Léttur lúxus
Síðustu misserin hefur lúxusstíll sem kaninn kallar Quiet Luxury verið að trenda á samfélagsmiðlum. Í grunninn erum við að tala um flíkur og fylgihluti úr gæðaefnum, án þess að stórt og áberandi lógó sé í forgrunni. Tökum ítalska hátískumerkið Bottega Veneta sem dæmi. Flíkur sem litu í fljótu út fyrir að vera úr gallaefni, bómull og flannel voru allar úr leðri. Gott dæmi um að þú ein veist af lúxusnum. Við höldum áfram að sjá blazera og dragtir í yfirstærð, þannig að það sem þú átt nú þegar í fataskápnum mun þokkalega halda áfram að standa með þér á næstunni.
Ítalska tískuhúsið Bottega Veneta sendi flíkur niður tískusýningarpallinn sem litu í fljótu út fyrir að vera úr gallaefni, bómull og flannel en voru allar úr leðri. Gott dæmi um að þú ein veist af lúxusnum.
Því stærri, því betri
Gallaefnið tröllríður tískuheiminum um þessar mundir og við sjáum gallaskyrtur paraðar við gallabuxur, gallapils við gallajakka og svo framvegis. Hvað gallabuxurnar varðar eru þær hafðar víðar og síðar, svolítið eins og þú hafir fengið þær lánaðar frá (miklu stærri og breiðari) kærasta.
Steldu stílnum
Trylltar og tröllvaxnar tuðrur
Það er annað hvort í ökkla eða eyra í tískuheiminum en hver man ekki eftir fáránlegu míní-töskunum sem slógu í gegn (allavega á Instagram) fyrir ekki svo löngu síðan? Nú ræður praktíkin ríkjum og það kunnum við að meta. Töskurnar sem eru að trenda geyma töluvert meira en eitt kreditkort, þú getur vel týnt aleigunni í þessum.
Steldu stílnum
Ballerínuskór
Í takt við tískuna á tíunda áratug síðustu aldar hafa ballerínuskórnir tekið vinsældarkipp. Tískuspekúlantar vestanhafs vilja meina að þessi týpa sé sú eina sem skiptir einhverju máli þegar skótrend næstu mánaða eru annars vegar.
Steldu stílnum
Metal
Við erum ekki vön að tengja gull- og silfurflíkur við vor og sumar en í ár er undantekning frá reglunni. Kjólar, bolir og meira að segja gallabuxur verða í metal-litum.
Steldu stílnum
Heimaprjónað
Prjónaðir og heklaðir kjólar, peysur, toppar og bolir eru eitt stærsta trend sumarsins og ófáir sem eiga eftir að taka fram heklunálina eða prjónana og spreyta sig á heimatilbúnum tískuvarningi. Þið lásuð það hér!
Steldu stílnum
Læmgrænn
Ef einhver litur var meira áberandi en annar á vor- og sumartískusýningarpöllunum var það læmgrænn. Ef þig vantar dass af sól og sumri inn í fataskápinn eftir langan og dimman vetur gæti flík eða fylgihlutur í þessum áberandi lit verið málið.
Steldu stílnum
Með indí ívafi
Z-kynslóðin kallar þennan stíl hugsanlega indí en við sem erum fæddar áttatíu og eitthvað finnst við hafa séð þetta allt saman áður, svona í kringum 1993-1997 sirkabát. Við erum að tala um stóra gallajakka, cargóbuxur, hnésíð pils, toppa yfir boli og allt heila klabbið. Við kvörtum ekki enda skemmtileg nostalgía og vel hægt að setja ferskan svip á þessa tísku fyrir sumarið 2023. Indí í bland við næntís mínimalisma, það er eitthvað!
Steldu stílnum
Mótorhjólastíll
Leyfðu þinni innri mótorhjólapíu að blómstra í sumar með leðurjakka í mótorhjólastíl eða fjárfestu í góðum leðurbuxum. Rokk og ról!
Steldu stílnum
Við kvörtum ekki yfir indí-trendinu enda skemmtileg nostalgía og vel hægt að setja ferskan svip á stílinn fyrir sumarið 2023.
Hnésítt
Hnésíðu pilsin eiga kombakk með hækkandi sól og það er vel. Fátt er eins klæðilegt og vel sniðið, hnésítt pils en nú mega þau gjarnan vera úr gallaefni eða leðri og parast við hlýraboli, skyrtur og blazera. Miu Miu paraði hnésíðu pilsin sín meðal annars við smart toppa og létu sjást í nærbuxnastrenginn, sem okkur fannst töff útfærsla-allavega fyrir þær sem vilja vera extra mikið trendí.