Köku­skreytinga­drottning Sætra Synda deilir uppskrift

Sætar Syndir hefur opnað dásamlegt kampavínskaffihús í Smáralind þar sem hægt er að setjast niður og gæða sér á kaffi, Möet og meððí. Við fengum eiganda Sætra Synda, kökuskreytingadrottninguna Evu Maríu, í smá spjall og dobbluðum hana til að deila með okkur uppskrift að himneskum Pavlovum.

Köku­skreytinga­drottning Sætra Synda deilir uppskrift

Sætar Syndir hefur opnað dásamlegt kampavínskaffihús í Smáralind þar sem hægt er að setjast niður og gæða sér á kaffi, Möet og meððí. Við fengum eiganda Sætra Synda, kökuskreytingadrottninguna Evu Maríu, í smá spjall og dobbluðum hana til að deila með okkur uppskrift að himneskum Pavlovum.

Áhuginn á bakstri kviknaði þegar Eva María varð móðir fyrir ellefu árum. Fyrsta smjörkremsskreytta kakan varð til fyrir fyrsta afmæli sonarins og þá var ekki aftur snúið.

Áhugi minn á kökuskreytingum óx og kökurnar fóru að verða vandaðri með tímanum og stífum æfingum. Þegar vinir og vandamenn fóru að biðja mig að gera kökur fór ég að leiða hugann að því hvort tækifæri leyndist þarna til að búa til fyrirtæki úr áhugamálinu.

Eva María hóf reksturinn ein í pínulitlu rými og leigði litla Kitchenaid-hrærivél og bakaraofn. „Ég man ég hugsaði að ég skyldi bara prófa þetta og ef það gengi ekki myndi ég bara fara aftur í það að vinna fyrir aðra. Svo leið tíminn og hægt og rólega dafnaði fyrirtækið.” Hún réð fyrsta starfsmann í vinnu eftir ár í rekstri og fyrir þremur árum fluttust Sætar Syndir yfir í stærra húsnæði sem Evu Maríu fannst gríðarstórt skref. „Við fórum úr litlum 50 fermetrum í 200 fermetra rými og þá vorum við eingöngu tvær að vinna hjá fyrirtækinu. Sjö árum síðar erum við komin með tvö útibú og starfsmennirnir eru orðnir tíu talsins,” segir Eva María stolt þegar hún lítur um öxl.

Gullfallegir veislubakkar frá Sætum Syndum í Smáralind.

En hvað myndi Eva María ráðleggja þeim sem ganga með viðskiptahugmynd í maganum?

„Að stökkva á tækifærið, ef maður reynir aldrei getur verið að maður sjái eftir því og hey, í versta falli ef hlutirnir ganga ekki upp þá fer maður bara aftur að vinna við það sem maður var að gera. Það er alltaf betra að taka af skarið og sjá hvert það leiðir mann,“ segir Eva María sem er viðskiptafræðingur að mennt og starfaði lengi vel í fjármálageiranum, bæði hjá Baugi Group og hjá fjárfestingafyrirtæki. Hún segist mjög þakklát fyrir fjármála-og bókhaldsgrunninn sem hún hefur nú þegar hún stendur í eigin rekstri.

sætar syndir hér er smáralind kökur
Nýopnað kampavínskaffihús Sætra Synda í Smáralind.

Hvernig hefur Covid-tímabilið haft áhrif á Sætar Syndir?

„Þetta hefur verið erfitt. Bæði hef ég þurft að endurhugsa reksturinn og tekjulind Sætra Synda þar sem okkar aðalfag eru sérskreyttar kökur fyrir fermingar, afmæli, brúðkaup og nafnaveislur. Þegar öll veisluhöld voru næstum lögð af á einu bretti þurfti maður að hugsa reksturinn upp á nýtt og finna aðra möguleika en það hefur guði sé lof gengið vel og fyrir það er maður þakklátur. Að auki fylgir því ansi mikið álag að passa að smitast ekki eða fá smit inn í fyrirtækið svo maður þurfi ekki að loka en það væri alltaf mikið högg.“

Hvað hlakkarðu mest til að gera þegar þessu tímabili líkur?

„Ég hlakka mest til að geta hitt vini og vandamenn án þess að hafa áhyggjur af að það dragi dilk á eftir sér og að ferðast, vá hvað það verður gott að geta farið til útlanda, skoðað fallegar borgir, borðað góðan mat og drukkið góð vín.“

Hvað er á óskalistanum þínum fyrir jólin?

„Mér finnst mjög gaman þegar við hjónin fáum einhverskonar upplifanir í gjöf en okkur skortir ekkert af veraldlegum hlutum og oftast kaupir maður sér hlutinn ef eitthvað vantar. En við höfum mjög gaman að því að fara út að borða eða upplifa hluti eins og að fara á hótel þannig að ætli það sé ekki efst á óskalista. Smá frí með eiginmanninum.“

Hvernig verða jólin hjá þér?

„Ég ætla að njóta þess að vera í fríi með fjölskyldunni en síðustu vikur og mánuðir hafa verið mjög annasamir þannig að frí með þeim verður alveg yndislegt.“

Áttu einhverja sérstaka jólahefð?

„Við hittum yfirleitt vini og fjölskyldu á Þorláksmessu en mágkonan mín hefur yfirleitt verið með skemmtilegt skötuboð sem startar jólunum skemmtilega.“

Hvað er á óskalistanum fyrir heimilið?

„Ég væri mikið til í falleg og notaleg rúmföt.“

Ómissandi á hátíðarborðið?

„Léttreyktur lambahryggur sem við bjóðum alltaf upp á á aðfangadag á mínu heimili er ómissandi að mínu mati.“

Við stóðumst ekki mátið og dobbluðum Evu Maríu til þess að deila með okkur eins og einni dásamlegri uppskrift.

Pavlovur Evu Maríu hjá Sætum Syndum

6 stórar eggjahvítur (360gr)

1.5 bolli sykur

2 tsk kartöflumjöl

1/2 tsk sítrónusafi

1/2 tsk vanilludropar

Forhitið ofninn í 105 gráður.

Þeytið eggjahvítur þar til þær eru orðnar „semí“ stífar.  Bætið sykri rólega saman við. Þeytið í ca. 10 mínútur þar til stífþeytt.

Notið svo sleikju og blandið varlega saman við sítrónusafa, vanilludropa og kartöflumjöl. Notið þvínæst sprautupoka og rósastút og sprautið fyrst rós og svo hring í jaðrinum ofan á rósina til að mynda skál.

Bakið í 75 mínútur og slökkvið svo á ofninum og leyfið að vera þar í 30-60 mínútur í viðbót.

Þeytið þvínæst rjóma og skreytið með ferskum berjum en svo er auðvitað hægt að setja bragðefni út í marengsinn áður en hann er bakaður, svo sem Turkish Pepper-duft. Einnig getur verið gott að setja karamellu eða kókosbollu í botninn á skálinni og svo rjóma yfir. Skreytið að vild.

Persónulega finnst mér Pavlovur sjúklega ferskar og góðar eingöngu með rjóma og berjum. Ég geymi þær svo í loftþéttu boxi í 30 mínútur áður en ég ber þær fram, þá eru þær svo mjúkar og góðar.

Meira spennandi

Vertu
með
puttann
á púlsinum

Skráðu þig á póstlista HÉR ER. Við drögum út heppinn vin af póstlistanum í hverjum mánuði sem fær 15.000 kr. gjafakort Smáralindar.