Vinsælar og klassískar brúðargjafir
Sumar gjafir eru vinsælli en aðrar - þar sem ákveðnir hlutir fara aldrei úr tísku. Lúxus rúmfatasett, fínt matarstell sem og eldhúsbúnaður eru gjafir sem eru tímalausar, hagnýtar og oftar en ekki ofarlega á óskalista brúðhjónanna. Eins eru upplifanir og dekur öruggur kostur ef út í það er farið.
KUBUS er eflaust ein vinsælasta brúðargjöfin. Hér um ræðir tímalausa hönnun eftir Mogen Lassen frá árinu 1962, sem spannar kertastjaka í ýmsum stærðum, eins vasa og skálar.
Fimm góð ráð í gjafaleit fyrir brúðhjónin
- Er eitthvað sem brúðhjónin elska að gera saman? T.d. að elda, spila golf, menning, ferðalög eða annað? Gjöf sem styður við áhugamálin þeirra, mun hitta í mark.
- Persónulegar gjafir sýna hversu vel þú þekkir brúðhjónin og hér gæti áletrun á skarti eða sérhannað listaverk verið góð hugmynd.
- Það er engin regla að gjöfin þurfi að vera handa þeim saman, því það er ekkert sem stoppar okkur í að gefa henni t.d. fallegt skartgripaskrín og hann getur fengið smart belti eða leðurveski. Hagnýtar gjafir sem henta báðum.
- Gott er að minna sig á að það er hugurinn sem gildir. Handgerð gjöf eða gjöf sem hefur verið vandlega valin fyrir brúðhjónin er alveg jafn verðmæt og hver önnur.
- Óskalistar eru einnig góðir að grípa í, og eru skotheld leið til að tryggja að þú kaupir eitthvað sem brúðhjónin virkilega óska sér.
Smart listaverk eða mynd er góð gjöf handa brúðhjónunum. Þetta fallega veggspjald er íslensk hönnun frá ARTALY - eða Alexöndru Lýðsdóttur. Myndin er í stærðinni 50x70 cm og sómar sér í hvaða rými sem er.
Er dressið klárt?
„Í hverju ætlar þú að vera?” Stóri höfuðverkurinn sem flestallar konur (og margir karlmenn) ganga í gegnum fyrir veislu á við brúðkaup. Því það er ekki síður mikilvægt að huga að því í hvaða dressi þú ætlar að klæðast í veislunni. Sum brúðhjón gefa út tiltekinn stíl eða þema fyrir stóra daginn, því það er munur á hátíðlegum brúðkaupum þar sem síðkjólar og hælaskór eru í fyrirrúmi - á meðan almennt sveitabrúðkaup er öllu heldur afslappaðra.
Hugmyndir að morgungjöfum
Hér öldum áður var morgungjöf ákveðin trygging fyrir brúðina, sem var í formi peninga, eignar eða lands. Því konan erfði ekki manninn sinn, skyldi hann falla frá. Morgungjöf var líka leið mannsins til að þakka brúðinni fyrir meydóminn - en þaðan er orðið dregið, þar sem brúðurin var gefin morguninn eftir brúðkaupið. Það var síðan á 18. öld sem að hefðirnar breyttust yfir í það sem við þekkjum í dag, en vinsælar morgungjafir eru skartgripir, falleg undirföt, upplifun af ýmsum toga, dekurdagur eða annað sem brúðhjónin elska.