Vitra kannast margir við en fyrirtækið var stofnað í Sviss árið 1950. Í gegnum tíðina hafa margir af þekktustu hönnuðum heims hannað vörur fyrir fyrirtækið líkt og Charles og Ray Eames, George Nelson, Alexander Girard og Arik Levy ásamt fleirum. Það sem einkennir þá stefnu sem fyrirtækið starfar eftir er fullt listrænt frelsi hönnuðanna til eigin sköpunar sem endurspeglast síðan á skemmtilegan hátt í vörunum.
Charles og Ray Eames
Charles lærði arkitektúr í Washington University í St. Louis og hannaði fjölda bygginga í samstarfi við aðra arkitekta og hlaut mikið lof fyrir. Í upphafi fimmta áratugarins færði hann sig svo yfir í iðn- og vöruhönnun og kenndi við Cranbrook háskólann í New York. Í borginni lágu leiðir þeirra hjóna saman en Ray lagði stund á myndlist við Hans Hofmann School of Fine Arts og varð fljótt þekkt fyrir abstrakt verk sín. Hjónin fluttu svo saman til Los Angeles þar sem samstarf þeirra hófst í húsgagnahönnun fyrir framleiðandann Herman Miller. Árið 1957 gerði Vitra svo samning við fyrirtækið um framleiðslu á húsgögnum Eames-hjóna í Evrópu og Mið-Austurlöndum. Smátt og smátt hófst svo framleiðsla á öðrum vörum eftir hönnun hjónanna líkt og House Bird og Hang it all sem óhætt er að segja að hafi slegið í gegn.



George Nelson
George Nelson var menntaður arkitekt frá Yale háskóla. Á árunum 1932-34 stundaði hann svo nám við American Academy í Róm og þar kynntist hann módernismanum fyrir alvöru. Hann lagði einnig stund á blaðamennsku og skrifaði greinar um arkitektúr og húsgagnahönnun sem vakti athygli Herman Miller sem réð hann síðan í vinnu sem yfirhönnuð fyrirtækisins en hann gegndi því starfi allt til ársins 1972. Nelson hannaði ýmsar vörur fyrir fyrirtækið sem Vitra framleiddi svo fyrir Evrópumarkað og má þar til dæmis nefna fallegar vegg- og borðklukkur sem náðu gríðarlegum vinsældum.


Ball Clock er líklegast þekktasta útgáfan en hún fæst í mörgum skemmtilegum litatónum.


Alexander Girard
Alexander Girard var menntaður arkitekt og einn þekktasti hönnuður eftirstríðsáranna í Bandaríkjunum. Hann varð upphaflega þekktur fyrir textílhönnun sem hann gerði fyrir Herman Miller þar sem afgerandi form og litir voru einkennistákn hans. Ásamt textíl hannaði hann húsgögn og ýmsa listmuni sem Vitra framleiðir enn í dag. Alexander var mikill frumkvöðull og leita margir hönnuðir samtímans innblásturs í verk hans. Listmunir hans hafa ekki síður vakið athygli en mikil leikgleði einkennir þá.


Brúðurnar hafa í gegnum tíðina verið vinsælar sem tækifærisgjafir og orðnar að safngripum.


Einn vinsælasti bollinn ber heitið New Sun sem lýsir honum vel. Hver vill ekki byrja daginn á fullum bolla af sólskini?
Arik Levy
Arik Levy er menntaður iðnhönnuður frá Art Center College of Design í Sviss. Hann hefur í gegnum tíðina lagt stund á kennslu í París og verið með fjöldan allan af opnum vinnustofum í Evrópu. Einnig hefur hann fengist við sviðshönnun en árið 1997 stofnaði hann sína eigin hönnunarstofu ásamt Pippo Lionni þar sem hann hannar allt frá innsetingum og skúlptúrum til ýmissa vara fyrir hversdagslega notkun. Frá árinu 2000 hefur Levy verið í samstarfi við Vitra þar sem hann hefur hannað alls kyns skrifstofu- og skipulagsvörur með frábært notagildi.

Tool Box var hannað til þess að koma betra skipulagi á smáhluti heimilisins og skrifstofunnar sem annars þvælast oft fyrir.

Þú finnur fallegar gjafir sem standast tímans tönn í Smáralind.