Króm og hvítt ekki lengur allsráðandi
Í samtali við HÉR ER segir Ragnar að litaðir postulínsvaskar og salernisskálar eigi eftir að verða enn meira áberandi á næstunni. Hvítar postulínssalernisskálar- og vaskar séu einfaldlega ekki jafn eftirsótt og áður. Sífellt fleiri kjósi hreinlætistæki í lit. Sömuleiðis blöndunartæki. „Blöndunartæki í mismunandi litum og með allskonar áferð,“ segir hann, „til dæmis brass eða „gun metal“ áferð í stað hins týpíska króms.“ Með öðrum orðum sé króm og hvítt ekki lengur allsráðandi.
Veggfóður aftur trendí
Þá spáir Ragnar vinyl-veggfóðri auknum vinsældum. „Það er mjög fallegt á baðherbergjum,“ segir hann og nefnir sem dæmi að það geti gert mikið fyrir baðherbergi að setja vinyl-veggfóður fyrir aftan baklýsta spegla. Ragnar bendir á að baðherbergi séu búin að vera að þróast meira út í „spaherbergi“ síðustu misseri. Samhliða því séu „lifandi form að leysa af hólmi þessi ferköntuðu harðari form“, eins og hann orðar það. Sem dæmi segir Ragnar að flísar, sem hafa lengi vel verið eftirsótt gólf- og veggefni hérlendis, séu aðeins að dala í vinsældum og önnur efni að taka við; efni á borð við steinefnaspartl sem Ítalir kalla Stucco.
„Steinefanspartlið hentar vel í votrými og er hægt að nota sem gólfefni og inn í sturtu,“ lýsir hann. „Það er sett á með spaða af fagmönnum og síðan er því lokað með efnum til að fyrirbyggja að vatn komist inn í það. Við það kemur svona hrá „lifandi“ áferð á rýmið, sem kemur mjög vel út á baðherbergjum.“ Hann bætir við að það geti líka verið flott að blanda saman Stucco og fallegum flísum. „Ef við súmerum þetta upp þá er tískan sem er í gangi núna undir ákveðnum áhrifum frá tíunda áratugnum í bland við þann áttunda. Svona pastellitir og plöntuveggfóður,“ segir hann og brosir.
Gott skipulag gulls ígildi
Ragnar vill þó brýna fyrir fólki sem ætlar í framkvæmdir á baðherginu að skipuleggja sig vel. Gildi þá einu hvort til standi að gera baðherbergið alveg upp, hressa rækilega upp á það eða breyta smá til. „Það er mikilvægt að hugsa allar framkvæmdir til enda og ráðfæra sig við faglærða aðila. Það þarf að skipuleggja allt í þaula, vera búinn að hanna rýmið, ákveða tilfærslu lagna ef þörf krefur, ákveða lýsingu og velja efni og forgangsraða hlutunum svo útkoman verði sem best,“ segir hann, „enda setur maður víst ekki í bakkgír.“ Hann mælir líka með að hefja ekki framkvæmdir nema öll efni séu komin í hús því oft geti orðið bið eftir þeim.
Grunnir glerskápar, "statement" ljós og stórar flísar
Spurður hvort það þurfi að huga að einhverju sérstöku við val, til dæmis á innréttingum, segir Ragnar að grunnir speglaskápar fyrir ofan vaskinn séu alltaf góðir. „Því það má raða endalaust af snyrtivörum í þá,“ bendir hann á. „Síðan mæli ég með skúffum fyrir neðan vaskinn, það er þægilegra að nálgast hluti í þær heldur en að þurfa að beygja sig eftir þeim inn í skáp.“ Að sögn Ragnars er góð lýsing á baðherherberginu líka algjört lykilatriðið. „Óbein lýsing meðfram loftum og hillum og svo eitt „statement“ ljós við spegilinn, sem lýsir á andlitið á manni. Mjög mikilvægt að það sé í hæð við andlitið. Rétt hönnuð lýsing úr lofti og gott jafnvægi á því skiptir öllu máli.“
Þarf að huga að einhverju sérstöku þegar stórt rými á í hlut? Eða lítið? „Fólk á ekki að óttast stórar flísar,“ er Ragnar fljótur að segja. „Það er mýta að þær minnki rýmið.“ Hann bætir við að ef baðherbergi séu lítil þá sé alltaf heillaráð að hafa spegla í stærri kantinum, þeir geti látið rými virðast stærri.
Sniðugar og ódýrari lausnir
En lumar Ragnar á ráðum til að lífga upp á baðherbergið með litlum tilkostnaði?
„Það er auðvitað alltaf hægt að skipta um ljós, hressa upp á baðherbergið með smáhlutum eða bara mála,“ svarar hann. Sjálfur segist hann til dæmis alltaf vera hrifinn af vatnsmálningu með málmáferð í lofti.
Í lokin undirstrikar hann svo enn og aftur mikilvægi þess að ana ekki af stað út í framkvæmdir illa undirbúinn.
„Ekki vaða af stað nema þið séu með plan,“ segir hann með áherslu. „Gott skipulag skiptir ótrúlega miklu máli.“
Ef við súmerum þetta upp þá er tískan sem er í gangi núna undir ákveðnum áhrifum frá tíunda áratugnum í bland við þann áttunda, svona pastellitir og plöntuveggfóður.