„Fólk hættir til að misreikna skala, áferð og „layering“,“ segir Sæbjörg Guðjónsdóttir innanhúshönnuður, eða Sæja eins og hún er gjarnan kölluð, spurð hvaða mistök fólk geri helst þegar það ætlar að lífga upp á stofuna.
„Það fer út í búð og fellur kannski fyrir sófa eða borði eða öðrum stærri húsmunum, sem passa síðan ekki inn í rýmið sökum stærðar. Stærðina þarf nefnilega alltaf að hugsa út frá stærð rýmis og hvernig á að nota það,“ útskýrir hún.
„Er rýmið lítið eða stórt? Er hátt eða lágt til lofts? Er það breitt, langt eða mjótt og svo framvegis.“ Sæja segir að þetta séu allt atriði sem fólk þurfi að velta fyrir sér þegar það ætlar að breyta til í stofunni.
Góðar hugmyndir fyrir minni stofur
En hvernig er best að snúa sér ef stofan er til dæmis frekar lítil?
Sæja er fljót til svars. Hún bendir á þá sé mikilvægt að innrétta stofuna með „léttum“ húsgögnum; húsgögnum á fótum og jafnvel með opnu baki að hluta.
„Dragið þau frá veggjum og látið þau ekki snúa öll að sjónvarpinu,“ segir hún. „Ekki það að núorðið eiga margir sjónvarp á standi eða sniðugan myndvarpa svoleiðis að sjónvarpið þarf nú ekki að vera uppáhengt á einhverjum „heilögum“ sjónvarpsvegg sem allt snýr að, eins og var hér gjarnan áður fyrr. Það er liðin tíð.“
Hún segir að fólk eigi til að kaupa of stóra sófa í litlar stofur, jafnvel L-laga sófa, en það sé mjög bindandi.
„Þriggja sæta sófi, einn til tveir skemlar og léttur stóll virka hins vegar vel í þannig rými og eru ekki jafn bindandi. Þá er auðveldara að færa til húsgögnin þegar til stendur að taka á móti gestum. Þannig getur fólkið setið á móti hvert öðru og spjallað saman í stað þess að allir sitji í beinni línu,“ útskýrir hún. „Síðan þegar það á að horfa á sjónvarpið þá eru skemmlunum einfaldlega stillt upp við sófann og allir eru glaðir,“ segir hún og brosir.
„Verið síðan óhrædd við að snúa sófum jafnvel á ská í stofunni,“ heldur Sæja áfram og nefnir að þar komi bogadregnir sófar sterkir inn, en þeir njóti einmitt vaxandi vinsælda um þessar mundir.
Þá komi sófaborð úr gleri vel út í litlum stofum. Þar sem þau eru gegnsæ segir hún að heildaryfirbragð stofunnar verði ekki jafn þungt. „Svo er mikilvægt að leggja stóra mottu á gólfið, sérstaklega í opnum rýmum, til að ramma inn húsgögnin,“ segir hún. „Mottan á að ná undir flest húsgögnin og þannig tengja þau saman.“
Mikilvægt fyrir stærri stofur
Sæja segir að það sama gildi um stórar stofur, skalinn þurfi að vera stærri. Það komi jafn illa út að vera með of lítil húsgögn í stóru rými eins og að vera með of stór húsgögn í litlu rými. „Þá er gott að vera jafnvel með stóran hornsófa, opinn í endana og ekki á fótum og hafa síðan tvo stærri stóla á fótum á móti.“
Sömuleiðis geti verið sniðugt að skipta stofunni upp í tvö svæði. „Öðrum megin er hægt að hafa hefðbundið sófa / stóla svæði. Sófinn er þá látinn skilja svæðin tvö að með því að snúa baki í næsta svæði. Á því svæði væri þá hægt að hafa tvo sófabekki, sem eru eins og horneining og skemill og borð á milli. Þá eruð þið búin að skipta stofunni upp í tvö ólík svæði: eitt formlegra svæði og annað meira svona tjill svæði,“ segir hún og bætir við að í slíkum tilvikum séu svæðin hugsuð svolítið úti á gólfi, það er að segja ekki klesst upp að veggjum. Það geri að verkum að hægt sé að ganga í kringum svæðin tvö í stofunni.
Blandið saman mismunandi áferð
Að sögn Sæju þarf líka að hugsa stofuna „í hæðum“. „Svo allt sé ekki í beinni línu þegar horft er yfir svæðið,“ lýsir hún. Standlampar, lampar á hliðarborðum, gardínur sem ná upp í loft, hjálpi allt við að ná því fram.
„Síðan þarf að velta mismunandi áferð fyrir sér,“ heldur hún áfram. „Blandið til dæmis ull eða grófu áklæði saman við flauel og leður. En gætið þess að öll áklæði tali saman, hvað varðar tóna. Notið ekki of kalt á móti hlýju og mismunandi litatóna. Síðan er gott að velja einn „accent“ lit, sem sker sig aðeins frá, til að poppa upp rýmið. Takið svo inn aðra áferð, til dæmis leir með fallegum vasa og stein með hliðarborði eða öðru skrauti.“
Þá segir Sæja mikilvægt að spá í hvernig eigi að skreyta stofuna, eða það sem hún kallar „layering.“ „Þið eruð komin með húsgögnin og þá þarf að velja púða, teppi, myndir og skraut. Það sem setur punktinn yfir i-ið.“
Þarf ekki að kosta annan handlegginn
En hvernig er hægt að „hressa upp á“ stofuna án þess að borga fúlgu fjár fyrir?
„Það er alltaf einfaldast að breyta til með því að mála. Það er mesta breyting sem getur orðið á einu rými,“ segir Sæja. Eigi fólk kannski ekki alveg drauma húsmunina eða stór listaverk til að prýða hvíta veggi þá sé tilvalið að mála stofuna í einhverjum lit eða tón. „Og ekki gleyma loftinu,“ minnir hún á og brosir.
„Annað ráð er að taka saman allt „layering“, eða skraut, í stofunni og raða því upp á nýtt. Munið bara að það þarf ekkert að stilla öllu upp. Sumt má hvíla aðeins. Þá er seinna hægt að breyta til í stofunni með því að skipta einhverjum hlutum út fyrir aðra, sem maður er búinn að geyma. Þá fær fólk líka síður leið á þeim.“
Hún segir að síðan sé auðvitað alltaf hægt að „hressa upp á“ húsgögn með því að kaupa nýja púða og teppi.
Landsmenn farnir að taka meiri sénsa
„Það eru síðan ýmsar leiðir til að stilla hlutum upp,“ ítrekar Sæja. „Það þarf bara að hugsa aðeins út fyrir boxið.“
Finnst þér við Íslendingar stundum vera hrædd við það?
Hún hugsar sig um. „Já það hefur alveg verið þannig,“ segir hún svo. „Hjarðhegðun er svolítið rík í okkar samfélagi, sökum smæðar. Vöruúrval spilar líka stóran þátt, en það er alltaf að batna,“ tekur hún fram.
Sæja segir að heilt yfir séu landsmenn farnir að taka meiri sénsa. „Covid hafði þau áhrif að við vorum meira heima og þá fór fólk að nostra við heimilið og taka meiri áhættur og finna sinn stíl. Það er auðvitað bara frábært.“
Spurð í lokin hvar áhugasamir geti kynnt sér hennar verk nánar vísar Sæja á Instagram, undir saeja_interiors sé hægt að fylgjast með helstu verkefnum sem hún tekur sér fyrir hendur.