Litur ársins 2024
Ár hvert velur Pantone lit ársins - sem virðist vera ráðandi í innanhússstraumum sem og fatatísku. Litur ársins, 13-1023 Peach Fuzz, einkennist af hlýju og notalegum augnablikum. Flauelsmjúkur ferskjutónn sem umvefur og auðgar huga, líkama og sál. Akkúrat það sem við þurfum á nýju ári!
Það leikur enginn vafi á því að þeir litir sem munu vera ráðandi þetta árið eru hlýir tónar, ef marka má helstu málningaframleiðendur þar ytra. Gulur, bleikur og ferskjulitur eru þeir sem verða hvað mest áberandi og hér má sjá liti sem málningarfyrirtækið Dyrup hefur valið sem liti ársins.
Tískuhúsið JLindeberg er með puttann á púlsinum með nýrri fatalínu fyrir vorið. Vörur frá JLindeberg fást í versluninni Kultur Menn í Smáralind.
Allt er leyfilegt
Það er óhætt að segja að það séu óskrifaðar reglur hvað varðar stíl og framsetningu. Þeir sem þora að vera persónulegir og fylgja eigin hjarta munu finna sig í að blanda saman ólíkum efnum og bjóða náttúrunni meira inn á heimilið. Það er ekkert sem stöðvar okkur í því að setja upp mynstraðar gardínur á móti viðargólfi og tröllvaxinni plöntu. En þess má geta að ólífu- og fíkjutré munu vera áberandi á komandi misserum.
Efnisval í fyrsta sæti
Smáhlutabox
Litlu hlutirnir þurfa líka sinn stað, og þar koma smáhlutabox til sögunnar. Lítil skrautleg box með loki munu vera meira áberandi á árinu og hjálpa okkur með skipulagið á þarflegum óþarfa.
Leyndardómurinn liggur á veggjunum
Eitt besta innanhússtips ársins er að rýna í myndir og listaverk sem prýða veggina heima. Takið einn litatón úr verkunum á veggjunum og notið í aukahluti eins og teppi, kerti og púða - þannig má skapa rauðan þráð á einfaldan máta, án þess að fara út í öfgar.
Metallic áferðir ríkja
Hvort sem um silfur eða gull er að ræða, þá munu metallic-áferðir halda áfram inn í árið. Þá ekki bara í smáhlutum, því við sjáum það líka í fatnaði, veggfóðri, flísum og fleiru. Brass hefur svo til átt markaðinn síðustu ár, en burstað stál og króm eru að stíga stórt skref sem heitustu trend ársins.
Lýsing eitt það mikilvægasta
Það hefur aldrei verið jafn mikil áhersla á vegg- og standlampa eins og þessa tíðina. Lýsing er eitt það mikilvægasta í öllum rýmum og hér má leika sér með allskyns útfærslur til að ná fram réttu stemningunni. Lampar eru margir hverjir eins og skúlptur út af fyrir sig, á meðan aðrir láta lítið fyrir sér fara en þjóna engu að síður stóru hlutverki. Við mælum með að hafa augun opin fyrir fallegum ljósum.
Gleðilegt vor segjum við nú bara!