Það er óhætt að segja að það hafi verið skrúfað frá í mynstri, litum og efnisvali - því svo til allt er leyfilegt þegar kemur að því að innrétta heimilið.
Ösp með karakter
Það er ekkert nýtt af nálinni að sjá viðartegund vera nefnda sem eitt af helstu trendunum, ár eftir ár. En að þessu sinni er það öspin sem ætlar að stela senunni og það í óvenjulegri útgáfu. Því sérstakur útvöxtur á trjánum (er kallast poplar), veldur því að trefjarnar renna í mismunandi áttir og mynda þar að leiðandi einstaka byggingu í viðnum sem kemur sérstaklega vel út í húsgögnum. Það er eins og litlir hnútar eða göt myndist í viðnum og þegar hann er meðhöndlaður, verður útkoman fallegt mynstur.
Það var upp úr árinu 1920 sem slík viðarhúsgögn fóru að sjást og þóttu af fínni toga. Og nú 100 árum síðar er viðurinn aftur mættur til leiks og vinsæll sem aldrei fyrr - en það er ekki eins auðvelt að nálgast hann í þessu formi eins og aðrar viðartegundir sem við þekkjum. Því þykir hann enn sérstakari, sem hann svo sannarlega er. Við mælum með að hafa augun opin fyrir þessu nýja trendi.
Zebra mynstur snýr aftur
Zebra mynstrið hefur ekki verið eins lifandi og hlébarðamynstrið, sem hefur verið meira í sviðsljósinu og er enn. Svart-hvíta mynstrið er þó mun áhugaverðara ef þið spyrjið okkur, þar sem rendur myndast og renna líkt og vatnsár í ólíkar áttir og gera mynstrið einstaklega framandi. Það er töff að blanda saman zebra mynstri við aðra liti og poppa þannig upp á rýmið.
Áberandi dýramynstur fá eflaust einhverja til að hugsa aftur til tíunda áratugarins, á meðan aðrir sjá fyrir sér kærkomna tilbreytingu í húsgögnum sem og öðrum fylgihlutum. Hvort sem er, þá tökum við fagnandi á móti ögrandi áskorunum.
Plöntuinnrás
Við komumst vart af með að fullkomna heildarútlitið, nema með fallegum plöntum í farteskinu. Og það eru engar fréttir að grænblöðungar eru fastur liður í innanhústrendum en þetta hér er þó alveg nýtt, þar sem plöntur færa sig bókstaflega inn í húsgögnin okkar og verða enn meira áberandi en áður. Stærri tré hafa tekið bólfestu í hliðarborðum og minni plöntur sjást víða t.d. í sófaborðum.
Hvaða trend ert þú til í að innleiða inn á þitt heimili?