Sextíu kíló af kjaftshöggum er ellefta bók Hallgríms, en jafnframt sú fyrsta sem er framhald af annarri. „Hér held ég áfram að segja sögu sem hófst með „Sextíu kílóum af sólskini“. Báðar gerast þær í byrjun síldarævintýrsins á Siglufirði, en ég breyti nafni fjarðarins í Segulfjörð. Sagan reynir að útskýra fyrir okkur hvaðan við Íslendingar komum og hvernig okkur tókst að krafsa okkur inn í nútímann og velmegunina, en aðallega á þetta nú bara að vera skemmtilegur og áhugaverður lestur.“
Hallgrímur segir hugmyndir bóka sinna yfirleitt koma til sín þegar hann dvelst á hótelherbergjum erlendis. „Þá er maður einn og óvarinn af áreiti, opinn og móttækilegur. En þegar unnið er að sögulegri skáldsögu eins og þessari þarf maður að lesa sér til í heimildum. Þá verður þetta blanda af manns eigin hugmyndum og einhverju sem kviknar við lesturinn. Ein lítil frétt í dagblaði frá 1911, um að fundist hafi lík sextán ára stúlku í fjörunni á Siglufirði, getur til dæmis gefið manni 100 blaðsíður af efni.“
Hallgrímur segir jólabókavertíðina skemmtilegan tíma og alltaf jafn spennandi að fá nýtt verk í hendurnar.

Það er alltaf þessi spenningur að sjá hvernig kápan kemur út, hvort hún sé eins og hún leit út á skjánum. Og svo er að sjá hvort allar síðurnar séu þarna, og sæmilega villulausar. Þetta er alltaf ákveðið kikk, sem hefur lítið breyst með hækkandi aldri.
Mynd: Gassi Ólafsson.

Eins og sönnum bókaunnanda sæmir er náttborð Hallgríms ekki autt um þessar mundir frekar en endranær. „Ég er á kafi í ævisögu Henriks Ibsen, the Man and the Mask, eftir Ivo de Figueiredo, frábær lesning sem endist fram að jólum. Þá var ég að klára bók bróður míns, Gunnars, Bannað að eyðileggja, þar sem hann er í sannkölluðu banastuði, eða barnastuði öllu heldur. Þær bækur sem mig langar að lesa næst og vonast til að fá í jólagjöf eru Sigurverkið eftir Arnald Indriðason, Kolbeinsey eftir Bergsvein Birgisson, Stórfiskur eftir Friðgeir Einarsson, Merking eftir Fríðu Ísberg og Stóra bókin um sjálfsvorkun eftir Ingólf Eiríksson.
Á óskalista Hallgríms
Sigurverkið-Arnaldur Indriðason
Sigurverkið er söguleg skáldsaga sem gerist á sunnanverðum Vestfjörðum og í Kaupmannahöfn á 18. öld; margslungin og harmræn frásögn sem lýsir á áhrifaríkan hátt beiskum örlögum alþýðufólks og valdinu sem það er undirselt. Íslenskur úrsmiður situr í höll Danakonungs og gerir upp forna glæsiklukku. Kvöld eitt rekst sjálfur einvaldurinn, Kristján sjöundi, inn til hans; að nafninu til enn höfuð ríkisins en þykir ekki með öllum mjalla og hefur verið ýtt til hliðar af syni sínum og hirð. Þeir taka tal saman og svo fer að úrsmiðurinn rekur fyrir hátigninni dapurlega sögu föður síns og fóstru sem tekin voru af lífi að skipan fyrri konungs, föður Kristjáns.

Kolbeinsey-Bergsveinn Birgisson
Maður nokkur ákeður að heimsækja æskuvin sinn, sem hefur verið lagður inn á geðdeild sökum þunglyndis. Þeir ná vel saman, en hjúkrunarkona sem annast vininn tekur heimsóknunum illa og reynir að stía þeim í sundur. Maðurinn er settur í heimsóknarbann og því skipuleggja þeir strok af spítalanum og leggja á flótta. Strokinu er illa tekið, hjúkrunarkonan kemur æandi á eftir þeim og í kjölfarið hefst æsilegur eltingarleikur um landið þvert og endilangt. Flóttinn frá siðmenningunni verður sífellt flóknari og að lokum er stefnan tekin mót nyrstu eyju Íslands – Kolbeinsey.

Stórfiskur-Friðgeir Einarsson
Íslenskur hönnuður, búsettur erlendis, fær það verkefni að hanna merki sjávarútvegsfyrirtækis. Hann slær tvær flugur í einu höggi, snýr heim til að kynna sér starfsemina og leita sér lækninga við dularfullu meini sem lagst hefur á hendur hans. Hvort tveggja tekur mun lengri tíma en til stóð. Stórfiskur fjallar um stóra fiska og minni, í sjó og á þurru landi.

Merking-Fríða Ísberg
Samkenndarprófið er byltingarkennd tækni og rannsóknir staðfesta marktæka fylgni milli andsamfélagslegrar hegðunar og að mælast undir lágmarksviðmiðum þess. Einstaklingum býðst að taka prófið og merkja sig í kjölfarið í opinberan kladda Sálfræðingafélags Íslands til að sýna samfélaginu fram á að þeim sé treystandi. Ráðafólk hefur þurft að merkja sig, hvert fyrirtækið á fætur öðru kýs að gera það og ný hverfi rísa þar sem ómerktum er meinaður aðgangur. Íslenska þjóðin er klofin; annar helmingurinn vill öruggara samfélag, hinn vill réttlátt samfélag. Skáldsagan Merking er margradda verk sem fjallar um afstöðu og pólaríseringu, fordóma og samkennd.

Stóra bókin um sjálfsvorkun-Ingólfur Eiríksson
Eftir sambandsslit hrökklast Hallgrímur heim úr leiklistarnámi í erlendri stórborg til að fara á geðdeild. Heimurinn hefur snúist á hvolf og draugar elta hann hvert fótmál. Stóra bókin um sjálfsvorkunn fjallar í senn um par að stíga sín fyrstu skref í heimi fullorðinna, gömul fjölskylduleyndarmál og ungan mann sem bisar við að koma lífi sínu á réttan kjöl.

Ein lítil frétt í dagblaði frá 1911, um að fundist hafi lík sextán ára stúlku í fjörunni á Siglufirði, getur til dæmis gefið manni 100 blaðsíður af efni.