Sumarið og sólin er lent í garðinum heima. Og hér eru öll helstu leynitrixin í bókinni sem þú þarft að vita til að nýta pallinn sem best yfir bjartasta tíma ársins.
Til að nýta plássið sem best er gott að velja borð og stóla sem er ekki of umfangsmikið - sérstaklega ef plássið er af skornum skammti. Fyrir minni svalir er upplagt að velja klappstóla og borð sem hægt er að pakka saman þegar það er ekki í notkun.
Bekkir eru góðir til að sitja á, og slíka má finna með innbyggðu geymsluplássi sem gefur tvöfalda nýtni - og getur verið fullkomin lausn fyrir marga.
Útihúsgögn á hjólum eru nytsamleg, sérstaklega ef þú vilt eltast við sólina yfir daginn og færa húsgögnin til.
Það er fátt huggulegra en að umkringja sig með blómum og plöntum, þá inni sem og úti. Það ber þó að varast að hafa blómin í beinu sólarljósi, þar sem þau geta sviðnað undir heitum geislunum.
Prófaðu að hugsa lóðrétt! Það má einnig hengja plönturnar upp í loft, séu svalir fyrir ofan þig. Nú eða festa grind á vegginn og leyfa villiblómi að krækja sig þar í og klifra upp veggina.
Plöntur eins og klifurrósir, dreifa góðum angan - viljir þú fá náttúrulegan ilm í kringum þig utandyra.
Það má finna alls kyns plöntukassa undir öll sumarblómin, þá bæði frístandandi sem og hangandi á svalirnar - því það þarf ekki allt að vera í blómapottum.
Púðar og teppi í björtum litum eða með ólíkum munstrum er góð viðbót á pallinn. Ekki verra ef textíllinn þolir smá raka.
Ljósaseríur skapa góða stemningu á pallinn, en þær má hengja upp á milli trjáa, á pallinn sjálfann eða í sólhlífina. Sniðugt er að hengja seríur upp í mismunandi hæðum, til að forðast myrka staði.
Á síðsumarkvöldum er notalegt að sitja úti þegar byrjar að rökkva. Það finnast margir lampar sem hægt er að nota utandyra og eru þráðlausir. Eins má kveikja á nokkrum kertum til að fanga rétta andrúmsloftið.
Settu mottu eða teppi á svalagólfið, það mun gefa aukinn hlýleika og setja punktinn yfir i-ið.