„Já, ég er mjög mikið jólabarn,“ segir Dísella, þegar hún er spurð. „Og hef alltaf verið það. Þetta er svo dásamlegur tími og auðvitað best þegar snjórinn „mætir“ líka. Það er bara eitthvað við kuldann, myrkrið og kyrrðina á meðan jóla- og kertaljósin fá að njóta sín sem er svo notalegt.“
Dísella segist halda sérstaklega upp á Þorláksmessu.
„Já, einn af mínum uppáhaldsdögum á árinu er og hefur eiginlega alltaf verið Þorláksmessa. Skata og meiri skata,“ segir hún með sælusvip. „Þetta er svo ofboðslega skemmtilegur siður!“
Þetta er svo dásamlegur tími og auðvitað best þegar snjórinn „mætir“ líka. Það er bara eitthvað við kuldann, myrkrið og kyrrðina á meðan jóla- og kertaljósin fá að njóta sín sem er svo notalegt.
Spurð hvort hún eigi sér einhverja sérlega skemmtilega eða fallega minningu tengda jólum kinkar hún ákaft kolli.
„Dóttir mín er eiginlega búin að „endurstilla mína uppáhalds tengingu við jólin“, ef svo má að orði komast, því hún fæddist á annan í jólum árið 2020. Hún er nú reyndar bara að verða þriggja ára í ár svo að þetta frekar nýtt, en það er mjög gaman að bæta við afmælisveislu þarna inn í miðja jóla- og nýársviku.“
Dísella fer ekki leynt með að dóttirin sé allra besta jólagjöf sem hún hafi fengið.
„Já, veistu, ég neyðist bara til að vera brjálæðislega væmin og segja það. Ég fór af stað á jóladag þarna árið 2020. Þann dag var alveg yndislega fallegt veður og snjókoma og hún fæddist heima í stofu. Betri jólagjöf er ekki hægt að hugsa sér!“
Talið berst þá að að jólagjöfum almennt og Dísella minnist þess að hafa einu sinni fengið bráðskemmtilega gjöf frá systur sinni.
„Systir mín gaf mér Monty Python klukku þar sem leikarinn og grínistinn John Cleese er í miðjunni og fætur hans segja til um tímann, sem er auðvitað skemmtileg vísun í Ministry of Silly Walks-sketsann þeirra.“
Hún hlær og segist ELSKA þessa klukku, enda sé hún mikill Monty Python aðdáandi.
Þjófstartar jólunum
Það er auðheyrt að Dísella nýtur sín í botn á jólunum og því ekki úr vegi að spyrja hvort hún haldi í hefðir tengdar þeim. Hún kinkar kolli og nefnir að innan fjölskyldunnar hafi komist á sú hefð að halda þrjú partý í aðdraganda jóla.
„Ég bjó lengi í Bandaríkjunum þar sem fólk heldur Þakkargjörð hátíðlega og ég hef tekið upp þann sið að halda Þakkargjörðar-kvöldverð fyrir fjölskylduna mína hér heima. Það má segja að með þessu séum við fjölskyldan að þjófstarta jólunum. Jól og Þakkargjörðarhátíð eru auðvitað ekkert tengdar hátíðir í sögulegum skilningi. Þetta er bara gert fyrir stemninguna,“ tekur hún fram og segir hátíðarhöldin hefjast heima hjá sér, með þessum kvöldverði. Því næst sé „partý“ hjá Ingibjörgu systur hennar, þar sem fjölskyldan hittist, borði og geri paté saman. Síðan sé skötuveisla hjá Þórunni systur hennar á Þorláksmessu.
Ég bjó lengi í Bandaríkjunum þar sem fólk heldur Þakkargjörð hátíðlega og ég hef tekið upp þann sið að halda Þakkargjörðar-kvöldverð fyrir fjölskylduna mína hér heima. Það má segja að með þessu séum við fjölskyldan að þjófstarta jólunum.
„Það má reyndar nefna aðra hefð sem við Jökull átta ára sonur minn erum farin að stunda af krafti: „Mentos-kók-sprengju“ á Þorláksmessu áður en við förum í skötu til Þórunnar systur og fjölskyldunnar hennar. Það eru engin góð rök fyrir þessari hefð, okkur finnst þetta bara fyndið og gaman,“ segir hún og hlær.
Annars segist Dísella hafa þurft að temja sér að vera ekkert allt of vanaföst þegar kemur að jólahaldi því vinnunnar vegna hafi hún svo oft þurft að vera erlendis á þessum árstíma. „Ég hef alltaf á tilfinningunni að ég sé eiginlega að missa af jólunum þegar ég þarf að vera erlendis yfir hátíðirnar. Því þótt það sé vissulega hollt að upplifa mismunandi hefðir og staði þá finnst mér jólin á Íslandi alltaf lang best. En þegar vinnan kallar er ekki annað í boði en að vera sveigjanlegur og þá er varla hægt að vera með fastar venjur.“
Dísella segist því reyna að njóta jólanna með fjölskyldunni eftir fremsta megni hvert sinn sem tækifæri gefst.
„Ég vil helst að börnin mín upplifi jólafríið sem slökun og hliðarskref frá amstri hversdagsins. Það er svo mikil keyrsla alltaf á þeim í skóla og tómstundum og oft lítill tími til að vera saman, spila og spjalla. Jólafríið er alveg kjörið í kósí-hangs og gleði. Ef snjórinn „mætir“ þá er líka algjört æði að fara út að leika.“
Reiknar hún með að gera eitthvað öðruvísi á jólunum núna í ár?
„Nei, ég er bara svo ánægð að vera heima um jólin. Ég ætla að njóta þess eins mikið og ég mögulega get.“