Eldheit eldhús
Steldu stílnum
Kósíheit og keramik
„Ég held að náttúruleg efni verði áberandi á árinu og hlýir og notalegir litir og kósíheit almennt. Hör og keramik og ljósari viðarlitir í innréttingum. Þetta er svona það sem ég hef tilfinningu fyrir,“ segir Helga Sigurbjarnadóttir innanhússarkitekt þegar hún er spurð hvaða trend hún telji líkleg til að verða ofan á á árinu.
Helga útilokar þó ekki dökka liti og spáir þeim áframhaldandi vinsældum.
„Já, þetta dökka heldur alveg áfram.“
Djúpar litapalletur og loftlistar með „díteilum“
Hanna Stína innanhússarkitekt, sem hefur komið að hönnun fjölda fallegra heimila á landinu, tekur í sama streng. Hún reiknar með að dökkir viðartónar, þar sem æðarnar í viðnum njóta sín, verði vinsælir.
„Eins dramatískar djúpar litapallettur; djúpbleikir, brúnir og grænir. Litir sem henta vel á til dæmis veggi og loft og innréttingar líka,“ bendir hún á. „Og fyrst við erum að tala um loft,“ segir hún, „þá langar mig að nefna loft- og gólflista, en ég geri ráð fyrir að við eigum eftir að sjá slíka lista með meiri „díteilum“ en áður.“
Áberandi steintegundir, veggfóður og glamúr
Hanna Stína segist líka eiga von á að áberandi steintegundir í stórum stærðum verði eftirsóttar.
„Ég er að tala um arna, eyjur og áberandi steintegundir í anddyrum og á veggjum,“ útskýrir hún.
„Svo held ég að svona svört og hvít gólf, sem við sjáum svolítið af, verði enn meira áberandi,“ segir hún eftir smá umhugsun. „Svona Art Deco glam 2023. Það verður inni á nýja árinu. Glamúrinn verður allsráðandi.“
Þá verða náttúruleg veggfóður inni að mati Hönnu Stínu og sömuleiðis rattan og flauel sem hafa notið vinsælda.
Ég held að náttúruleg efni verði áberandi á árinu og hlýir og notalegir litir og kósíheit almennt. Hör og keramik og ljósari viðarlitir í innréttingum.
Mismunandi áferðir og bogadregnar línur
Ragnar er sama sinnis. „Við komum til með að sjá djúpa liti á veggjum, veggfóður, lista og rósettur. Allskonar mismunandi áferðir sem mynda ævintýralega stemningu.“
Hann segist heldur ekki vera í vafa um að bogadregnar línur og ávalir hlutir ryðji sér meira til rúms.
„Ég spái því að straumarnir á nýju ári taki okkur svolítið aftur í Art Nouveau-fílinginn,“ segir hann. „Ef fólk fílar það og ætlar sér út í stærri framkvæmdir á heimilinu þá getur komið mjög vel út að vera með bogadregin dyraop með engum hurðum, til dæmis á milli eldhúss og borðstofu. Það er ákveðinn karakter í því.“
Ragnar býst líka við að fólki muni í auknum mæli stilla litríkum húsgögnum á móti jarðlitum og náttúrulegum formum.
„Við erum að tala um flauelsáklæði á sófa og brass og marmara, sem verður áfram vinsælt. Svo er rétt lýsing lykilatriði.“
Ég spái því að straumarnir á nýju ári taki okkur svolítið aftur í Art Nouveau-fílinginn.
Austurlensk áhrif
Stella Birgisdóttir innanhússhönnuður, sem ásamt Hildi Árnadóttur arkitekt rekur Béton Studio arkitekta- og innanhússhönnunar stúdíó, tekur undir með þeim Ragnari og Helgu og segir að við munum sjá meira af notalegum litum á árinu og höri. Það fylgi meðal annars japönskum áhrifum sem komi til með að verða áberandi í hönnun.
„Rúm færast nær gólfi í svefnherbergjum og hreinar, beinar línur, við, bambus, hör, náttúrulegar ofnar körfur og veggteppi verða allsráðandi,“ nefnir hún í því samhengi.
Einfaldleiki í fyrirrúmi
Spurð hvað það sé sem hún telji að hrífi fólki við japanska hönnun segir Stella einfaldleikann helst heilla.
„Það sem heillar mest við japanska innanhússhönnun er ákveðið látleysi. Hver hlutur gegnir mörgum hlutverkum og allur efniviður er sem hreinastur. Í stuttu máli er þetta hönnun sem nærir líkama og sál.“
Ragnar kinkar kolli og segir að sumir muni sækja í látleysi á árinu.
„Einfaldleikinn, sem er auðvitað viss andstæða við þessi bogadregnu form og ávölu hluti sem ég nefndi áðan, hann á eftir að koma sterkur inn. Með öðrum orðum færri hlutir. Minni óreiða. Einfaldleiki.“
Það sem heillar mest við japanska innanhússhönnun er ákveðið látleysi. Hver hlutur gegnir mörgum hlutverkum og allur efniviður er sem hreinastur. Í stuttu máli er þetta hönnun sem nærir líkama og sál.
Eru opin rými á útleið?
Ekki alveg. En Hanna Stína segist vera nokkuð viss um að „strúktúraðri“ herbergjaskipan komi aftur í tísku.
„Fólk býr bara í einum sal núorðið með svefnherbergi og salerni. Til dæmis er enginn með sér borðstofu lengur af því það er alltaf fljótandi, opið rými milli eldhúss og stofu. Þetta er allt orðið bara einn geimur,“ bendir hún á. „En kannski þarf að fara að setja aðeins meiri hugsun í að skilgreina rýmin betur, upp á hljóðvist gera og fleira,“ segir hún og þar komi „strúktúraðri“ herbergjaskipan einmitt sterk til leiks.
Síðast en ekki síst
Ef það er svo eitthvað umfram annað sem Hanna Stína telur að verði „inn“ árið 2023 þá eru það gardínur. „Heldur betur, ég er að tala um gardínur sem geta umbreytt öllum rýmum hratt, þær verða vinsælar.“
Helga segist vera þeirrar skoðunar að mögulega muni fólk í auknum mæli horfa til gæða. „Já, ég hugsa að fólk fari að spá meira í þeim,“ segir hún vongóð, „og góðri endingu.“
Að mati Ragnars mun arkitektúr húsa síðan hafa áhrif á hvaða leiðir fólk kýs að fara í þessum efnum. „Í nýrri húsum munum við sjá meira af ljósari tónum og einfaldleika, á meðan rómantíski glamúrinn kemur til með að fá að njóta sín í eldri húsum,“ segir hann og kveðst gjarnan vilja nota tækifærið í lokin og brýna fyrir fólki að taka tillit til arkitektúrsins hverju sinni. Það geti skipt verulegu máli upp á útkomuna.