Fara í efni

Endur­skil­greinum hugtakið fegurð

Lífsstíll - 1. júní 2021

Tæp 70% kvenna hefur neikvæðar tilfinningar gagnvart líkama sínum sem hefur eins og gefur að skilja áhrif á sjálfstraust og samskipti og almenna lífshamingju en ástandið virðist fara versnandi.

Í nýrri herferð Dove er leitast við að vekja athygli á málefninu og endurskilgreina hugtakið fegurð. Stefnan er að hætta að fylgja fyrirfram mótuðum fegurðarstöðlum samfélagsins og fagna fjölbreytileikanum í allri sinni dýrð. Við spjölluðum við Ernu Kristínu, talskonu jákvæðrar líkamsímyndar um hvað hægt er að gera til að sporna við þessari þróun.

Erna Kristín, guðfræðingur, rithöfundur, fyrirlesari og talskona fyrir jákvæða líkamsímynd er andlit íslensku herferðar Dove.

Framtíðarsýn Dove er sú að sjálfstraust og sjálfsvirðing sé uppspretta fegurðar. Undanfarin fimmtán ár hefur Dove unnið að því á heimsvísu að leiða  umræðu og kennslu þegar kemur að sjálfstrausti og bættu sjálfsmati. Dove hefur miðlað fræðsluefni til yfir sextíu milljón manns í 142 löndum og nú er komið að Íslandi.

Hvað er það sem hefur slegið Ernu mest varðandi könnun Dove sem snýr að tilfinningum kvenna til eigin líkama?

„Það sem slær mig mest og veldur mér áhyggjum er að sjá að ungum konum fer aftur í námi vegna neikvæðrar líkamsímyndar. Það er mikilvægt að bregðast við og stefnan hjá mér er að koma fræðsluefni um jákvæða líkamsímynd inn í menntakerfið og ég bíð bjartsýn eftir fundi með menntamálaráðherra Lilju Alfreðsdóttur.“ Hún segir það helst hafa komið sér á óvart að ástandið fer versnandi en tölur sýna að 41% kvenna eru óánægðar með líkama sinn og heil 67% kvenna hefur neikvæðar tilfinningar gagnvart líkama sínum sem hefur aftur áhrif á sjálfstraust, samskipti og almenna lífshamingju. Erna telur fræðslu vera bestu leiðina til þess að breyta þessari þróun og menntakerfið sé því gott næsta skref. Eins hvetur hún fólk til þess að fræða sjálft sig hvað varðar líkamsvirðingu og byrja að taka skref í átt að jákvæðri líkamsímynd. Erna telur margar ástæður vera fyrir því að konur upplifi líkama sína á neikvæðan hátt og segir það seint vera nýtt vandamál.

„Bæði eru ungar stelpur aldar upp við að útlit þeirra vegur þungt og ákveðið útlit sé æskilegt. Við erum mataðar snemma á því hvað sé fallegt í gegnum teiknimyndir, dúkkur og annað þar sem óraunhæfar kröfur eru settar á líkama kvenna og útlit. Tæpur helmingur kvenna byrjar að hafa áhyggjur af útliti og líkamsvexti fyrir tólf ára aldur og allt niður í fimm ára. Samfélagsmiðlar spila einnig stórt hlutverk og er ein af ástæðum þess að líkamsímynd kvenna fer versnandi. Það er mikilvægt að ungar konur geti speglað sig í fjölbreytileika hvort sem það er í teiknimyndum, á samfélagsmiðlum eða í gegnum auglýsingar. Líkami kvenna hefur verið settur upp sem sölu-og tískuvara í margar aldir og það er kominn tími til að stoppa þennan vítahring. Þess vegna eru upplýsingar eins og úr þessari rannsókn Dove virkilega mikilvægar fyrir næstu skref.

Erna brennur augljóslega fyrir málefnið en hún hefur haft neikvæðar tilfinningar gagnvart eigin líkama síðan hún man eftir sér og gengið dimma dali í kjölfarið.

Eins og margar aðrar ungar stelpur gat ég ekki speglað mig í Disney-prinsessum eða Barbie-dúkkum þar sem maginn minn var alltaf stærri um sig en aðrir útlimir. Á unglingsárum fór ég að þróa með mér átröskun sem leiddi mig á mjög dimman stað í mínu lífi. Sem er í raun mjög týpísk uppskrift og allt of algeng. Þess vegna er svo mikilvægt að við gerum betur fyrir komandi kynslóðir.

Erna er enginn nýgræðingur þegar kemur að málefninu líkamsvirðing. Hún hefur skrifað tvær bækur: Fullkomlega ófullkomin sem kom út árið 2018 og er hvatning fyrir konur í átt að jákvæðri líkamsímynd. Ég vel mig kom út í fyrra og fjallar um líkamsímynd og sjálfsmynd ungmenna. Hún hefur einnig haldið fyrirlestra um málefnin víða um land, fyrir alls kyns hópa og öll kyn. Þá er hún einnig ötul baráttukona á samfélagsmiðlum en Ernuland hefur rúmlega 23.000 fylgjendur á Instagram þegar þetta er skrifað. Þar hvetur hún fólk til að leggja málefninu lið með því að pósta myndum af sjálfum sér undir myllumerkinu #mínfegurð. „Það getur verið hvað sem er: persónuleikinn, örin, maginn, slitin, gáfurnar, freknurnar, tennurnar, brosið, appelsínuhúðin, hárið…hvað sem er. Hver einstaklingur er einstakur og við erum öll fullkomlega ófullkomin sem er það fallega við það að vera manneskja,” segir Erna.  

Hún segir margt jákvætt vera í gangi hvað þessi mál varðar á Netinu. „Það jákvæða er að fólk er að vakna. Ég sé fólk almennt bera meiri virðingu fyrir öðrum og fleiri blómstra í eigin skinni.“ Fjölbreytni í auglýsingum sé einnig að verða meiri og ný fyrirtæki að koma á markaðinn sem höfða til fólks af öllum stærðum og gerðum. Sífellt fleiri bætist við í umræðuna, það séu lítil en einstaklega mikilvæg skref sem verði til þess að lýðheilsa almennings mun batna.

En hvað vill Erna helst sjá að breytist til batnaðar svo næsta kynslóð verði sáttari í eigin skinni?

„Það er svo margt. Ég myndi vilja byrja á menntakerfinu og vinna okkur þaðan. Ég held að með því að byggja upp einstaklinga með sterka líkamsímynd muni heilli og sterkari einstaklingar koma inn í samfélagið sem síðan verður til þess að allt annað fer að réttast af hvað markaðinn varðar. Hann breytist ekki fyrr en við byrjum að breyta honum. Áður en ég kveð þessa jarðvist vil ég að gínur í búðum verði í öllum stærðum, ekkert sé til sem er „one size”. Að heilbrigðiskerfið aðhyllist hugmyndina um heilsuhreysti í öllum stærðum og að Disney-prinsessurnar komi í öllum stærðum og gerðum. Ég vil líka sjá breytingu fyrir drengina okkar en þar er einnig langt í land. Ég gæti talið upp endalaust,“ segir þessi skarpa baráttukona að lokum.

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Óskalisti stílista á afslætti á Dekurkvöldi

Lífsstíll

Valentínusar­dagurinn nálgast

Lífsstíll

Ættum við að bæta kollageni inn í rútínuna okkar?

Lífsstíll

Rakel María þjálfari gefur góð heilsuráð

Lífsstíll

Helga Magga næringarþjálfari deilir hollum og góðum uppskriftum

Lífsstíll

Magnaður snjallhringur kominn á markað

Lífsstíll

Góð ráð til að ná úr sér janúar sleninu

Lífsstíll

Jólagjafa­hugmyndir Rakelar Maríu