Ekki nóg að vera flott
Til að eldhús verði vel heppnuð segir Helga ekki nóg að hanna þau með flottheitin ein í huga, praktísk sjónarmið verði einnig að fá að ráða för. Hún segir hins vegar suma hætta til að flaska á praktísku atriðunum og útkoman verði eftir því.
„Það er til dæmis algengt að fólk geri ítarlegan óskalista yfir það sem það vill hafa í eldhúsinu, búr, tækjaskáp og fleira, án þess kannski að taka mið af stærð rýmisins. Síðan verður það fyrir miklum vonbrigðum þegar þessir hlutir ganga illa upp,“ segir hún. „Það er nefnilega þannig að stundum er einfaldlega betra að hafa minna en meira til að ná sem bestri nýtingu.“
Lýsingin skiptir höfuðmáli
Mikilvægt að hafa í huga
Að sögn Helgu eru ýmis fleiri atriði sem mikilvægt er að athuga áður en ráðist er í framkvæmdir. Skipulag, geymslurými og vinnupláss, séu til dæmis allt atriði sem þurfi að leiða hugann að svo að útkoman verði sem best.
„Það er mikilvægt að reyna að skipuleggja eldhúsið þannig að ekki sé of langt á milli vinnusvæða, eins og eldavélar, vasks og ísskápar og að allt aðgengi sé gott,“ nefnir hún. „Eins er áríðandi að reyna að nýta vinnuplássið sem best og huga vel að staðsetningu á tækjum til að skapa gott og þægilegt vinnupláss.“
Geymslurýmið þurfi líka að vera gott og þar af leiðandi segist Helga alltaf leggja áherslu á að vera með „sem mest útdraganlegt í neðri hluta innréttinga í eldhúsum“. „Þar skiptir gott skipulag miklu máli,“ bendir hún á.
Þá sé góð lýsing líka nauðsynleg þar sem eldhúsið sé mögulega mest notaða vinnurýmið á hverju heimili. Hún undirstrikar að sérstaklega þurfi að huga vel að lýsingunni á þeim svæðum sem mest er unnið við.
Óskiljanlegur hræðsluáróður
Spurð hvernig þessi praktík og hagkvæmisrök rími við núverandi eldhústísku segir Helga að auðvitað þurfi líka að hafa praktíkina í huga þegar kemur að efnisvali og útliti. „Það skiptir til dæmis máli að efni sé auðvelt í þrifum og að ekki sjái mikið á því,“ segir hún.
Hún bendir á að of dökkar eða of ljósar innréttingar geti verið erfiðar, en í því samhengi skipti aftur á móti efnisvalið sjálft töluverðu máli.
Þá séu alveg slétt og einlit yfirborð oft erfiðari en þau sem eru mynstruð eða með „einhverri hreyfingu í“.
Mynstruð eða með „einhverri hreyfingu í“, áttu við efni eins og við og marmara sem eru í tísku um þessar mundir?
Helga kinkar kolli.
Og fyrst við erum farin að ræða tískuna þá segist innanhússhönnuðurinn hafa fulla trú á því að viður og marmari haldi vinsældum sínum, enda stafi frá þeim hlýleiki sem sé yfirleitt gott í rýmum. „Marmari og viður hafa verið áberandi og ég held að ástæðan sé að þessi efni eru einfaldlega hlýleg og notaleg viðkomu.“
Ef eitthvað er segist Helga halda að með aukinni fræðslu eigi marmari til dæmis eftir að verða enn eftirsóttari hérlendis. „En hingað til hefur verið hálfgerður hræðsluáróður gagnvart honum á Íslandi gagnstætt því sem tíðkast í öðrum Evrópulöndum,“ segir hún, án þess að hún geti sagt almennilega til um ástæðuna.
Fegurðin í litlu hlutunum
Gólfefni sem virka
Þá nefnir Helga að gólfflísar séu að koma aftur í tísku. „Enda praktískar að mörgu leyti,“ bendir hún á. „Sérstaklega þar sem gólfhiti er fyrir hendi.“
En bíddu, því hefur nú einhvern tímann verið fleygt fram að gólfflísar henti einmitt illa í eldhúsum þar sem brothættir hlutir geti farið illa ef þeir detta í gólfið? Ertu þá ósammála þeirri fullyrðingu?
„Já og nei,“ svarar hún. „Það er að mörgu leyti praktískt að hafa flísar á eldhúsgólf, sérstaklega þar sem þær eru mjög slit- og vatnsþolnar,“ útskýrir hún. „En að sjálfsögðu eru þær mjög harðar og það sem er brothætt og dettur á þær fer yfirleitt í þúsund mola. Þrátt fyrir það mæli ég alveg með flísum á eldhúsgólf.“
Hvað viðvíkur gólfefnatískunni almennt segir Helga að harðparket séu síðan alltaf vinsæl en persónulega mæli hún með alvöru viðargólfi. „Það er að segja ef fólk vill hafa þennan hlýleika í gólfefni,“ tekur hún fram.
Gólfflísar eru aftur komnar í tísku enda praktískar að mörgu leyti, sérstaklega þar sem gólfhiti er fyrir hendi.
Opin eða lokuð eldhús?
Hvað varðar rými segir Helga opin eldhús hafa vinninginn. „Undanfarið hafa reyndar lokuð eða hálflokuð eldhús sótt á,“ flýtir hún sér að segja. „Kannski af því að fólk vinnur orðið meira heima og þá er oft gott að hafa rými örlítið meira aðskilin.“
Fyrst við erum farin að ræða tískuna, þá hefur eldhúseyjan verið vinsæl um langt skeið. Má búast við að hún haldi velli?
„Já, hún er klárlega inni og ég held að hún komi til með að vera það áfram,“ svarar hún.
Ódýrar og sniðugar lausnir
Spurð í lokin hvort hún lumi á einhverjum góðum ráðum til að hressa upp á eldhúsið með litlum tilkostnaði hugsar Helga sig um og segir síðan að til dæmis geti verið sniðugt að skipta út minni og ódýrari hlutum, eins og höldum og blöndunartækjum.
„Eins má skipta út borðplötu og velja ódýrari kost en steinplötu,“ nefnir hún. „Veggfóðra hluta eldhússins og/eða mála í einhverjum fallegum litum.“
Rétt eins og náttúruleg efni eins og viður og marmari njóta vinsælda eru náttúrulegir litir heitir um þessar mundir að sögn Helgu; náttúrulegir, mattir og mildir. Hún segir ástæðuna fyrir því vera ósköp einfalda. „Slíkir litir er bara svo þægilegir,“ útskýrir hún. „Bæði fyrir augað og sálina.“
Er einmitt ekki mikilvægt að reyna að skapa notalega stemningu í eldhúsinu sem tekur mið af hlutverki þess?
„Ekki spurning,“ segir hún og brosir. „Við eyðum oft miklum tíma á þessu svæði og þar þarf okkur að líða vel.“
En hvernig er það, geta áhugasamir leitað til Helgu til eftir frekari ráðleggingum?
„Algjörlega,“ svarar hún glaðlega. „Ég er í fullu starfi sem innanhússarkitekt og því er meira en sjálfsagt að leita til mín nánari aðstoð.“