Fermingarvertíðin er hafin af fullum krafti og líklega sem aldrei fyrr eftir tveggja ára hlé. Af þeim sökum plataði HÉRER Ágúst Beintein Árnason, eða Gústa B, eins og hann er alltaf kallaður í viðtal, en það eru ekki allir sem vita að hann er sérstakur áhugamaður um fermingar.
Gústi er líklega betur þekktur sem okkar skærasta TikTok stjarna, en auk þess er hann plötusnúður og hefur verið á kafi í leiklist frá unga aldri. Gústi ólst upp í sex systkina hópi í miðbæ Reykjavíkur og segist sjálfur vera mjög jákvæður og mikill peppari sem alltaf er til í að prófa eitthvað nýtt og spennandi. „Ég fékk snemma áhuga á leiklist. Mamma gaf mér upptökuvél í sex ára afmælisgjöf og ég byrjaði fljótt að gera stuttmyndir heima hjá mér sem bróðir minn, Árni Beinteinn, kenndi mér að taka upp og klippa. Þegar ég var 12 ára var ég loksins orðinn nógu gamall til að fara í prufur fyrir leiklistarverkefni og fór í hverja einustu sem ég sá auglýsta,“ segir Gústi, sem fékk á endanum hlutverk í Óvitunum sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu og síðar meir í sýningum í Borgarleikhúsinu, Gaflaraleikhúsinu og Útvarpsleikhúsinu á RÚV.
Fólk elskar refinn Gústa
Það var svo fyrir nokkrum árum að Gústi fór að einbeita sér að samfélagsmiðlunum.
Ég bjó heldur betur að leiklistarreynslunni þegar ég byrjaði á TikTok. Ég stúderaði vinsælustu myndböndin og tók hálft ár í að skrolla miðilinn án þess að gefa út eitt einasta myndband. Þegar rétti tíminn kom hóf ég að birta myndbönd reglulega og í dag vinn ég aðallega við að búa til TikTok en kem einnig fram sem plötusnúður.
TikTok er vinsælasti samfélagsmiðillinn í heiminum í dag, með gríðarlegt áhorf. Mikill vöxtur hefur verið á TikTok miðli Gústa. „Um þessar mundir bætast daglega við um 150 fylgjendur hjá mér. Ég er nú alltaf að bíða eftir að það minnki því einhvern tímann hlýt ég að vera búinn að ná til allra sem ætla að fylgja mér, þetta er nú ekki það stórt land að vöxturinn geti haldið áfram endalaust. Það eru svo að meðaltali um 25.000 manns sem horfa á hvert myndband, en ég hef líka gert nokkur sem yfir 100.000 Íslendingar hafa horft á, ég vissi ekki einu sinni að það væri mögulegt,“ segir Gústi. En, um hvað fjalla myndböndin hans? „Ég geri allskonar myndbönd, allt frá því að labba úti með refinn minn, yfir í að fíflast í vatnsrennibrautargörðum á Tenerife,“ segir Gústi, en refurinn hans, Gústi jr, er sérstaklega vinsæll á miðlinum. „Fólk elskar refinn minn, en hann eins og aðrar samfélagsmiðlastjörnur, þarf vissulega hvíld inn á milli. Ég fæ mikil viðbrögð við sumum myndböndunum, þá koma margar athugasemdir og fólk er að hrósa mér eða biðja um meira svipað.“
Mikilvægt að hafa foreldrana með sér í liði
Gústi hefur vakið athygli fyrir fallega framkomu og að vera góð fyrirmynd fyrir yngri kynslóðina. Einnig talar hann vandað mál og er allt hans efni á íslensku. „Stefnan hjá mér er að bjóða upp á skemmtilegt íslenskt efni fyrir fólk á öllum aldri.
Markmiðið hefur alltaf verið að vera góð fyrirmynd og ég legg mikið upp úr því. Ég vil sýna krökkum að það þarf ekki að lítillækka aðra til að upphefja sjálfan sig. Ég reyni að vera fyrirmyndin sem ég yrði ánægður með að leyfa barninu mínu að horfa á, en um leið og foreldrarnir eru farnir úr þínu liði geturðu kvatt ungu aðdáendurna.“
„Mamma horfir á hvert einasta myndband"
Gústi á einstakt samband við móður sína, Auði Einarsdóttur, og er annt um að hún sé sátt við efnið sem hann sendir frá sér. „Mamma er íslenskukennari og hefur kennt mér svo ótal margt og stutt við bakið á mér. Hún skutlaði mér í allar leiklistarprufurnar og hvatti mig áfram til að gera það sem mig langaði. Þegar ég útskýrði fyrir henni að ég ætlaði að hætta í háskóla til að einbeita mér að TikTok og gera það að fullu starfi var hún skilningsrík og stóð við bakið á mér. Mamma horfir á hvert einasta myndband sem ég set á TikTok og ég bið hana oft um að horfa á óútgefið efni og athuga hvort henni finnist það ekki örugglega skemmtilegt. Hingað til hefur henni ekki misboðið neitt myndband þannig að ég er á réttri leið,“ segir Gústi og hlær.
„Sleppi því aldrei að hafa eitthvað til að stefna að"
Velgengi Gústa hefur ekki komið af sjáfu sér, heldur hefur hann unnið markvisst að henni. „Ég er algjör markmiða-stákur, en frá því ég var í leikskóla hef ég skrifað niður markmið og teiknað upp draumana mína. Nánast allt sem ég hef endað á að gera var ég búinn að sjá fyrir mér á einhvern hátt og og skrifa niður.
Ég á til dæmis skjal í símanum mínum frá 2016 þar sem ég skrifaði að ég væri ein af stærstu samfélagsmiðlastjörnunum á Íslandi. Núna sex árum síðar er það vissulega að einhverju leyti að rætast.
Þegar ég set mér markmið brýt ég það niður í þau skref sem þarf til að gera það að veruleika. Ég komst til dæmis inn á íslandsmeistaramótið í sundi á tveimur vikum þrátt fyrir að hafa ekki synt í tíu ár, bara með þessari aðferð, að skipta markmiðunum niður í skref,“ segir Gústi, en hvaða stóru markmið hefur hann sett sér fyrir komandi ár? „Tvö af mínum markmiðum fyrir næstu fimm ár eru að vera með minn eigin útvarpsþátt á FM957 og einnig minn eigin sjónvarpsþátt á Stöð 2. Svo er líka mikilvægt að muna að það má breyta um markmið og drauma, en ég sleppi því aldrei að hafa eitthvað til að stefna að.“
Fermdist í hvítum kjólfötum
Gústi fermdist hjá Siðmennt árið 2015. „Ég heillaðist af því sem þau kenndu þar. Það var áhugavert að læra um aðrar þjóðir og menningu, en Ísland er auðvitað svo ótrúlega lítill partur af heiminum og það er svo margt áhugavert og spennandi þarna úti. Við lærðum líka um virðingu, jafnrétti og fleira sem gagnaðist mér mjög mikið. Það sem situr þó helst eftir er gagnrýna hugsunin sem okkur var kennd, að taka ekki öllu sem staðreyndum og rýna í hlutina áður en maður tekur ákvörðun,“ segir Gústi, sem svo var með atriði í fermingarathöfninni sjálfri fyrir fullum sal í Háskólabíói. „Ég rappaði sérútbúið lag um fermingarfræðsluna sem við hlutum. Textann gerði ég sjálfur en lét mömmu að sjálfsögðu lesa yfir,“ segir Gústi, en lagið sló í gegn og var hann fenginn til þess að flytja það á 25 ára afmælishátíð Siðmenntar síðar á árinu.
Segja má að Gústi hafi ekki elt ákveðna tískustrauma við valið á fermingarfötunum. „Ég var í hvítum kjólfötum því ég vissi að það yrði enginn þannig, ég hef aldrei elt strauminn heldur alltaf farið minn eigin veg. Ég held að það sé mikilvægt fyrir krakka að skilja að þetta er þeirra líf og þegar maður eldist áttar maður sig betur og betur á því hvað það er dýrmætt að standa með sjálfum sér. Árni Beinteinn kenndi mér það líka. Að elta ekki hjörðina og spá ekki í hvað öðrum finnst. Ég stal einmitt hvítu kjólfötunum úr skápnum hans.“
Ætlar að peppa barnið sitt í döðlur
Eins og Gústi segir sjálfur þá er vart hægt að finna meira fermingarbarn og ætlar hann ekki að láta eina fermingu nægja. „Þegar ég tók ákvörðun um að fermast borgaralega á sínum tíma hugsaði ég með mér að ég gæti alltaf fermst kristilega síðar, með barninu mínu í framtíðinni.
Ég ætla að verða besti pabbi í heimi, peppa barnið mitt í döðlur og gera allt fyrir það. Þess vegna gerir ekkert til þó svo það vilji ekki einu sinni fermast, eða þá taki ákvörðun um að fermast borgaralega eins og ég gerði, ég fer þá bara einn! Samt spurning hvað presturinn hugsar þegar fertugur karl mætir í fermingafræðslu fyrir unglinga. Það verður kannski bara drepfyndið TikTok myndband,“ segir Gústi að lokum.