Þórunn mælir með því að flækja ekki hlutina fyrir veisluhöld og er orðin mjög sjóuð í því að útbúa einfalda rétti. „Allskyns pinnamat, litlar samlokur, míní-pizzur, litlar kjötbollur, það er svo margt sem hægt er að gera sem er fallegt á borði, en líka bragðgott. Svo finnst mér líka skipta máli hvernig framsetningin er á réttunum eins og diskar, skálar og þess háttar. Ég nota litlar flöskur fyrir blóm eða krukkur sem hægt er að nota aftur og aftur og endurnýti vel og vandlega. Ég geymi allar krukkur af gríska jógúrtinu frá Örnu, til dæmis og pastasósuflöskur finnst mér líka flott að nota þegar ég dekka upp veisluborð.“
Vænlegar veitingar og skreytingar á veisluborðið
Heimatilbúnir merkimiðar, hollustusnakk, einfaldar kræsingar og sætar skreytingar gera veisluborðið einstakt í anda Þórunnar Högna. Hér eru nokkrar góðar hugmyndir að veitingum og skreytingum á veisluborðið.
Þessi kaka er fullkomin á veisluborðið og er bæði ljúffeng og tekur enga stund að græja. Ég keypti tilbúna svampbotna og skreytti svo með nutella-súkkulaði, rjóma og allskyns ávöxtum.
Hafrar, jógúrt og ferskir ávextir eru tilvaldir á veisluborðið ef þú ætlar að halda bröns.