Heilsu- og sjálfsræktarferð
Drauma-áfangastaður?
„Mig dreymir um að fara í æfingaferð til Phuket á Taílandi. Ég og maðurinn minn höfum gert það tvisvar og það er svo geggjað að blanda saman fríi og æfingum. Það er nú ekki oft sem maður kemur „heilbrigðari“ heim úr fríi en það hefur gerst í þau skipti sem við höfum komið heim frá Taílandi.“
Hvaða áfangastaður stendur upp úr?
„Mér finnst Sankti Pétursborg ein fallegasta borg sem ég hef komið til. Byggingarnar eru svo ótrúlega fallegar og menningin ótrúleg. Sennilega er maður ekki á leiðinni til Rússlands í bráð þannig að ég er fegin að hafa náð að fara þangað nokkrum sinnum áður en stríðið skall á.“
Þyrstir í Afríku-ævintýri
Hvaða stað dreymir þig um að heimsækja?
„Ég á marga drauma áfangastaði þannig að mér þykir svolítið erfitt að benda á einhvern einn stað. En það svæði sem hefur kannski mest verið í huga mínum undanfarið er Afríka og þá einna helst Suður-Afríka. Ástæðurnar fyrir því að ég heillast af Suður-Afríku eru nokkrar; í fyrsta lagi á ég vini sem hafa farið þangað og þeir tala afskaplega vel um landið, þar ku vera einstaklega fallegt og fjölbreytt landslag. Auk þess er maturinn víst verulega góður og mikil vínrækt í landinu en matur og vín er eitt af því sem ég sækist í á mínum ferðalögum. Þar er líka fjölbreytt dýralíf og hægt að fara í safarí sem mig hefur dreymt um lengi. Ekki má gleyma góðu loftslagi og fallegri birtu sem mér finnst spennandi þar sem ég er áhugaljósmyndari.“
„Uppáhaldsborgin mín er hins vegar án efa París og þarf kannski engan að undra þar sem ég bjó þar í tæp þrjú ár og hef heimsótt hana reglulega í yfir 30 ár. Borgin er full af fallegum minnismerkjum og byggingum, söfnin eru ævintýri fyrir listasögunörd eins og mig og svo er maturinn dásamlegur. Tuttugu ólík hverfi eru í Parísarborg en þau hafa hvert sinn sjarma og einkenni, óhætt er að segja að borgin sé í raun margir litlir bæir. Þrátt fyrir að hafa búið í borginni uppgötva ég nánast alltaf eitthvað nýtt í hverri heimsókn hvort sem það er nýr matsölustaður, búð eða safn.“
Fullkomin blanda af náttúrufegurð, menningu og mat
Paradís fyrir sælkera
Óska-áfangastaður?
„Eilat í Ísrael. Ég fór til Ísrael 19 ára með bakpoka á vit ævintýra í leit að tilgangi lífsins, alheimsins og alls þar fyrir utan. Endaði með að vinna í níu mánuði á seglskútu á Rauðahafinu þar sem ég grillaði ofan í ferðamenn sem fóru í dagsferð til Kóralla-eyjunnar. Einhverju sinni sat ég með fæturna út fyrir borðstokkinn á skútunni, sem ég bjó í þessa níu mánuði og horfði á sólina setjast og lita Rauðahafið rautt og lofaði sjálfum mér að ég myndi koma einhvern tímann aftur á skútuna sem farþegi og njóta þegar ég væri orðinn gamall karl með fjölskyldu. Jæja, nú er ég kominn með skegg og grátt hár og fjölskyldu svo kannski er stundin runnin upp!“
„Síðast en ekki síst er regla á mínu heimili, í hvert skipti sem farið er í nýja borg, að leigja prívat sælkera-leiðsögumann í þrjár til fjórar klukkustundir í upphafi heimsóknar. Þetta er gert til að læra af heimamönnum hvert sé best að fara til að njóta, hvar innfæddir halda sig og bara fá beint í æð öll leyndarmálin sem ekki eru gefin upp á þessum dæmigerðu ferðasíðum. Þar fyrir utan eru rosaleg verðmæti fólgin í því að heyra beint frá heimamönnum hvað er í gangi í borginni og í landinu og í lífi innfæddra.“
Ævintýraferð til Asíu
Drauma-áfangastaður?
„Einmitt núna dreymir mig helst um að fara til Mílanó. Fyrir fimm árum fórum við hjónin til Ítalíu, höfðum bækistöð í Arezzo og keyrðum um Toskana. Þetta var yndislegt frí þar til alveg í lokin. Hundurinn okkar veiktist og dó og við ákváðum að stytta ferðina um þrjá daga. Þeim dögum ætluðum við að verja í Mílanó og sjá meðal annars Síðustu kvöldmáltíðina. Manninum mínum hefur langað að klára þessa ferð alla tíð síðan og nú í júní erum við búin að bóka far og gistingu svo loks er komið að því.
En stærsti draumurinn er að fara til Asíu og ferðast um Taíland, Laos, Kambódíu, Víetnam og fleiri framandi ævintýralönd. Ég veit að náttúrufegurð er mikil á þessum slóðum, áhugaverð menning og einstakt mannlíf. Frá því að ég var barn hefur mig líka langað að fara til Ástralíu og Nýja Sjálands. Þegar ég las Grant skipstjóri og börn hans í útgáfu Iðunnar kviknaði þessi löngun og ég held að Ástralía sé ævintýraheimur, fullur af framandi og spennandi dýralífi, fjölbreyttri náttúru og gerólíkri okkar. Nú nálgast óðum eftirlaunaaldur hjá okkur og hver veit nema við skellum okkur í þessar draumaferðir.“
Hvaða áfangastaður finnst þér standa upp úr?
„Enn sem komið er stendur Prag árið 2000 upp úr. Þegar ég kom þangað hafði kapítalisminn ekki fyllilega tekið yfir og enn voru handverksmenn á Karlsbrúnni, hver með sínar vörur. Allt var svo vandað og sérstakt og þótt flest kostaði ekki mikið á mælikvarða okkar var ekki á blaðamannslaunum hægt að kaupa allt sem mig langaði í. Fólkið var svo vingjarnlegt og tók svo vel á móti okkur og öll þjónusta til fyrirmyndar.
Borgin var líka einstaklega falleg og hvarvetna bar hún vitni um hagleik og snilli þess fólks sem þar hafði búið og byggt hana upp. Ég kom svo þangað aftur 2010 og þá hafði allt breyst. Handverkið var meira og minna fjöldaframleitt og allt eins. Fólkið hafði mun minni áhuga á túristum og alls staðar höfðu sprottið upp staðlaðir veitingastaðir og einhvers konar afþreying fyrir túrista. En borgin var enn fögur og spennandi. Það er einhver einstök kyrrð niður við Moldá og byggingarnar í miðbænum stórkostlegar.“