Spörum gólfplássið
Í litlum stofum er gott að velja húsgögn sem virka „léttari”. Til dæmis sófa með fínlegri grind sem auðvelt er að ryksuga undir. Eins er sniðugt að hengja upp skápa og hillur á veggina til að fá þetta létta og fljótandi útlit sem gefur aukið rými og tekur ekki gólfpláss.
Við eigum öll húsgögn með sögu, eins og stóra kommóðu, stól eða annað húsgagn í yfirstærð sem hefur fylgt fjölskyldunni í áraraðir og oft og tíðum erfitt er að losa sig við. Stóra spurningin er þá kannski sú, hversu miklu plássi ertu tilbúin að fórna fyrir það?
Sófaborðið ekki of plássfrekt
Notar þú sófaborðið að mestu sem fótskammel? Þá er ráð að hugsa sófaborðið upp á nýtt til að fá meira pláss. Kannski að velja eitt sem er minna, eða með hillum - jafnvel eitt úr gleri sem virðist vera ósýnilegt og loftar vel um. Þannig færðu notagildi úr borðinu og þetta sjónræna verður að sama skapi léttara.
Svona fá skrautmunir að njóta sín
Það er auðvelt að elska skrautmuni, sem þó geta virkað yfirþyrmandi og stundum draslaralegir í lítilli stofu. Byrjaðu á því að flokka hlutina þína - plöntur, kertastjaka, vasa og svo framvegis og raðaðu saman á ákveðna staði þannig að það lofti um á milli, í stað þess að dreifa um allt rýmið.
Ljóst er léttara
Almenna reglan er sú að ljósir litir fái rými til að virka stærri og öfugt með dökka liti. Í litlum stofum er gott að halda sig við ljósa tóna - t.d. ljósgrátt eða beis. Og með því að velja t.d. sófa og veggi í sama lit, þá munu húsgögnin ekki virka of lítil eða of þung í rýminu.
Það er gaman að skreyta með veggfóðri, en í litlum stofurýmum er gott ráð að veggfóðra gluggavegginn. Þannig forðastu að mynstrið verði of mikið. Eins er gott ráð að hengja upp þunnar gardínur, það hjálpar til að mýkja upp mynstrið.
Glerhurðar eru smart
Ef það er ein eða fleiri hurðar sem tengja stofuna við restina af heimilinu, þá er hugmynd að skipta henni út fyrir glerhurð. Það hleypir meiri birtu inn og stofan virkar ekki eins lokuð fyrir vikið. Það finnast margar flottar glerhurðar í dag, þá einna helst sérsmíðaðar.