Fyrst af öllu er að velja þema
Áður en við leggjum af stað í að skreyta borðin, þá er mikilvægt að sjá til þess að dúkarnir séu straujaðir og leirtauið hreint. Gott er að byrja á því að velja sér litaþema, því það setur tóninn fyrir restina af undirbúningnum og auðveldar okkur næstu skref varðandi val á skrauti, dúkum og öðru sem við kemur veislunni. Við mælum einnig með að kíkja á stílista-tips sem finna má HÉR.
Fáðu þér sæti - sæti!
Það eru engar fastar reglur hvað varðar sætaskipan. Margir sleppa því alveg yfir höfuð að útbúa slíkt á meðan aðrir leggja sig fram við að útbúa matseðla og borðkort fyrir hvern og einn gest. Það má útfæra hugmyndina á ótal vegu, hvort sem skrifað er á einfaldan pappír eða hugsa út fyrir kassann.
Svona gerir þú matseðil / borðspjald fyrir borðhaldið
- Prentið út (eða handskrifið) matseðilinn á gegnsæjan pappír.
- Klippið út þykkan pappa í þeim lit sem þið óskið og límið á hvítan þykkan pappír.
- Límið því næst gegnsæju örkina á pappírinn og gerið gat í gegn.
- Dragið leðurband í gegnum gatið og leggið matseðilinn á hvern og einn disk.
- Takið eftir litla gegnsæja pokanum með smákökunni sem geymir einnig nafn þess sem á það sæti.
Ekki gleyma servíettum og dúkum
Algengast er að velja hvíta dúka þegar kemur að fermingum, en það má alveg stíga frá þeirri „reglu” og velja dúka í lit - hvort sem það er á veisluborðið sjálft eða á öll borð fyrir gestina. Hvítur dúkur á borðum stelur ekki eins mikið athyglinni og litaður, en á sama tíma, þá skreytir litaður dúkur borðið meira en ella.
Servíettur geta verið af ýmsum toga, en fallegt er að velja tauservíettur í stíl við dúkinn eða í því litaþema sem valið er. Pappaservíettur eru þó langt um þægilegri í notkun og úrvalið er svo til endalaust þegar kemur að þeim. Það má brjóta um servíettur á ýmsa vegu, binda á þær hnút eða skreyta með nafnaspjöldum, greinum eða fallegum borða svo eitthvað sé nefnt.
Skrautið sem setur punktinn yfir i-ið
Borðskreyting er alltaf lokahnykkurinn við hvaða borðhald sem er, og í raun eru engin takmörk fyrir því hvernig við skreytum borðið. Það er þó gott að muna að skrautið þarf ekki að yfirtaka borðið, því það þarf líka að vera pláss fyrir mat og drykk.
BLÓM
Fersk blóm í vasa gefa góða angan og fylla veisluna af vori sem er rétt handan við hornið. Það er fátt sem jafnast á við litrík blóm þegar sest er til borðs, fyrir utan hvað blóm eru mikil skreyting út af fyrir sig og það þarf varla neitt annað.
KERTI
Kerti eru ómissandi hlutur við hvert borðhald - þau gefa hlýju og birtu hvar sem þau lenda. Fallegt er að blanda saman misháum kertum og sprittkertum til að skapa meiri dýpt á borðin. Kerti finnast í ótal litum, stærðum og gerðum og því ættu allir að finna kerti við sitt hæfi.
BLÖÐRUR
Það ætti að vera ólöglegt að halda veislu án þess að blöðrum sé boðið með. Blöðrur eru alltaf skemmtilegi „gesturinn” í veislunni sem kætir alla. Blöðrubogar hafa þótt vinsælir síðustu misseri og það er auðveldara en marga grunar að binda slíkan saman. Eins er fallegt að setja helíum í stærri blöðrur sem taka jafnvel á móti gestunum, eða festa nokkrar við þung lóð og setja á hvert og eitt borð - þá verður fallegt að horfa yfir salinn og sjá hvernig borðskreytingin teygir sig upp í loft.
Þá er bara um að gera að leyfa hugmyndafluginu að taka völdin!