Fara í efni

Skotheld ráð til að stækka rými

Heimili & hönnun - 10. júní 2022

Að hverju þarf helst að huga við hönnun meðalsstórra og lítilla rýma? Nokkrir af helstu innanhússarkitektum og hönnuðum landsins gefa lesendum HÉR ER góð ráð.

Leikur að litum

Er hægt að stækka rými með málningu? Ekki spurning segir Berglind Berndsen innanhússarkitekt í samtali við HÉR ER. Berglind segist alltaf reyna að nota ljósa og mjúka jarðtóna í alrými og þá einn heildarlit. Á móti noti hún frekar dekkri liti inn í svefnherbergi og á böð, eftir því sem við á og sérstaklega inni í svefnherbergjum til að ná fram notarlegri stemmningu. „Maður sefur einfaldlega betur í herbergjum með dekkri litum,“ útskýrir Berglind, sem kveðst ekki hika við að nota sömu liti í loft.

Notaðu ljósa og mjúka jarðtóna í alrými og þá einn heildarlit til að herbergið virðist stærra. Ekki vera hrædd við að mála loft í sama lit og veggi.

Gott skipulag og flennistórar mottur

Þá skiptir gott skipulag máli ekki síður máli þegar á að láta rými virðast stærra að sögn Berglindar. „Líka efnisáferðir og litir upp á stemingu að gera og alla upplifun af rýminu,“ lýsir hún og heldur áfram. „Gott skipulag innréttinga, góð lýsing, rétt uppröðun húsgagna og flennistórar mottur. Þetta eru allt þættir sem geta látið lítil rými virka stærri.“

Epal, 108.000 kr.
Epal, 221.700 kr.
Snúran, 85.800 kr.

Verði ljós

Kristján Kristjánsson, lýsingarhönnuður og eigandi lýsingarhönnunarstofunnar Hildiberg, segir að ljós og birta geti einmitt haft mikil áhrif á það hversu stór rými virðast vera og því skipti máli að velja rétta lýsingu í minni rýmum.

Hann segir að sem dæmi eigi frekar að notast við jafna birtu sem endurkastast af veggjum og lofti svo það virðist stærra. „Bjartara rými virkar stærra, en við þurfum ekki meiri birtu eða meira af búnaði til þess, það er ekki rétt nálgun heldur ættum við að nýta þá veggfleti og loft sem endurkasta birtunni best inn í rýmið.“

Af hverju? „Með því að varpa ljósi á valda veggi og loftfleti er eins og ljósið sé að „þrýsta“ veggjum og lofti frá sér,“ útskýrir Kristján. „Og það verður til þess að „stækka sjónræna upplifun okkar“ af rýminu.“

Kastarar og spot-ljós ekki endilega málið

Kristján varar hins vegar við því að spot-ljós og kastarar séu notuð með vissum hætti í minni rýmum. „Ég mæli ekki með notkun spotljóss eða kastara, sem er vísað frá veggjum og lofti niður á gólf,“ segir hann. „Því þar sem birtan beinist eingöngu að gólfinu þá virkar lofthæðin minni.“ Áhrifin verði þau að rýmið „dragist saman“, sem sé einmitt andstæðan við notkun jafnrar birtu sem endurkastast af veggjum og lofti.

Kostir jafnrar birtu

Að sögn Kristjáns er ekki nóg með að jöfn birta, sem endurkastast af veggfleti eða lofti, komi betur út í minni rýmum, hún er líka betri fyrir umhverfið. „Því á meðan við nýtum aðeins 20 prósent af birtunni sem er varpað á gólf þá nýtum við 80 prósent af birtunni sem er varpað á loft og veggi,“ segir hann. „Við þurfum því minna af ljósum og minna af orku til að lýsa rými ef við vinnum með endurkastið frá ljósgjöfum á veggi og lofti.“

Margnota húsgögn og hlutir

Þar sem fermetrarnir eru ekki endalausir í minni rýmum er hver fermetri dýrmætur og því segir Bryndís Stella Birgisdóttir innanhússhönnuður, sem ásamt Hildi Árnadóttur arkitekt rekur Béton Studio arkitekta- og innanhússhönnunar stúdíó, gott að velja inn í þau bæði húsgögn og hluti sem hægt er að nýta á ýmsa vegu.

„Öll húsgögn og allir hlutir eru það í raun, það er í hægt að leika sér með þau eins og maður vill,“ tekur þó Stella fram. „Stóll getur til dæmis alveg eins gegnt hlutverki náttborðs eða geymlustaðar undir bækur,“ bendir hún á, „rétt eins og gömul sýruflaska getur verið lampi eða bekkur getur verið skenkur upp við vegg.“

Hún segir því gott að minna sig reglulega á að húsgögn og hlutir þurfi ekki að gegna einhverju stöðluðu hlutverki. „Það er hægt að finna þeim endalaust nýjan tilgang. Því geta þau nýst okkur á ótal marga vegu.“

Stóll getur til dæmis alveg eins gegnt hlutverki náttborðs eða geymlustaðar undir bækur.

Svæðaskipt rými

Vilji fólk að láta minni rými líta út fyrir að vera stærra en það er í raun og veru getur að sögn Stellu verið sniðugt að skipta því upp í nokkur minni rými. „Sem dæmi er hægt að stilla húsögnum upp fyrir miðju rými,“ nefnir hún. „Það þarf ekki að setja alla hluti upp við vegg, þeir geta líka notið sín út á miðju gólfi.“

Önnur aðferð og ekki síður sniðug að mati Stellu er að nota mottur til að aðgreina svæði heimilisins, en ýmsir innanhússhönnuðir og arkitektar, þó ekki allir, eru á því að það geti látið minni rými líta út fyrir að vera stærri.

Hér má sjá dæmi um fallega svæðaskipt rými.

Eitt gólfefni og færri hlutir

Helga Sigurbjarnadóttir innanhússarkitekt mælir með að sama gólfefnið sé notað í minni rýmum. „Það er góð hugmynd að nota sama gólfefnið en með því myndast meiri heild og rýmin renna betur saman,“ útskýrir hún.

Eins sé betra að hafa færri hluti en fleiri og passa að hafa þá ekki of stóra. „Liturinn skiptir ekki öllu máli heldur frekar umfangið.“ Þá sé líka gott að hafa hirslur vegghengdar frekar en að hafa þær standandi á gólfi.

Spegill, spegill herm þú mér

Loks segir Helga góða hugmynd að nota spegla til að ná fram stækkunar áhrifum og um að gera að hafa þá frekar stóra. „Í minni rýmum mæli ég með að hafa umgjörðina netta frekar en að hafa spegla með miklum og þykkum ramma.“

Snúran, 41.400 kr.
Spegill frá Ferm Living, Epal, 49.900 kr.

Meira úr heimili & hönnun

Heimili & hönnun

Óskagjafir fagurkerans

Heimili & hönnun

7 atriði sem láta stofuna virka stærri

Heimili & hönnun

Kryddaðu upp á eldhúsið

Heimili & hönnun

Huggó haustlína H&M Home

Heimili & hönnun

„Hélt að ég væri hreinlega eina unga konan að greinast með krabbamein“

Heimili & hönnun

Leynitips stílistans fyrir svefnherbergið

Heimili & hönnun

Heitustu hausttrendin fyrir heimilið

Heimili & hönnun

Sumarlegt og sætt í H&M Home