara á þessu aldursskeiði.
  • Svefn ætti alltaf að vera í forgangi.
  • Hreyfing og hófstilltar æfingar með áherslu á jafnvægi og styrk eru nauðsynlegar, en á þessum punkti á þó hugtakið „minna er meira“ best við.
  • Mikilvægt er að sneiða að mestu hjá unnum matvörum, en hafa verður í huga að við verðum viðkvæmari fyrir einföldum kolvetnum á breygingarskeiðinu, þar sem insúlínviðnám getur hafist eða aukist. Það þýðir þó alls ekki að nauðsynlegt sé að fara á ketó eða fasta alla daga, sem þvert á móti getur allt eins aukið streituviðbrögð líkamans. Við þurfum að auka próteinneyslu sem aldrei fyrr þar sem vöðvarýrnun stóreykst og getur orðið að vandamáli þegar við eldumst.
Hreyfing og hófstilltar æfingar með áherslu á jafnvægi og styrk eru nauðsynlegar, en á þessum punkti á þó hugtakið „minna er meira“ best við. 

Breytingaskeiðið er ekki stimpill

Öllum til heilla hefur umræðan um breytingaskeiðið eflst og tekið stakkaskiptum að undanförnu. En betur má ef duga skal. 

 „Við þurfum að opna umræðuna enn frekar. Breytingaskeiðið er ekki ellistimpill, heldur eðlilegur partur af lífi allra kvenna og orsakast af hormónabreytingum“, segir Halldóra og bætir því við að ekki sé nóg að konurnar sjálfar séu upplýstar heldur verði það einnig að gilda um læknastéttina, vinnustaðina og fjölskylduna.

„Svo virðist sem læknar margir hverjir fylgist ekki nógu vel með, séu enn að fylgja gömlum leiðbeiningum, vita ekki hvernig best er að greina breytingaskeiðið og hafa litla þekkingu á þeim fjölmörgu einkennum þess. Þetta á bæði við um heimilislækna og kvensjúkdómalækna, en mér finnst mjög mikilvægt að heimilislæknar þekki einkennin vel þar sem þeir eru oft fyrsta stopp hjá konum sem farnar eru að upplifa vandamál og vanlíðan sem þær eru ekki að tengja ekki við breytingaskeiðið. Því er mjög algengt er að konur séu vangreindar og fái þar af leiðandi ekki viðeigandi aðstoð. Það getur svo haft alvarleg áhrif, ekki aðeins á andlega og líkamlega líðan konunnar sjálfrar heldur geta þau skilað sér inn á heimilið og vinnustaðinn. Skilnaðir eru algengir á þessu tímabili, samskipti við börn og nánustu fjöldskyldu geta rofnað, margar konur lenda í kulnun, sem er mjög samtvinnuð við hormónabreytingar. Þá getur þetta haft veruleg áhrif á fjárhag, en ein af hverjum tíu konum á Íslandi detta út af vinnumarkaði vegna einkenna breytingaskeiðsins og sumar hverjar snúa aldrei til baka. Ef við heimfærum slíkar tölur frá Bretlandi þá má gera ráð fyrir að á Íslandi tapist um 75.000 vinnudagar á ári vegna kvenna sem fá ekki viðeigandi aðstoð. Því er ekki síður aðkallandi að yfirmenn kynni sér um hvað málið snýst og geri viðeigandi ráðstafanir til þess fallnar að styðja við konur á þessu tímabili, sem eru gríðarlega verðmætir starfskraftar, með mikla þekkingu og reynslu að baki,“ segir Halldóra.

Hægt að líkja breytingaskeiðinu við töflufund í hálfleik

Að öllu þessu sögðu má sjá að breytingaskeiðið er bæði afar viðamikið og viðkvæmt tímabil í lífi kvenna. 

 „Breytingaskeiðið gerir okkur hvorki úreltar né ónýtar, heldur getur það verið stórkostlegt tækifæri til þess að endurmeta stöðuna, gera nauðsynlegar breytingar og stilla upp fyrir sterkan seinnihálfleik. Ég upplifi breytingaskeiðið sjálf sem nokkurskonar töflufund í búningsklefanum í hálfleik, þar sem gott er að staldra við og skoða hver maður er, hvert maður vill fara og hvað raunverulega skiptir máli í lífinu,“ segir Halldóra, sem tekið hefur eftir ánægjulegum breytingum hjá sjálfri sér og þeim konum sem hún hefur hjálpað. „Þegar búið er að koma jafnvægi á hormónana og líðaninni í betra horf er eins og opnist fyrir eitthvað og við sjáum lífið í nýju ljósi. Segja má að maður fái ónæmi fyrir bulli og vitleysu og atriði sem áður þvældust fyrir manni skipta ekki nokkru máli lengur. Maður fyllist einhverri nýrri orku og krafti til þess að setja sjálfan sig loksins í fyrsta sæti,“ segir Halldóra og hefðu lokaorðin ekki getað verið betri.

Góð bætiefni

Lyfja, 3.599 kr.
Lyfja, 4.131 kr.
Lyfja, 1.672 kr.
Lyfja, 3.191 kr.
Segja má að maður fái ónæmi fyrir bulli og vitleysu og atriði sem áður þvældust fyrir manni skipta ekki nokkru máli lengur. Maður fyllist einhverri nýrri orku og krafti til þess að setja sjálfan sig loksins í fyrsta sæti.

Fjallað um áhrif næringu og bætiefna á breytingaskeiðinu

Sigfríð Eik Arnardóttir næringaþerapisti mun fræða um áhrif næringu og bætiefna á karla og konur á breytingaskeiðinu 8. mars kl. 11 á Facebooksíðu Lyfju.

Viðburður er hér.

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Sniðugar jólagjafahugmyndir undir 5.000 kr.

Lífsstíll

Spennandi jólagjafa­hugmyndir fyrir hann

Lífsstíll

Stílistinn okkar skoðar tilboðin á Kauphlaupi

Lífsstíll

„Stórkostlegt átak sem þjóðin hefur tekið algerlega upp á sína arma“

Lífsstíll

Topp 5 bækur til að lesa í haust

Lífsstíll

Fáðu frítt æfinga­prógramm frá Söru Davíðs

Lífsstíll

Hér er óskalisti brúðhjónanna

Lífsstíll

Heillandi tilboð á Miðnætur­opnun í Smáralind