Farið ykkar eigin leiðir
„Ég hugsa að mitt helsta ráð sé bara að vera maður sjálfur. Það er svo gott fyrir sjálfstraustið á stóra daginn,“ segir Brynja Dan, bæjarfulltrúi í Garðabæ, áhrifavaldur og eigandi Extraloppunnar. Brynja bendir á að gaman geti verið að halda í fallegar hefðir þegar kemur að vali á fermingarfötum en vera um leið óhrædd við að fara eigin leiðir. Mestu máli skipti að fermingarbörnin velji sér fatnað sem þeim líði vel í.
„Straumarnir hafa endurspeglað það síðustu ár. Eins og sést af strigaskónum sem krakkarnir hafa verið að klæðast við fermingardressið. Þeir eru flottir og „ferskir“ og þægilegir fyrir öll kyn,“ segir hún og játar að hún hefði nú alveg verið til í að skipta hælaskónum sem hún fermdist sjálf í út fyrir slíka skó.
Vissulega séu þó sumir krakkar vanir að ganga í háum hælum og finnist það þægilegt og þá sé um að gera velja sér slíkan skóbúnað, enda gott úrval af fallegum spariskóm í verslunum hérlendis.
Í Extraloppunni í Smáralind er hægt að fara í fjársjóðsleit og finna notuð föt og „vintage“-perlur sem gaman er að gefa nýtt líf.
Hvað með skart? Er eitthvað sem verðandi fermingarbörn ættu að hafa í huga þegar kemur að því?
„Það sama gildir um það,“ svarar Brynja. „Ég myndi velja eitthvað látlaust og klassískt, en svo er bara smekksatriði hvað hver og einn fílar.“
Varist óþægileg og óklæðileg föt. Já og brúnkuslys!
Er eitthvað sem þú myndir beinlínis ráðleggja fermingarbörnum að varast?
„Ég sveiflast svolítið á milli þess að finnast sniðugt að fermingarbörn séu með látlausa hárgreiðslu og förðun og klæðist einhverju tímalausu á stóra daginn, svo fermingarmyndirnar þeirra eldist vel, og yfir í það að þau fari alveg í hina áttina, því fermingarmyndir geta einmitt verið svo skemmtilegur vitnisburður um það hvernig tískan breytist með tímanum,“ segir Brynja og brosir.
Aðalatriðið sé kannski helst að reyna að varast óþægileg og óklæðileg föt. „Já og brúnkuslslys! Það er nefnilega ekkert sérlega gaman að vera appelsínugulur á fermingardaginn,“ segir hún og skellir upp úr.
Myndatexti: Brynja Dan segir strigaskó vinsæla við nánast hvaða dress sem er. Látlausar hárgreiðslur séu sömuleiðis áberandi. „Ekki þetta uppsetta 90‘s lúkk sem gæti þó bankað upp á aftur í ár þar sem 90‘s er komið aftur.“
Allt er leyfilegt
Þegar Ellen Loftsdóttir stílisti er spurð hvort hún lumi á tískuráðum handa verðandi fermingarbörnum segist hún fyrst og fremst hvetja þau til að vera sjálfstæð í fatavali. „Mín helstu ráð eru þessi: Farðu þínar eigin leiðir á fermingardaginn. Það eru engar reglur sem gilda. Og mundu að mamma og pabbi vita ekki best!“
Ellen segist hafa alist upp á tíma þegar óskráðar reglur giltu um klæðaburð fermingarbarna. Stelpur hafi yfirleitt þurft að klæðast hvítu og vera með blóm í hárinu á meðan strákar urðu að vera í jakkafötum – sem yfirleitt pössuðu illa á þá eða voru of stór! Sjálf hafi hún haft ákveðnar hugmyndir um hvernig hún vildi hafa eigin fermingarföt en látið undan óskum annarra, sem hafi litað fermingardaginn. „Þess vegna hvet ég öll fermingarbörn til að muna að þetta er ykkar dagur. Þið eigið að fá að ráða hverju þið klæðist,“ segir hún.
Ef hugmyndaflugið fær að ráða för í vali á fermingarfatnaði gerast töfrar.
Sumum finnist til dæmis leiðinlegt að fara í spariföt en þá sé einfaldlega hægt að vera í hvítri skyrtu með bindi, sportlegum jakka yfir, „plain“ buxum og strigaskóm. Eða kjól og grófum skóm og léttum jakka. Jafnvel pels. „Það eru engin trend og allt er leyfilegt,“ segir Ellen. „Ef hugmyndaflugið fær að ráða för í vali á fermingarfatnaði gerast töfrar,“ bætir hún við, „og þú munt eiga stórkostlegan fermingardag!“
Loks minnir Ellen á að fermingarfötin kosti sitt og því sé sniðugt að velja fatnað sem nota megi að fermingu lokinni. „Það er alls konar í boði í verslunum og því alveg hægt að para saman fatnað sem gengur upp á skólaballi líka eða bara á venjulegum skóladegi,“ bendir hún á.
Ekki elta strauminn
Pattra Sriyanonge, markaðsstjóri er sammála því að fermingarfatnaður sé mun afslappaðri í dag en hér áður fyrr. „Strigaskór þóttu ekki ásættanlegir fyrir einhverjum árum en eru í fínu lagi í dag,“ nefnir hún sem dæmi. Krakkarnir fái að vera meira þau sjálf sem sé jákvætt í alla staði og frábær þróun.
Áttu einhver tískuráð handa verðandi fermingarbörnum þegar kemur að fatavali?
„Það er til dæmis alltaf hægt að skoða fermingarmyndir mömmu og pabba og sækja smá innblástur,“ segir Pattra eftir stutta umhugsun. „Sumar geta líka verið ákveðið víti til varnaðar,“ bætir hún við og hlær.
Ekki apa eftir því sem besti vinurinn eða vinkonan hefur valið sér. Vertu í því sem þér líður vel í.
En hvað með skó og skart?
„Sko, þetta kann að hljóma hrikalega leiðinlega, sérstaklega fyrir ævintýragjarna unglinga,“ segir hún, „en einfalt er best í þeim efnum!“
Annars hvetur Pattra fermingarbörn til að velja föt sem þeim líður vel í. „Ekki elta strauminn. Ekki apa eftir því sem besti vinurinn eða vinkonan hefur valið sér. Vertu í því sem þér líður vel í. Það er besta ráðið.“