Fara í efni

Þarf ekki að vera bestur í öllu til að vera hæfastur í verkefnið

Lífsstíll - 3. júní 2020

Edda Hermannsdóttir, markaðs- og samskiptastjóri Íslandsbanka er einn yngsti stjórnandi bankans en ákvörðun þeirra um að eiga ekki viðskipti við fjölmiðla sem halla á kynjakvótann vakti að vonum sterk viðbrögð í báðar áttir. Nýverið gaf Edda út bókina Framkoma sem hún byggir á reynslu sinni og annarra af því að koma fram. Hún viðurkenni að fyrsta reynsla hennar af fjölmiðlum hefði mátt vera betri. HÉR ER spjallaði við hina metnaðarfullu Eddu, yfir rjúkandi Cappuccino og spurði hana spjörunum úr.

Edda Hermannsdóttir, markaðs- og samskiptastjóri Íslandsbanka er einn yngsti stjórnandi bankans en ákvörðun þeirra um að eiga ekki viðskipti við fjölmiðla sem halla á kynjakvótann vakti að vonum sterk viðbrögð í báðar áttir.

Ætlaði að verða barnalæknir

Edda var snemma farin að láta að sér kveða í fjölmiðlum og hefur aldrei legið á skoðunum sínum. „Ég fæddist á Akureyri en var rúm fimm ár æskunnar í Danmörku þar sem pabbi var í námi. Ég útskrifaðist síðan frá Menntaskólanum á Akureyri og flutti eftir það suður. Ég naut tímans í Menntaskólanum og síðasta árið var ég formaður nemendafélagsins og félagsstörf áttu hug minn allan. Sem betur fer gekk námið alltaf vel því það fór ansi mikill tími í að skipuleggja aðra hluti. Á þessum tíma hélt ég líka mína fyrstu ræðu og fór í  fjölmiðlaviðtöl í fyrsta skipti og ég rifja það auðvitað upp með hálfgerðum hryllingi. En ég fann það að mér fannst gaman að segja mínar skoðanir og byrjaði fljótt að skrifa greinar í blöðin, sumar heldur grimmilegar, svona eftir á að hyggja, til að berjast fyrir réttindum landsbyggðarskóla. Ég hafði mjög gaman að því á þessum árum að ná ólíku fólki saman að ákvörðunum og leiða hópinn áfram.“

Á þessum tíma hélt ég líka mína fyrstu ræðu og fór í  fjölmiðlaviðtöl í fyrsta skipti og ég rifja það auðvitað upp með hálfgerðum hryllingi.

Edda telur óhætt að segja að hún hafi verið orkumikil og ákveðin ung stúlka. „Ég var með mikið skap sem barn en það leið fljótt úr mér enda enginn tími til að vera fúll! Ég hef alltaf viljað hafa mikið að gera og var alltaf að flýta mér. Stundum of mikið. Ég hef líka alltaf verið skipulögð og fyrir löngu fór ég að skrifa niður verkefnin mín og plana dagana vel. Þegar ég var að klára grunnskóla var ég komin í 2-3 vinnur og tilkynnti mömmu og pabba að ég væri komin í næturvinnu um helgar, þau fengu lítið um það ráðið. En ég vann alltaf mikið með skóla sem þýddi að ég þurfti að skipuleggja mig enn betur og standa mig vel í náminu,“ segir Edda sem ætlaði alltaf að verða barnalæknir. Ég horfði alltaf til þess starfs með aðdáun en það gekk ekki nógu vel upp í planinu því mig langaði að eignast börn snemma og svo komst ég að því í menntaskólanum að mér þótti anatómía alls ekki skemmtileg!“ Leið Eddu lá í verkfræðinám en hún skipti svo yfir í hagfræði. „Ég var því í raun aldrei alveg viss hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór og er ekki ennþá viss held ég,“ segir Edda og brosir út í annað.

„Það krefst líka hugrekkis að vilja breyta hlutum og eðlilegt að það komi gagnrýni. Maður þarf hinsvegar alltaf að reyna að skilja ólíkar hliðar og við þurftum að sýna því auðmýkt að við hefðum getað sett málið betur fram.“

Nýbúin að eiga og beint í útsendingu

Edda stundaði hagfræðinám ólétt að seinna barni sínu, þá 24 ára gömul. Henni var boðið að vera spyrill í Gettu betur sem hún tók að sér í þrjú ár. Eftir námið lá leiðin á Viðskiptablaðið og fyrr en varði var hún orðin aðstoðarritstjóri blaðsins. Fyrir fimm árum síðan tók Edda við starfi sem samskiptastjóri hjá Íslandsbanka en hún segir starfið hafa breyst töluvert á þeim tíma. Tvær deildir sameinuðust og í dag er hún markaðs-og samskiptastjóri bankans. Ákvörðunin sem hún tók um að eiga ekki viðskipti við fjölmiðla þar sem kynjahlutfallið er brenglað vakti að vonum hörð viðbrögð í báðar áttir. Hver er undanfari þeirrar ákvörðunar? „Við fórum í stefnuvinnu í bankanum í upphafi síðasta árs og þegar ég tók við markaðsmálunum mótuðum við markaðsstefnu sem er í samræmi við stefnu bankans. Bankinn vinnur að fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og á meðal þeirra eru jafnréttis- og loftslagsmál. Við ætluðum því að horfa í auknum mæli til þessara þátta við innkaup á vörum líkt og mörg fyrirtæki eru að gera og þar á meðal hjá fjölmiðlum,“ segir Edda og viðurkennir að viðbrögðin hafi komið henni á óvart.

Viðbrögðin voru mjög sterk í báðar áttir. Við áttum samtöl við ansi marga en þau samtöl fóru vel þegar við fórum betur yfir málin. Eftir á að hyggja hefðum við getað útskýrt þetta betur til að byrja með enda eru svona verkefni ekki eitthvað sem gerist á einni nóttu heldur langtímaverkefni. En það krefst líka hugrekkis að vilja breyta hlutum og eðlilegt að það komi gagnrýni. Maður þarf hinsvegar alltaf að reyna að skilja ólíkar hliðar og við þurftum að sýna því auðmýkt að við hefðum getað sett málið betur fram,“ segir Edda einlæg. En hefur hún alltaf barist fyrir auknu jafnrétti kynjanna? „Ég varð mun meðvitaðri um jafnréttismál þegar ég fór að starfa í fjölmiðlum og að fylgjast meira með viðskiptalífinu. Þar hallar mikið á konur og eitt af mínum fyrstu verkefnum var að skrifa um og fylgjast með kynjakvóta í stjórnir. Ég hafði mikinn áhuga á því að skoða hvernig við nálgumst þessi mál ólíkt því öll erum við sammála um að vilja jafnrétti. Við Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir skrifuðum bókina Forystuþjóð til að sýna ólík sjónarhorn á þessi mál. Hugmyndin kviknaði þegar við heyrðum af karlkyns atvinnurekanda sem hafði rökrætt við konu í launaviðtali. Það samtal endaði með því að hún fór að gráta og hann var alveg gáttaður á þeim viðbrögðum. Forystuþjóð fékk mjög góð viðbrögð hjá langflestum en við brostum út í annað þegar við heyrðum frá tveimur eldri mönnum að þetta myndi örugglega ganga vel hjá okkur enda værum við svo sætar stelpur. Sem betur fer hefur orðræðan undanfarin ár vakið flesta til umhugsunar um hvernig við tölum og hvernig orð hafa áhrif. Margrét Pála hjá Hjallastefnunni orðar það einstaklega vel þegar hún talar um hvernig við tölum við börn þegar þau eru lítil, stelpurnar eru sætar prinsessur á meðan strákarnir eru stórir og sterkir. Það mikilvægasta sem ég hef lært í þessum málum er að jafnréttismál eru ekki mál sem á að setja sem mjúkt mál til hliðar. Þessi mál á að ræða eins og hverja aðra viðskiptaákvörðun til að viðhalda fjölbreytni á vinnustað sem ég held að flestir séu sammála um að skipti miklu máli til langs tíma.“

Það mikilvægasta sem ég hef lært í þessum málum er að jafnréttismál eru ekki mál sem á að setja sem mjúkt mál til hliðar.

Fyrsta fjölmiðlareynslan mátt vera betri


Nýlega gaf Edda út bókina Framkoma. Hvernig kom það til? Mín minning af fyrstu ræðunni og þegar ég kom fram í fjölmiðlum í fyrsta skipti er ekkert sérstaklega góð. Flestum finnst þetta erfitt en auðvitað verður það auðveldara. En það er svo margt sem ég hefði viljað vita fyrr því ég var alveg blaut á bak við eyrun. Við höldum oft að örugg framkoma sé fólki eðlislæg og meðfæddur hæfileiki en það er vissulega hægt að þjálfa framkomu.“ Undanfarin ár hefur Edda tekið saman ráð sem hafa nýst vel en í fyrra héldu þær Eva Laufey, systir hennar og fjölmiðlakona, námskeið fyrir konur sem naut mikilla vinsælda. „Ég fór þá að skrifa þessi ráð skipulega niður en mér fannst vanta svona efni á íslensku sem væri hálfgert uppflettirit fyrir framkomu. Efni sem hægt væri að skoða af og til eftir tilefni og myndi hjálpa til við undirbúning. Ég hef í starfinu mínu í dag þjálfað starfsfólk við framkomu og sé reglulega árangurinn af því þegar fólk tekur sér tíma til að æfa og undirbúa sig. Mér finnst líka mjög mikilvægt að fólk sé óhrætt við að tjá skoðanir sínar og deili þekkingu og láti hræðslu við framkomu ekki stoppa sig. En þetta snýst alltaf um að segja fólki eitthvað, hvort sem það er á litlum vinnufundi eða í fjölmiðlum, og sannfæra þann sem hlustar. Því það skiptir ekki máli hvað við kunnum og vitum, ef við getum ekki komið því vel frá okkur þá sannfærum við engan,“ segir Edda sannfærandi og heldur áfram: „Það er hinsvegar engin leið rétt í framkomu og því fannst mér mikilvægt að fá hóp af fólki sem kemur reglulega fram til að gefa góð ráð í bókinni og segja líka frá því sem hefur ekki heppnast eins vel. Hópurinn er fjölbreyttur og sögurnar skemmtilegar og gagnlegar. Þegar ég byrjaði að skrifa bókina ákvað að ég myndi aldrei taka tíma frá vinnu né börnum við að skrifa hana. Sem betur fer er það mikið áhugamál að skrifa, ég tala oft um það að skrifa er að hugsa. Þannig náum við oft að fullmóta hugsanirnar okkar. Ég sat því mörg kvöld fram eftir með kertaljós og súkkulaði og naut þess í botn að skrifa bókina enda mikið áhugamál.“

„Því það skiptir ekki máli hvað við kunnum og vitum, ef við getum ekki komið því vel frá okkur þá sannfærum við engan.“

Edda segist alla tíð hafa verið stressuð við að koma fram og viðurkennir að fá ennþá fiðrildi í magann. „Það er hinsvegar góð breyting þegar maður nær að breyta stressinu í smá tilhlökkun við að koma fram. Þegar ég var í Gettu betur þurfti ég að fara í mikla naflaskoðun enda alveg óreynd og mætt í beina útsendingu. Fyrsta viðtalið í tengslum við þáttinn var tveimur dögum eftir fæðingu sonar míns og hálfskondið að horfa til baka og minnast þess að hafa verið að reyna að troða mér í kjól og í útsendingu. Ég var því ekki uppfull af öryggi og fyrsta árið var ég alveg með skrifað handrit fyrir mig og leit helst ekki upp úr því. Ég þurfti því að minna mig á það hvers vegna ég væri þarna og ég vissi alveg hvað ég vildi segja. Þá um leið þorði ég að vera ég sjálf og var óhræddari við að gera mistök og var ekki að reyna að gera hlutina fullkomlega. Þó það hljómi sem mótsögn, þá þurfum við að undirbúa okkur og æfa svo við þorum að vera við sjálf og látum mistökin ekki slá okkur út af laginu.“

„Þó það hljómi sem mótsögn, þá þurfum við að undirbúa okkur og æfa svo við þorum að vera við sjálf og látum mistökin ekki slá okkur út af laginu.“

Heldurðu að konur séu ragari við það að koma sér á framfæri eða er það breytt, að þínu mati? „Mín reynsla úr fjölmiðlum er að konur eru oft varkárari og hræddari við að gera mistök. Mér finnst það samt augljóslega hafa breyst mikið á undanförnum árum og gaman að sjá fleiri konur stíga fram og deila þekkingu og skoðunum sínum. Það er líka mikið af samkomum og félagasamtökum eins og til dæmis Ungar athafnakonur sem hafa það að markmiði að efla aðrar konur og aðstoða þær. Ég veit að mér hefði þótt frábært að geta sótt í þannig félagsskap þegar ég var að klára nám og stíga mín fyrstu skref í atvinnulífinu.“

Fyrsta viðtalið í tengslum við þáttinn var tveimur dögum eftir fæðingu sonar míns og hálfskondið að horfa til baka og minnast þess að hafa verið að reyna að troða sér í kjól og í útsendingu.

Þarf ekki að vera bestur í öllu til að vera hæfastur í verkefnið

Hvernig er best að sækjast eftir því sem maður vill í lífinu? „Við höldum oft að tækifærin komi til okkar sem þau geta vissulega gert. En það er nauðsynlegt að láta vita hvað maður vill eða hverju maður hefur áhuga á. Þá er líka gott að fá ráð um hvað maður þarf að læra eða gera til að komast nær því markmiði. Það getur verið frá samstarfsfélögum eða einhverjum sem við horfum upp til eða treystum. Best er að fá hreinskilna endurgjöf um hluti sem maður getur gert betur og nýta það til að læra.“ Edda segist alla tíð hafa verið með ákveðin markmið í lífinu. „Það var mikið gert grín að fimm ára planinu mínu þegar ég var yngri en ég var mjög snemma búin að setja mér markmið. Ég er ennþá með fimm ára plön og ég átta mig á að það kann að hljóma frekar leiðinlega. Með aldrinum áttar maður sig þó alltaf á því að hlutirnir fara oftast ekki alveg eins og þeir áttu að fara og það er í góðu lagi. Eins gott og það er að hafa stefnu þá er nánast enn mikilvægara að geta aðlagað sig að breyttum aðstæðum og endurhugsað stefnuna. En það getur að mínu mati breytt miklu að hugsa framtíðina og velta því upp hvað maður þarf að læra eða undirbúa til að ná markmiðum sínum.“ Það liggur beint við að spyrja Eddu hverju hún er stoltust af í lífinu. (Henni er bannað að segja börnin, augljóslega!) „Mér finnst gaman að rifja upp tilfinningar sem koma upp þegar ég tekst á við nýjar áskoranir og upplifi sterklega þetta „imposter syndrome“-að ég eigi ekki erindi og sé ekki nógu góð í eitthvað. Ég held ég hafi upplifað það í öllum mínum störfum þegar ég byrja en smám saman komist yfir þessa tilfinningu og er mun óhræddari í dag að takast á við nýja hluti. Ég er stolt af því núna að hafa alltaf staðið með sjálfri mér og sannfæringu minni og ýta sjálfri mér stöðugt út fyrir þægindarrammann. Því maður þarf alltaf að muna að maður þarf ekki að vera bestur í öllu til að vera hæfastur í verkefnið.“

„Mér finnst gaman að rifja upp tilfinningar sem koma upp þegar ég tekst á við nýjar áskoranir og upplifi sterklega þetta „imposter syndrome“ -að maður eigi ekki erindi og sé ekki nógu góður í eitthvað.

Varð fljótt ástfangin upp fyrir haus

Edda er trúlofuð Ríkharði Daðasyni og á þau Emilíu 12 ára og Sigurð 9 ára af fyrra sambandi en Ríkharður á Ragnheiði af fyrra sambandi sem verður 15 ára í sumar. Hvernig kynntust þau Rikki? „Það byrjaði á því að hann bauð mér í kaffibolla en það varð aldrei af þeim bolla. Hann hafði svo aftur samband „miklu“ eða síðar og þá létum við verða af því að hittast. Við fórum okkur rólega í fyrstu og vildum halda sambandinu leyndu til að byrja með en börnin vilja reyndar meina að við höfum verið mjög léleg í því og stríða okkur mikið á því,“ segir Edda og skellir uppúr. Vissi Edda hver hann var áður en þau byrjuðu að hittast? Ég þekkti alveg nafnið en ég viðurkenni að ég hafði ekkert fylgst með honum þegar hann var atvinnumaður í fótbolta. Þegar hann var upp á sitt besta í boltanum var ég lítið að fylgjast með. Hann er líka mjög hógvær að tala um þessa tíma svo ég þurfti að lesa mér til á Netinu þegar við vorum að byrja að hittast,“ segir Edda og brosir út að eyrum. Var það ást við fyrstu sýn? „Það er nú ekki alveg hægt að segja það og ég var frekar erfið við hann þarna til að byrja með. Ég þakka ennþá fyrir það hvað hann er þolinmóður og staðfastur. En ég varð ansi fljótt ástfangin af honum upp fyrir haus.“ Rikki fór niður á skeljarnar á Ítalíu fyrir tveimur árum og við sleppum henni að sjálfsögðu ekki án þess að fá að heyra smáatriðin. „Vinir okkar, Ragnhildur Steinunn og Haukur Ingi, giftu sig á Ítalíu fyrir tveimur árum á ævintýralega fallegum stað. Í lok veislunnar kastaði hún brúðarvendinum og ég var ekki á svæðinu þegar hópur hafði safnast saman til að grípa hann. Þá kallaði einhver á mig að ég þyrfti að drífa mig í þetta og mér fannst það bráðfyndið og mjög amerískt að taka þátt í svona. Nema ég er mikil keppniskona og geri grín að því að í minningunni að olnboginn var örugglega búinn að rifbeinsbrjóta nokkrar og ég stóð uppi með vöndinn. Þá fagnaði hópurinn mikið og byrjaði að syngja nafnið hans Rikka sem var ekki á svæðinu. Hann kom svo röltandi og sá mig með vöndinn. Hann gekk beint upp að mér og fór niður á hnéð og bað mín. Þá ærðist auðvitað allt og ekki eitt þurrt auga á staðnum, eðlilega. Sveppi klappaði Rikka fljótlega á bakið eftir þetta og sagðist redda honum út úr þessu daginn eftir!  En þá hafði hann verið að undirbúa að biðja mín um sumarið en ekki akkúrat á þessari stundu. En svo gerast hlutirnir bara og hann nýtti aldeilis þetta tækifæri vel. Nú er því mikið rætt um brúðkaup á okkar heimili og börnin komin mun lengra í skipulagningu en við, eru byrjuð að æfa lög á píanó og ákveða fötin og svona. Við erum aðeins slakari þó við séum að verða mjög spennt fyrir þessum stóra degi.

„Hann kom svo röltandi og sá mig með vöndinn og gekk beint að mér og fór niður á hnéð og bað mín.“

Átti í fallegu vinasambandi við Hemma

Eins og margir vita var Hemmi Gunn blóðfaðir Eddu. Hvernig var sambandi þeirra háttað og finnst henni hún hafa erft eitthvað af eiginleikum hans? Ég vissi snemma að pabbi væri ekki líffræðilegur faðir minn þó ég hafi alltaf litið á hann sem minn pabba. Það var hinsvegar um sjö ára aldur sem ég hitti Hemma og vissi þá fyrst að þetta var maðurinn í sjónvarpinu sem var auðvitað frekar ótrúlegt á þeim tíma. Síðan velti ég því lítið fyrir mér og ég man ég hafði engan sérstakan áhuga á að ræða þetta við neinn. Við héldum aðeins sambandi en ég bjó fyrir norðan og samskiptin því ekki mikil. Það jókst þegar ég flutti suður og síðustu árin hans áttum við mjög fallegt vináttusamband. Ég kynntist systkinum mínum á unglingsárum og það er eins með þau að það var ekki fyrr en síðar sem það varð að mikilli vináttu. Við systur höfum haldið mikið saman og það er alveg einstakt að kynnast fólki sem maður hefur ekki alist upp með en á svo margt sameiginlegt með. Í rauninni algjört ríkidæmi. Eftir að við kvöddum Hemma þá lásum við ævisögu hans þar sem hann segist sjá margt líkt með sér og okkur Evu Laufeyju. Ég held það sé að mörgu leyti rétt, við erum miklar félagsverur og byrjuðum snemma að sækja í fjölmiðla. En við erum líka ólíkar honum að mörgu leyti en ég er mjög þakklát í dag fyrir að hafa náð að kynnast honum og sjá hvað ég fékk frá honum.“ Þar sem Edda er vön að skipuleggja framtíðina vel er ekki úr vegi að spyrja hvernig hún sér hún hana fyrir sér? „Ég er alltaf spennt fyrir framtíðinni og er mjög meðvituð um að tími er alltaf af skornum skammti. Því vill maður velja að nýta hann til að gera það sem nærir mann og gerir mann glaðan. Við njótum þess að vera með börnunum okkar og fylgja þeim eftir í þeirra áhugamálum og deila okkar áhugamálum með þeim líka. Okkur finnst líka einstaklega gaman að ferðast um landið og skoða heiminn með þeirra augum. Á meðan þau nenna að hanga með okkur erum við alsæl. Eftir tíu ár verð ég vonandi búin að þróast enn betur sem stjórnandi og hef jafn gaman að vinnunni og núna. Ég vona að á þeim tíma verði ég á framandi slóðum, búin að hlaupa maraþon og orðin þokkaleg í golfinu,“ segir Edda glaðvær að lokum.

Myndir: Íris Dögg Einarsdóttir.

Eftir að við kvöddum Hemma þá lásum við ævisögu hans þar sem hann segist sjá margt líkt með sér og okkur Evu Laufeyju. Ég held það sé að mörgu leyti rétt, við erum miklar félagsverur og byrjuðum snemma að sækja í fjölmiðla.

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Óskalisti stílista á afslætti á Dekurkvöldi

Lífsstíll

Valentínusar­dagurinn nálgast

Lífsstíll

Ættum við að bæta kollageni inn í rútínuna okkar?

Lífsstíll

Rakel María þjálfari gefur góð heilsuráð

Lífsstíll

Helga Magga næringarþjálfari deilir hollum og góðum uppskriftum

Lífsstíll

Magnaður snjallhringur kominn á markað

Lífsstíll

Góð ráð til að ná úr sér janúar sleninu

Lífsstíll

Jólagjafa­hugmyndir Rakelar Maríu