Búin að ferma þrjú af fjórum
Þórunn er dugleg við að endurnýta gamlar krukkur sem hafa áður geymt pestó eða pastasósur og tekur fram þegar halda á veislu enda með fjölbreytt notagildi á veisluborðinu.
Fermingar eru yfir páska og því um að gera að samtvinna skreytingarnar. Hér eru nokkrar fallegar hugmyndir frá Þórunni þar sem hún hefur gefið sköpunargleðinni lausan tauminn.
Þórunn er dugleg við að nota það sem til er á heimilinu í skreytingar á veisluborðið. Hér er gott dæmi þar sem viðarkanína er dregin fram og fær nýtt hlutverk á toppi kökunnar. Hversu fallegt?
Mér finnst mjög gaman að halda veislur. Ég hef yfirleitt alltaf eitthvað þema og geri oftast allar veitingar sjálf, bæði mat og kökur.
Hvaða tips geturðu gefið okkur þegar kemur að fermingarundirbúningi?
Góður undirbúningur er lykilatriði. Ég byrja oftast 2-3 mánuðum fyrir veisluhöld, að taka til allsskonar skreytingar sem ég á fyrir. Ég endurnýti gamlar glerkrukkur af mat eins og pestókrukkur og glerkrukkur af pastasósum, það er svo margt skemmtilegt hægt að gera með þær og þetta er eitthvað sem ég á alltaf í geymslu. Svo finnst mér blöðrur eiga að vera í öllum veislum, þær eru ódýrar og það er svo einfalt að búa til allskyns boga og skemmtilegheit. Svo hef ég í gegnum árin oft notað gjafapappír sem löber á veisluborðið, ódýr og sniðug lausn.
Hvaða tískutrend sérðu í borðskreytingum þessa tíðina?
Blöðrur eru svakalega vinsælar og litir eins og grænn, blár og bleikur er alltaf vinsæll hjá stelpunum í bland við silfur og gull. Einnig eru jarðlitir vinsælir núna sem hentar fyrir alla.
Skreytirðu heimilið sérstaklega fyrir páskana?
Já, skreyti alltaf heimilið fyrir páskana, á orðið mikið af fallegu skrauti. Set alltaf greinar í vasa og skreyti með allsskonar páskaskrauti. Ég nota líka alltaf fersk blóm með og auðvitað dekka ég upp páskaborð og baka köku og skreyti veisluborðið.