Áhuginn á myndlist vaknaði snemma hjá Veru en hún man eftir sér ung að árum þar sem hún dundaði sér við að teikna myndir við sögur í bókum sem hún las. Hún var ekki há í loftinu þegar hún ákvað að verða sálfræðingur eða myndlistakona en hún hefur alla tíð haft mikinn áhuga á sálarlífi og huga mannsins en það má með sanni segja að það endurspeglist í verkum hennar.


Vera útskrifaðist af myndlistabraut Listaháskóla Íslands fyrir þremur árum með BA í myndlist. Þau hjúin fluttust búferla til Berlínar þangað sem ferill hans leiddi hann en á meðan nýtti Vera tækifærið til að öðlast reynslu og fór í skiptinám í ljósmyndun við The University of Applied Sciences Europe í Berlín þar sem þau Stefán bjuggu í fjögur ár. Í kjölfar heimsfaraldursins ákváðu þau að flytja heim aftur og eiga Miró á Íslandi.
En okkur leikur forvitni á að vita hvaðan innblástur að myndinni sem Vera deilir með lesendum HÉRER.IS kemur?

Ég er mjög hrifin af línunni yfir höfuð. Þegar ég teikna myndast flæði sem mér finnst koma fram í verkunum. Portraitið er miðill sem ég hef lengi verið hrifin af og notast við í myndlistinni. Oft er hægt að lesa mikið í það því við mannfólkið leitumst mikið í andlitið sem myndform og það er líka það sem við reynum að lesa hvað mest í í daglegum samskiptum. Myndin sem ég og teymið hjá HÉRER.IS völdum í sameiningu er stílhreint, í anda portraitmyndarinnar og höfðar því til margra.
En hvaða listamenn-og konur eru í uppáhaldi hjá Veru?
„Þeir sem eru í uppáhaldi eru meðal annars Jennifer Guidi og Louis Fratino. Jennifer gerir sandverk sem minna á einfaldar mandölur og spilar litur og ljós stærstan part í verkum hennar, mér finnst þau búa yfir einstakri ró og dulúð. Verk Louis eru mjög persónuleg þar sem hann málar augnablik úr eigin lífi og fólk sem hann elskar bæði á erótískan og hversdagslegan máta. Mér finnst verkin hans svo yndislega saklaus og hversdagsleg og ást hans á viðfangsefninu skín svo vel í gegn.”
Hómóerótískt verk eftir Louis Fratino. Róandi verk eftir Jennifer Guidi.



Vera segir mikinn heiður fylgja því að eiga listaverk sem prýða heimili landans. Sjálf hefur hún mikinn áhuga á innanhússhönnun og að skapa hlýlegt umhverfi og segist þess vegna vera sérstaklega þakklát fyrir það að fólk hafi áhuga á listaverkum hennar.