Leikrænir fylgihlutir
Mínimalíski stíllinn er á undanhaldi þetta árið, því óhætt er að segja að mismunandi áferð á veggjum, grafísk form í fylgihlutum og djúsí gólfmottur koma sterkar inn með haustinu.
Litur ofan á lit
Það hefur vart farið framhjá neinum að litir hafa verið mjög áberandi í innanstokksmunum. Litir sem prýða veggi, húsgögn og áklæði þetta haustið minna óneitanlega á kryddhilluna í eldhúsinu - við sjáum appelsínugulan, sinnepsgulan, brúnan, dökkbláan, flauelsrauðan og jafnvel bleikan.
Sinnep og grænir díteilar
Sinnepsgulur er ákveðinn nostalgíulitur sem ratar óspart inn á heimilið í ýmsum „dulagervum“. Og það er vart til betri viðbót við gula litinn en sá græni. Grænn kallar fram náttúruna í sínu besta formi og við tökum fagnandi á móti.
Rauður og blár - óútreiknanlegt par
Litirnir rauður og blár hafa sést víða saman, en hér um ræðir litaval fyrir hugrakka. Eflaust öruggt val að nota það í smærri einingum, til að fá ekki leið á því fljótt.
Litað gler er móðins
Við göngum vart inn í húsbúnaðarverslun án þess að verða var við litað gler í vösum, skálum, karöflum og jafnvel borðlömpum. Þetta trend er ekkert á förum, það mun bara vaxa ef eitthvað er.
Motta er miðpunkturinn
Mottur og teppi eru ómissandi á haustin, þegar lægðirnar byrja að banka á gluggana heima - og við þráum ekkert meira en að hafa það hlýtt og kósí. Motta eða teppi í heitum haustlitum ætti að vera skyldukaup ef þið spyrjið okkur.