Öll erum við litrík á einn eða annan máta og það ættu eldhúsin okkar líka að vera. Eldhús eru ekki lengur hugsuð einungis til að elda og geyma mat, því það er hér sem að hlutirnir gerast þegar góða gesti ber að garði - og að því sögðu, þá er fátt skemmtilegra en að krydda stemninguna með smávegis lit.
Ólívugrænn
Liturinn ólívugrænn er að koma sterkur inn í eldhúsrýmum sem og í fatnaði. Liturinn gefur okkur ákveðna ró sem er nauðsynleg þegar við sýslum í fjórum pottum í einu. Græni liturinn er orkuríkur, og oft tákn um hollustu - samanber græna orkudjúsa, spínat ofl. Hann er einnig táknrænn fyrir endurnýjun og nýtt líf samkvæmt Feng Shui svo eitthvað sé nefnt.
Blár draumur
Blálit eldhús hafa verið vinsæl undanfarið og munu halda ótrauð áfram, þá í hinum ýmsu litatónum. Þeir sem vilja prófa sig hægt áfram með bláa litinn, gætu byrjað á því að mála eyjuna bláa eða neðri skápana. Fyrir hina huguðu, þá er ekkert því til fyrirstöðu að ganga alla leið og jafnvel velja eldhúsgræjur í stíl.
Mjúkur sandur
Hlýr sandlitur er öruggt val fyrir þá sem vilja færa sig rólega frá hvítu en halda í bjarta tóna. Sandliti má finna í ótal litatónum og fyrir þá sem vilja djarfari skugga - geta fært sig yfir í karamellu lit eða terracotta, ef út í það er farið.
Grár með undirtón
Grár er ekki bara grár - og það reynist erfitt fyrir suma að halda sig frá þessum lit þegar staðið er frammi fyrir litavali. En það er algjör óþarfi að mikla þetta fyrir sér, því gráan má finna með grænum og brúnum undirtón sem gefa mikla hlýju og skapa jafnvægi.