Fara í efni

Saga Garðarsdóttir: „Þá afneitaði ég djöflinum og öllum hans félögum“

Lífsstíll - 1. febrúar 2023

Óvenjuleg athöfn, hlátursköst og baldin afgreiðslustúlka með óumbeðnar athugasemdir er eitthvað sem Saga Garðarsdóttir leikkona, handritshöfundur, uppistandari og veislustýra með meiru, minnist þegar fermingardagurinn berst í tal. Hún segir daginn ógleymanlegan fyrir ýmsar sakir og ekki síst þá staðreynd hvað fjölskyldan lagði mikið á sig til að gleðja fermingarbarnið.

Mynd: Máni Arnarsson.
Saga Garðarsdóttir leikkona, handritshöfundur, uppistandari og veislustýra með meiru rifjar upp fermingardaginn.

„Ég ætlaði að fermast í kirkju en var ekki skírð. Þá fór ég og lét skíra mig 14 ára en þegar það var búið þá vildi ég ekki lengur fermast í kirkju. Ég var líka of sein að fermast borgaralega svo Edda systir mín, sem er ellefu árum eldri en ég, stakk upp á að hún sjálf myndi sjá um að hafa kvendómsvígslu fyrir mig. Hún skoðaði allskonar aðferðir um allan heim við að taka ungt fólk í fullorðinna manna tölu og valdi það sem henni þótti skemmtilegast og bjó til sérstaka veislu fyrir mig með allskonar þrautum. Mikið á ég góða systur,“ segir Saga og brosir við tilhugsunina þegar hún er beðin um að rifja upp fermingardaginn.

Þrátt fyrir að hafa haft efasemdir yfir öllu segist Saga hafa verið mjög spennt fyrir deginum, en athöfnin og veislan fóru fram heima hjá fjölskyldu hennar fyrir hartnær 22 árum, nánar tiltekið árið 2001. „Ég var látin skrifa niður lista yfir 10 hluti sem ég vildi afreka næstu tíu árin, opna pakka í mjög þykkum ullarvettlingum, kyssa alla kallanna í veislunni og svo man ég ekki meir.“

Hvernig leið henni innanbrjósts?

 „Ég var ábyggilega soldið montin,“ svarar hún, „og spennt.“

Aðspurð segist Saga ekki muna eftir einhverju skondnu atviki frá deginum. „Nei, en ég man vel eftir skírninni! Þá afneitaði ég djöflinum og öllum hans félögum. Algjört móment.“

Ógleymanleg verslunarferð

Gagnstætt mörgum sem minnast fermingarfatanna með kjánahrolli og jafnvel hryllingi segist Saga alls ekki gera það. Þegar hún skoðar myndir frá deginum finnst henni fermingarlúkkið þvert á móti hafa elst vel.

„Ég var voða lítið að pæla í því,“ viðurkennir hún, „en það hefur alltaf verið erfitt að finna skó á mig því ég nota stórar stærðir. Ég man eftir að við fórum í tískufataverslun og afgreiðslustúlka stakk upp á að ég færi í hormómasprautu svo ég myndi ekki stækka meira - fáránleg pæling. En ég endaði í flottum strigaskóm, kvartbuxum og fallegum bol með slegið hár. Ég veit að kvartbuxur hljóma lúðalega en þær voru svartar og frænka mín, sem er tískugúru, valdi þær og þær voru bara frekar nettar. Þetta eldist mjög vel.“

Spurð hvort hún muni hvað hún fékk í fermingargjöf, segir Saga hafa fengið allskonar gjafir og pening sem hafi heldur betur komið að góðum notum síðar meir.

„Ég fékk myndavél, armbandsúr og 22.000 krónur,“ telur hún upp, „minna en allir vinir mínir. Peningurinn fór inn á bók og svo keypti ég mér íbúð fyrir hann tíu árum seinna.“

„Ég var látin skrifa niður lista yfir 10 hluti sem ég vildi afreka næstu tíu árin, opna pakka í mjög þykkum ullarvettlingum, kyssa alla kallanna í veislunni og svo man ég ekki meir,“ segir Saga um veisluna. 
Mynd: Saga Sig.

Bjóst við að fá meiri pening

Það er auðheyrt að fermingardagurinn líður Sögu seint úr minni.

„Já, ég man frekar margt,“ segir hún. „Mamma gerði súkkulaðihúðuð jarðarber sem ég elska og ég borðaði mjög mörg. Ég man líka hvað Edda systir var skemmtileg og góð; ég man að ég og vinkona mín vorum alltaf að fara eitthvert með súkkulaði að flissa í friði og ég man hvað mamma og pabbi hlógu mikið.“

Aðspurð segist hún þó ekki muna eftir einhverju skondnu atviki frá deginum.

„Nei en eg man vel eftir skírninni! Þá afneitaði ég djöflinum og öllum hans félögum. Algjört moment.“

Var dagurinn eins og Saga hafði ímyndað sér? Eða kom eitthvað á óvart?

„Ég bjóst við að fá meiri pening!“

Myndi hún gera eitthvað öðruvísi í dag?

„Alls ekki,“ svarar hún afdráttarlaust.

Við nánari umhugsun segir Saga að reyndar færi hún frekar í Rauða krossinn eða í „einhverja kúl 'second hand' búð“ til að kaupa fermingarfötin.

Spurð í lokin hvort hún eigi eitthvert ráð til að gefa tilvonandi fermingarbörnum stendur ekki á svarinu.

„Gerið það sem ykkur langar,“ segir Saga, „en bítið líka á jaxlinn og bjóðið gestina velkomna!“

„Bítið á jaxlinn og bjóðið gestina velkomna,“ er ráð sem Saga gefur tilvonandi fermingarbörnum.

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Heitar hugmyndir að konudagsgjöf

Lífsstíll

Byrjaðu árið af krafti og náðu markmiðum þínum!

Lífsstíll

Vertu smart í ræktinni!

Lífsstíll

Góð ráð til að ná úr sér janúar sleninu

Lífsstíll

Nokkur vel valin tips fyrir gamlárskvöld

Lífsstíll

Sniðugar jólagjafahugmyndir undir 5.000 kr.

Lífsstíll

Spennandi jólagjafa­hugmyndir fyrir hann

Lífsstíll

Stílistinn okkar skoðar tilboðin á Kauphlaupi