Fara í efni

Snorri Másson íhugar að fermast

Lífsstíll - 15. febrúar 2023

Fjölmiðlamaðurinn Snorri Másson á ýmsar góðar minningar frá fermingardeginum en finnst hann hafa farið á mis við trúarlega fermingu. Hann myndi því hiklaust láta ferma sig í kirkju ef honum stæði það til boða í dag. Síðan er eitt og annað sem Snorri gerði öðruvísi ef til stæði að endurtaka leikinn.

Mynd: Sýn
Snorri hefur starfað sem sjónvarpsmaður um árabil og annast nú hvort tveggja fréttir og dagskrárgerð hjá Stöð 2, einkum í Íslandi í dag.

Þegar Snorri er spurður hvernig honum hafi liðið á fermingardaginn minnist hann þess að hafa verið mjög spenntur. „Ætli það hafi ekki aðallega helgast af væntingum um að fá fartölvu,“ játar Snorri, sem fermdist tíunda apríl 2011. „Þetta snerist voðalega mikið um það og peninginn. Sem er miður.“ 

Hvar fermdist hann?

„Hjá Siðmennt. Líklega vegna áhrifa frá einhverjum trúlausum frænkum sem sögðu að þar væri forvitnileg fermingarfræðsla sem legði mikið upp úr praktískum hlutum. Æ síðan hef ég séð eftir að hafa ekki fermst inn í kristna kirkja eftir að ég komst til vits og ára og áttaði mig á að mér finnst kristin trú prýðilegt konsept. Jú, stefna Siðmenntar er siðræn og húmanísk en öðrum þræði andkirkjuleg. Ég er því fermdur samkvæmt þeirri hugmyndafræði, sem er visst áhyggjuefni þar sem ég er að fara að giftast í kirkju og finnst vanta ákveðið skref þarna á milli. Kannski ég drífi bara í því að láta ferma mig áður,“ segir hann léttur í bragði.

Og hvernig var fermingarbarnið til fara?

 „Ég var nú bara í jakkafötum með slaufu og vatnsgreitt hár, þótt ég hafi nú alltaf verið meira gefinn fyrir bindi,“ segir hann. „Slaufur eru svona hæpnara hálstau en í ákveðnum aðstæðum geta þær verið, ég segi nú kannski ekki beint óviðeigandi, heldur frekar ópassandi. Og ég myndi allan daginn velja mér bindi í dag.“

Ég var nú bara í jakkafötum með slaufu og vatnsgreitt hár, þótt ég hafi nú alltaf verið meira gefinn fyrir bindi.
Snorri Másson á fermingardaginn.

Loks kominn í fullorðinna manna tölu

Snorri tekur fram að aldrei hafi annað komið til greina en að fermast. „Nei, það var aldrei spurning. Ég var alltaf staðráðinn í að sækja þau verðmæti sem buðust,“ viðurkennir hann. „Maðurinn er auðvitað hjarðdýr.“

Hann segist reyndar ekki mikið muna eftir sjálfri athöfninni en þeim mun meira úr veislunni sem var haldin á heimili fjölskyldunnar við Hringbraut í Reykjavík enda hafi hún bæði verið hátíðleg og skemmtileg í alla staði.

„Alls konar ágætt fólk var samankomið þar, meðal annars eldri frændur sem létu eins og maður væri kominn í fullorðinna manna tölu og það var því ekki laust við að maður upplifði sjálfan sig voða fullorðinn og væri svolítið góður með sig. Þegar ég horfi tilbaka hélt maður einhvern veginn að maður vissi allt, sem er auðvitað bara skondið því maður var svo ungur, í raun algjör krakki og átti eftir að upplifa heilmargt.“

Mynd:SI
Snorri flytur erindi um miðlun íslensks bókmenntaarfs til yngri kynslóða í Safnahúsinu.

Á góðar minningar frá deginum

Heilt yfir segist Snorri eiga góðar minningar frá fermingardeginum. „Jú, það snérist vissulega svolítið mikið um gjafirnar; fartölvuna góðu. Maður er náttúrulega af allt annarri tæknikynslóð en krakkar í dag sem alast upp við snjallsíma og þekkja ekki annað. Þarna voru slíkir símar ekki fyrir hendi og því frábært að eignast í fyrsta sinn sína eigin fartölvu, eins og gerðist oft hjá krökkum við fermingu, og öðlast þar með aðgang að þessum stafræna veruleika. Þótt ég sé nú enginn talsmaður þess að krakkar séu að fá svona tæki ung að aldri og hef alveg gagnrýnt það þá markaði þetta viss tímamót í lífi manns, sem var skemmtilegt.“

Snorri segir að svo hafi ekki skemmt fyrir að fá í gjöf meiri pening en hann sjálfur þorði að vona. „Ég fékk einhvern 140 þúsund kall ef ég man rétt, sem var nú bara dágóð upphæð á þessum tíma. Að minnsta kosti fermdist bróðir minn tveimur árum áður og hann fékk ekki nærri því eins mikinn pening í fermingargjöf.“

Færi aðra leið í dag

Það er einna helst að Snorri sjái eftir því að hafa ekki fermst í kirkju. „Mér finnst ég hafa farið svolítið á mis við trúarlega fermingu, eins og ég segi. Þannig að ef ég væri að að fermast í dag gerði ég það hiklaust í kirkju. Nýtti tækifærið og reyndi að njóta þess að vera við fótskör guðfræðings sem er að kenna efnið af mikilli þekkingu, að minnsta kosti og af innlifun, vonandi. Líklega hljómar þetta ekki mjög spennandi í eyrum krakka en ég trúi því einlægt að maður geti lært mikið af svoleiðis fólki, að maður geti orðið margs vísari.“

Og ef Snorri fengi að velja í dag yrðu fermingarfötin með öðru sniði. „Já, ég myndi skella mér í Herragarðinn,“ segir hann ákveðinn, „og kaupa mér jakkaföt, einföld jakkaföt. Ég er með svo miklar skoðanir á jakkafötum. Og kannski sleppti ég hálstaui.“ Hann hugsar sig um. „Svo eru það skórnir. Nú er algengt að sjá stráka í strigaskóm við jakkafötin. Ég færi ekki þá leið. Nei, ég myndi kaupa spariskó. Mér finnst það flottara.“

Jakkaföt frá Boss úr Herragarðinum, 109.980 kr.
Spariskór frá Lloyd úr Herragarðinum, 24.980 kr.

Hvetur krakka til að harka af sér

Spurður í lokin hvort hann lumi á heilræði handa tilvonandi fermingarbörnum kveðst Snorri aðallega vilja gefa krökkum þau einföldu ráð að bjóða gesti velkomna og segja þeim að gjöra svo vel að þiggja veitingarnar. Þetta þurfi að gera hátt og skýrt. Fermingarbörnin þurfi nefnilega að átta sig á það að það er miklu vandræðalegra að hika og hiksta heldur en að rétta úr bakinu og tala hátt og skýrt yfir hópinn og þakka viðstöddum fyrir komuna.

„Það vill enginn horfa upp á fermingarbörnin engjast á meðan þau gera þetta,“ segir hann. „Það gerir allt neyðarlegra.“

Og vefjist þetta eitthvað fyrir krökkum þá sé um að gera fyrir þau að velja úr hópi viðstaddra tvö til þrjú andlit sem þau þekkja og geta einblínt á á meðan þau tala. Það dragi úr stressinu.

„Ég hef alveg skilning og samúð með þeim sem þjást af sviðsskrekk en stundum þarf að harka af sér. Þetta er einfaldlega svona „Fake It Till You Make It-dæmi “.

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Spennandi jólagjafahugmyndir fyrir hann

Lífsstíll

Stílistinn okkar skoðar tilboðin á Kauphlaupi

Lífsstíll

„Stórkostlegt átak sem þjóðin hefur tekið algerlega upp á sína arma“

Lífsstíll

Topp 5 bækur til að lesa í haust

Lífsstíll

Fáðu frítt æfinga­prógramm frá Söru Davíðs

Lífsstíll

Hér er óskalisti brúðhjónanna

Lífsstíll

Heillandi tilboð á Miðnæturopnun í Smáralind

Lífsstíll

Óskalisti stílista á afslætti á Dekurkvöldi