Ég held að öll svona markmið þurfi að vera hófleg og ekki mikið um boð og bönn.
Á eiginkonunni ýmislegt að þakka
„Eftir að skrokkurinn neitaði að spila fótbolta lengur þá varð ég að finna hreyfingu sem ég gæti stundað reglulega og væri ekki drepleiðinleg,“ segir Valur Freyr hreinskilinn, þegar hann er spurður út í heilsuna og hvort hann hafi einhvern tímann sett sér markmið tengt henni. „Það gekk nú reyndar ekki vel til að byrja með,“ heldur hann áfram og glottir við tilhugsunina. „En síðan ég fór að elta Ilmi [Stefánsdóttur, myndlistarkonu og leikmyndahönnuð, innsk. blm.], konuna mína í sund. Hún kenndi mér að synda skriðsund sem ég hafði aldrei lært í skólasundi. Þegar ég náði tökum á því varð ég smám saman háður því að fara í sund alla daga fyrir vinnu. Enda gerir það alla daga betri, bæði andlega og líkamlega, að byrja í lauginni.“
Þetta var fyrir nokkrum árum og Valur segir reynsluna því hafa kennt sér að skynsamlegast sé að setja sér raunhæf markmið varðandi heilsu og hreyfingu og eins að fara rólega af stað. Það sé lykillinn að því ná árangri og sjálfsagt eitt besta ráðið sem hann geti gefið þeim sem vilja fara að huga betur að heilsunni.
„Ég held að öll svona markmið þurfi að vera hófleg og ekki mikið um boð og bönn,“ segir hann hugsi. „ Sjálfur fór ég hægt af stað í sundmarkmiðum mínum, 250 – 300 metra til að byrja með. Svo fór ég upp í 500 metra og synti þá vegalengd í eitt ár. Því næst lengdi ég sundið í 1000 metra og núna syndi ég 1700 metra á dag fimm daga vikunnar,“ upplýsir hann. „Þetta er þróun sem hefur gerst á sjö árum.“
Allt er best í hófi
Spurður hvort hann lumi á fleiri ráðum handa þeim sem vilja fara að gera eitthvað í sínum málum hugsar Valur sig um andartak og segist svo líka hafa áttað sig á því að óþarfar áhyggjur af heilsunni séu ekki hjálplegar, þær skemmi bara fyrir.
„Það stelur mann svefni. Um leið og það gerist þá fer heilsunni mjög hratt hrakandi því svefninn er lykillinn að góðu jafnvægi, bæði andlega og líkamlega,“ bendir hann á. Sjálfur segist Valur reyna að huga vel að heilsunni almennt, til dæmis með því að sofa vel, hreyfa sig eitthvað á hverjum degi, borða mátulega og drekka hóflega. „Dáldið eins og mamma sagði alltaf, allt er best í hófi.“
Hann segir hófsemina vera ávísun á árangur og eins sé gott að velja sér hreyfingu sem maður hafi gaman af.
„Ég hlakka alltaf til að mæta í sundið og það gefur mér lífsorku, sem er lykillinn að því að nenna að stunda eitthvað svona til lengri tíma,“ nefnir hann í því samhengi. „Að finna hreyfingu sem maður verður smám saman háður er mjög gott markmið.“
Náði árangri á ketó
„Ég hef oft sett mér markmið og tekist vel en það hefur líka oft mistekist,“ játar Daníel Óliver. „Lífið og verkefnin eiga það til að stela frá manni tíma og fókus og ég reyni að láta það ekki draga mig niður þegar það gerist.“
Hann er að eigin sögn svolítill öfgamaður þegar kemur að heilsunni. „Ég reyni að gera alltaf eitthvað, en ef ég hugsa um mataræðið og reyni að borða „hreint“, þá hættir mér hins vegar til að hreyfa mig minna og öfugt. Ég er bara svo mikill öfgamanneskja að þetta er svona mín leið til að hafa eitthvað jafnvægi.“
Á tímabili kveðst Daníel Óliver til dæmis hafa verið á fullu í crossfit. Nokkuð sem hann geti vel hugsað sér að byrja á aftur þar sem crossfit samanstandi af æfingum sem séu bæði fjölbreyttar og skemmtilegar. Hins vegar segir hann að af öllu sem hann hafi prófað í gegnum tíðina hafi ketó mataræði sjálfsagt skilað einna mestum árangri.
„Ég prófað það á á árunum 2017 – 2020. Það gekk rosalega vel og mér leið mjög vel, en síðan þegar Covid skall á í mars 2020 og allt fór í lás þá hugsaði ég með mér „fokk this shit” og byrjaði að „borða og drekka allar óþægilegar tilfinningar tengdum þessum faraldri,“ segir hann og viðurkennir hlæjandi að það séu enn alveg nokkrir mánuðir í að „pabba kroppurinn” sem myndaðist í faraldrinum hverfi.
En af hverju heldur Daníel að ketó mataræðið hafi gefið svona góða raun?
„Ketó virkaði af því þú nærð jafnvægi á blóðsykrinum og samhliða því minnka matarlöngun og sykurþörf,“ svarar hann. „Eflaust spilaði inn í að ég hafði tíma til að standa í þessu, en stundum hefur maður það bara ekki og það er allt í lagi líka.“
Ef það er eitthvað sem Daníel Óliver segist hafa lært af þessu öllu þá sé það að skrifa markmiðin niður og byrja á litlum og gerlegum markmiðum sem á endanum leiði mann „að þeim stóru“. Hann mælir með að fólk prófi þetta.
„Svo er jafn mikilvægt að muna að hafa gaman,“ bætir hann við. „Lífið snýst víst um ferðalagið, ekki endastöðina.“
Bjórhlaupin borga sig
„Ég mæli með að fólk setji sér lítil og raunhæf markmið sem snúa að því að styrkja innri hreysti,“ segir Pétur, þegar hann er spurður hvort hann lumi á ráðum handa þeim sem langar að huga betur að heilsunni. „Það geta verið reglulegar líkamsæfingar, andlegar æfingar og ræktarsemi við trú og bænir og gott mataræði,“ nefnir hann sem dæmi. „Allt í bland en bara ekki of mikið af því,“ undirstrikar hann. „Við eigum líka að eiga nægan tíma til að hugsa um hvað við höfum ekki gert neitt síðasta klukkutímann.“
Hættur að spæna upp malbikið
Pétur vakti athygli fyrir frækilega framgöngu í fótbolta á árum áður en eftir að hann lagði skóna á hilluna segist hann helst hlaupa sér til heilsubótar. „Ég fer út að hlaupa. Það eru mínar kjarnastundir,“ upplýsir hann.
Hann bætir við að eftir að hann uppgötvaði utanvegarhlaup hafi hann eiginlega alveg hætt að spæna upp malbikið. „En ég er samt enginn ofurhlaupari,“ tekur hann fram, „varla hlaupari – og þyrfti að hlaupa mun reglulegar.“
Þannig að Pétur hugar vel að heilsunni?
„Já, ég hugsa mikið um heilsuna. En það skilar sér minna út í daglegt líf eftir að ég hætti að spila og fjölskyldan og vinnan tóku við sem frumlag allra stunda. En ég er alltaf á leiðinni. Samandregið þá myndi þetta útleggjast svona; ég hef aldrei hugsað jafn mikið um hvað ég er að gera of lítið fyrir heilsuna,“ segir hann og brosir.
Krefst viljastyrks og sjálfsaga
Þó kemur í ljós að Pétur hefur tvisvar hlaupið maraþon erlendis og nokkrum sinnum hálft, en hann segir að það hafi verið meira til að skemmta sér í góðum hópi en að vinna markvisst að góðu líkamlegu formi.
„Ég er meðal annars í hlaupahópi sem heitir Mikkeller running club, sem ástundar bjórhlaup. Þá er hlaupið einn virkan dag í hverri viku og einu sinni í mánuði á laugardagsmorgni spræka 10 kílómetra í frábærum félagsskap. Eftir laugardagshlaup eru síðan teygðir vöðvar og bjórar.“ Nokkuð sem hann segist mæla heilshugar með.
Setur Pétur sér markmið sem tengjast heilsunni?
„Já, ég geri það inn á milli,“ svarar hann. „Þá reyni ég að setja mér minni, raunhæf og áþreifanleg markmið.“
Auk þess segist hann vera kominn á þann aldur að þurfa að huga betur að mataræðinu sem hann reyni að gera með allskonar markmiðum – misgáfulegum, misbröndóttum og misbrögðóttum. „Áður gat ég leyft mér nokkurn veginn allt í mat og drykk en með árunum finn ég að nú þarf rútínu og aga í þessu, sem öllu öðru,“ segir hann sposkur.
Góður undirbúningur fyrir Ögurballið
Sem dæmi segist Pétur hafa sett sér það markmið ásamt góðum vinum að hlaupa Vesturgötuna síðasta sumar. Hann segir þá félaga hafa æft vel fyrir hlaupið. Stundum stíft. Síðan hafi verið rennt vestur en staldrað aðeins lengur en gert var ráð fyrir á Ögurballinu í Ísafjarðardjúpi, „sem dregur saman og fangar albjart íslenskt sumar inn í lítið samkomuhús, sem geymir óravíddir á milli veggþilja,“ eins og Pétur orðar það.
„Þannig að hamingjusamir miðaldra menn, í aðeins betra formi en þeir væru annars í, dönsuðu glaðir inn í Djúpnóttina síðasta sumar,“ lýsir hann og þakkar Guði fyrir góðan undirbúning, æfingar og sett markmið. „Við klárum hlaupið bara seinna,“ segir hann hlæjandi.
Jákvætt hugarfar skiptir máli
Og hvað hefur Pétur lært af þessu? Jú, að gera ekki of miklar kröfur á sjálfan sig. Hann hvetur þá sem vilja setja sér heilsutengd markmið að gera slíkt hið sama.
„Því ef við setjum hlutina í sögulegt samhengi þá höfum við aldrei verið duglegri og í betra formi. Við höfum aldrei verið betri og upplýstari manneskjur; höfum aldrei eytt jafn miklum tíma með börnunum okkar, gert þannig líf þeirra betra og framtíð bjartari - og unnið eins og hestar á meðan. Heilt yfir og samandregið, höfum við aldrei staðið okkur betur en akkúrat núna,“ bendir hann á. „Kapphlaupið eftir markmiðum má ekki vera á kostnað hamingjusporanna sem við stöndum í. Þetta getur allt farið saman.“